Þrír Íslendingar, stjórnendur fyrirtækja sem tengjast Samherja í Namibíu, sæta ákæru fyrir aðild sína að mútumáli. Þetta kom fram í máli saksóknara við fyrirtöku málsins fyrir dómstól í Windhoek í morgun.
Mennirnir þrír eru samkvæmt ákæruskjali Ingvar Júlíusson, Egill Helgi Árnason og Aðalsteinn Helgason, að því Kjarninn greinir frá.
Greint var frá mútugreiðslum Samherja í Namibíu í sjónvarpsþættinum Kveik, Stundinni, hjá Al-Jazeera og á uppljóstrunarsíðunni Wikileaks í nóvember 2019. Sjö Namibíumenn eru ákærðir í málinu, þeir Bernhard Esau, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sacky Shanghala, James Hatuikulipi, Mike Nghipunya, Tamson Hatuiklulipi, Ricardo Gustavo and Pius Mwatelulo. Hage Geingob, forseti Namibíu, hefur einnig verið bendlaður við málið sem hefur skekið stjórnmálin þar í landi og SWAPO-flokkinn sem hefur verið við völd um langt skeið.
Samherji birti í morgun tilkynningu á heimasíðu sinni um málið og segir fyrirtækið að ekkert óvænt sé í málaferlunum. „Á þriðja tug namibískra ríkisborgara eru sakborningar í málinu en við fyrirtöku í morgun var greint var frá því að saksóknari hefði í hyggju að bæta við ákæru á hendur á þremur namibískum félögum sem tengjast Samherja og stjórnendum þeirra,“ segir á heimasíðu Samherja. „Samkvæmt namibískum lögum leiðir ákæra á hendur þessum fyrirtækjum sjálfkrafa til þess að stjórnendur þeirra sæta ákæru vegna stöðu sinnar.“
Athugasemdir