Öll erum við allskonar, af ýmsum þjóðernum, af ýmsum kynjum, með mismiklar væntingar, vonir og þrár og einkenni meðfædd eða lærð og þótt ekkert okkar sé með hæfileika á öllum sviðum erum við öll góð í einhverju og mörg okkar ágætlega aðlögunarhæf. Við höfum ákveðna staðla um hitt og þetta eins og hvers konar rafmagnsinnstungur setja eigi í hús og staðlar eru svo mikilvægir á sumum sviðum að við höfum lög um staðla og sérstakt staðlaráð sem sér um að lögum um staðla sé framfylgt.
Þótt tíska og hjarðhegðun lúti ekki lögum þessum eru samt ákveðnir óskráðir staðlar um ýmislegt sem okkur er kennt að miða við. Viðurlögin við að brjóta þá staðla er ekki sekt í boði íslenska ríkisins heldur útskúfun og jaðarsetning. Þetta uppeldi byrjar mjög snemma á æviskeiði okkar og það má eiginlega segja að það byrji strax í móðurkviði þegar sónarmyndin gefur vísbendingu um lögun kynfæra okkar. Þá byrjar umhverfið sem við fæðumst í að flokka okkur, setja okkur bleikt eða blátt box og ákveða hver við erum og hvernig skuli ala okkur upp út frá kyni. Þegar við erum fædd er það tískan, sem umhverfið aðhyllist hverju sinni, sem setur okkur á þann stað sem einhverjum finnst að við eigum að vera á, útaf einhverju sem fáir eða nokkur getur almennilega útskýrt án þess að það komi asnalega út. Svo förum við í leikskóla og þar fáum við einkunn og umsögn fyrir hegðun og þroska sem miðast við ákveðna staðla og síðan í grunnskóla. Þegar börn hefja nám í grunnskóla má segja að þau séu komin í samfélag sem býður m.a. hættunni á einelti og jaðarsetningu heim. Í mörgum skólum er það þannig að ef krakki er ekki í réttu fötunum, segir ekki réttu orðin, líður ekki eins og hinum og er ekki eins og hin þá má segja að einhverskonar veiðileyfi megi gefa á hann. Það má af því krakkinn er skrítinn, hann gengur ekki í takti við aðra krakka og þá er hann gjarnan jaðarsettur, sem er auðvitað galið því í raun og veru er furðulegt og slítandi að þurfa stöðugt að bera sig saman við aðra.
Það er streituvaldandi að vera í sífelldri vinnu við að sitja og standa eins og öðrum finnst
Það er streituvaldandi að vera í sífelldri vinnu við að sitja og standa eins og öðrum finnst og vita samt ekki við hvern á að miða eða hvers vegna. Og þegar betur er að gáð má spyrja; hverjir eru eiginlega þessir „aðrir“? Hver eru í alvöru viðmiðin? Er barn merkt fyrirtækjum sem selja fáránlega dýran fatnað viðmiðið? Er barn sem fer oft til Ameríku og á foreldra sem líta út eins og Hollywoodstjörnur viðmiðið? Er barn með sterkan bakgrunn, menntaða foreldra, sem er alltaf búið með heimaverkefnin og gerir allt sem lagt er fyrir það viðmiðið? Hvar liggja staðlarnir? Veit það einhver? Fer það eftir viðmiðum skólans eða vinnustaðarins og hver er það nákvæmlega sem ræður hvaða viðmið skal nota? Það segir sig bara sjálft að samfélag sem undir niðri ætlast til að fólk beri sig saman við ákveðið fólk til að geta hagað sér og klætt sig „rétt“ til að vera ekki álitið skrítið, hlýtur að vera á einhverskonar villigötum. Samfélag sem tekur sér rétt til að jaðarsetja og lítillækka fólk sem gengur ekki í takti við einhverja staðlaða viðmiðunarfjölskyldu, eingöngu út af því, hlýtur að vera að gera eitthvað rangt.
Fyrir nokkrum árum var ég ráðin umsjónarkennari bekkjar á miðstigi og eins og gera má ráð fyrir var ég ofsalega heppin með bekk. Í þessum bekk, var klár, hugmyndaríkur og skemmtilegur nemandi sem hafði, eins og allir hinir nemendurnir í bekknum, sérlega góða nærveru og áhugaverðan karakter. Samt upplifði hann sig jaðarsettan og skrítinn, skildi ekki viðmiðin og staðlana sem í boði voru, passaði ekki í stakkinn sem hann upplifði að honum væri sniðinn og leið mjög illa með það. Í upphafi skólaárs settist ég niður með bekknum mínum í þeim tilgangi að búa til bekkjarreglur. Ég var vel undirbúin fyrir þennan bekkjafund því það er mín og annarra reynsla að þegar börn fá tækifæri til að búa til bekkjareglur þá verða þau ívið of ströng við sjálf sig og þá er mikilvægt að kennarinn sé á kantinum og dragi aðeins úr svo hægt sé að anda fyrir regluverki í skólastofunni. En semsagt, eftir nokkrar umræður um hvaða þætti þyrfti að hafa reglur um og að rökstuðning þyrfti að hafa með hverri tillögu settust nemendur, áhugasamir með alvörusvip niður, til að búa til reglur sem farandi væri eftir.
Þegar þau voru tilbúin var sest að rökstólum, reglurnar voru lesnar upp, rökstuddar og ræddar og síðan var kosið um hvort reglan ætti að fara á blað eða ekki. Stundum komu breytingatillögur og allt var þetta dásamlega lýðræðislegt. Reglurnar sem lagðar voru fram voru flestar keimlíkar venjulegum skólareglum og þær sem voru ekki samþykktar voru reglur um fatnað því kennaranum fannst húfa ekki vandamál á meðan fólk mætti ekki nakið í skólann. Þær reglur sem voru samþykktar lutu að því að ganga vel um umhverfi sitt, flokka sorp og koma vel fram hvert við annað.
