Samfylkingin og Píratar gætu stutt grein um náttúru og umhverfi úr stjórnarskrárfrumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og ýmsar tæknilegar breytingar sem ekki eru ósamrýmanlegar tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Flokkarnir leggjast gegn auðlindaákvæði í frumvarpi hennar, sem er sagt ganga of skammt.
Þetta kemur fram í bókun Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, og Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, við frumvarpið. Báðir standa þeir að breytingartillögu að auðlindaákvæðinu ásamt 15 öðrum þingmönnum þar sem lögð er til útgáfa af þeirri leið sem stjórnlagaráð lagði til.
Katrín átti fjölda funda með formönnum hinna stjórnmálaflokkanna á Alþingi á kjörtímabilinu, en ekki náðist samstaða um að þeir stæðu saman að stjórnarskrárfrumvarpi til að leggja fram fyrir þingkosningar í ár. Logi og Helgi Hrafn gagnrýna að ekki sé fylgt eftir því ferli þegar stjórnlagaráð samdi drög að nýrri stjórnarskrá og spurningar um hana voru bornar upp fyrir almenning með þjóðaratkvæðagreiðslu. Segja þeir opið og lýðræðislegt ferli líklegra til að njóta trausts almennings og byggja á tilteknum grunngildum.
„Það er því eindregin skoðun aðstandenda þessarar bókunar að leiða eigi stjórnarskrármálið til lykta með öðrum lýðræðislegum áfanga í framhaldi af þeim fyrri í ranni stjórnlagaráðs, þar sem almenningur og sérfræðingar eiga þess kost að taka þátt í að fullmóta og fullbúa nýja, heildstæða stjórnarskrá Íslendinga á þeim grunni sem fyrir liggur,“ skrifar þeir.
Athugasemdir