Ein regla sem lögð var fram vakti okkur öll til umhugsunar og umræðu. Hún kom frá umræddum nemanda og hljóðaði svo „Að vera skrítin“. Rökin voru þau að ef við öll værum skrítin alla daga væri það viðmiðið og þá myndi engum líða utangarðs og öðruvísi. Rökstuðningurinn dugði og reglan komst inn. Þegar kosningu um bekkjarreglur lauk bjuggu nemendur til skrautlegt og skemmtilegt „regluverk“ plakat, fyllt af reglum í öllum mögulegum litum og glimmeri og hengdu á hurð skólastofunnar okkar. Reglurnar okkar voru teknar í notkun og það „að vera skrítin“ var ekki bara eitthvað sem mátti, heldur var það regla sem þurfti að virða og fara eftir. Þessi regla breytti eiginlega öllu og á góðan hátt. Hún gerði það að verkum að við fórum að ganga í mislitum sokkum, fötum sem pössuðu ekki saman, úthverfum fötum, mislitum skóm, með hárkollur, mismunandi höfuðföt, ég prófaði að vera með annað augað málað og keypti fullt af óvenjulegum gleraugum til að nota í skólastofunni og skólastofan fylltist af „skrítnu“ fólki sem hafði engin tískuviðmið önnur en regluna „að vera skrítin“.
Það varð venjulegt að vera skrítin
Fyrst var þetta sniðugt og skemmtilegt, svo varð þetta „norm“. Það varð venjulegt að vera skrítin. Það þróaðist mjög hratt og rökstuðningurinn hélt. Ekkert okkar upplifði sig jaðarsett með þessa reglu í skólanum. Vissulega komu upp dagar þar sem nemendur urðu þreyttir á þessu, nenntu þessu ekki og fannst þetta erfitt því vissulega getur verið erfitt að vera skrítin. Mál sem spruttu upp í kringum þetta voru iðulega rædd á vikulegum bekkjarfundum, ýmist sem mál á dagskrá eða í liðnum „önnur mál“. Þá hlustaði bekkurinn á málshefjendur, ræddi málin og kom með lausnir sem ýmist héldu eða ekki. Það má því segja að bekkurinn hafi meira og minna allur, á einhverjum tímapunkti yfir veturinn, fundið fyrir einhverjum erfiðleikum við að halda regluna „að vera skrítin“. Samt var það svo að engin beiðni var lögð fram á fundi um að afleggja regluna en ég átti auðvitað von á að það gæti gerst.
Ég hef þann sið að á hverjum morgni bið ég nemendur, einn og einn í einu, um að standa upp, kynna sig og svara einni spurningu. Spurningarnar sem ég spyr eru einfaldar og auðveldar til að byrja með. Fyrst spyr ég um afmælisdag, stjörnumerki og hvaða viðhorf séu til þeirra, uppáhalds ... eitthvað og síðan þegar þau eru orðin vön að standa upp fyrir framan bekkjasystkin sín og svara einföldum spurningum án þess að blikna, þá fer ég að nýta mér þetta til að fá þau til að mynda sér skoðun og rökstyðja. Þessi morgunsiður minn varð þess valdandi að nemendur náðu að kynnast betur innbyrðis og samsama sig hvern við annan á annan hátt en þeir höfðu áður gert. Þannig kynntust þau nýjum hliðum hvert á öðru og sáu að þau voru öll með einhverjar sérviskur og skoðanir sem voru kannski bara skrítnar. Það komu líka upp umræður þar sem farið var í að skoða hvað það þýðir að vera skrítin. Niðurstaðan varð sú að það að vera skrítin er bara að vera öðruvísi en aðrir sem leiddi til umræðu um hverjir þessir aðrir gætu verið og það eru hinir eru bara fólk sem er ekki ég.
Allar þessar pælingar urðu til þess að átta sig á að við erum eins og við erum og í raun og veru er nákvæmlega allt fólk skrítið. Best gengur okkur að vera við sjálf og ef ætlast er til að við séum eins og einhver annar þá virkar það bara vont og skrítið. Eftir þennan vetur voru nemendur mínir sterkari og samheldnari og ég er sannfærð um að þessi regla hafi átt stóran þátt þar um. Andinn í skólastofunni var orðinn miklu léttari, meiri gleði ríkti, þau sýndu hvert öðru meiri umhyggju og umburðarlyndi jókst ásamt vináttu og virðingu. Ég kom út skrítnari en nokkurn tíma og hef haldið þeim sið að nota einungis „skrítin“ gleraugu, ég er hætt að sortera sokka og er nákvæmlega sama hvort buxurnar mínar séu úthverfar eður ei.
Ég mæli svo sannarlega með reglunni „að vera skrítin“ í öllum kimum, skólum og vinnustöðum. Það getur dregið úr streitu og aukið sjálfsöryggi og sjálfstraust og gert það að verkum að fólk sem upplifir sig skrítið getur andað örlítið léttar öðru hvoru. Þótt nokkur ár séu liðin síðan þetta var og ég sé farin að gera eitthvað allt annað en að kenna þessum bekk held ég þessari reglu í mínum ranni. Mér finnst stöðlun eiga rétt á sér þegar verið er að staðla innstungur og svoleiðis dót en gæti þess að flokka frekar rusl en fólk og fyrir það er ég örugglega talin stórskrítin og það má.
Athugasemdir