Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Íslendingar borga 40% meira fyrir matinn

Ís­lend­ing­ar greiða 40 pró­sent hærra verð fyr­ir mat og drykk en að með­al­tali í öðr­um Evr­ópu­ríkj­um, sam­kvæmt nýj­um töl­um. Mat­arkarf­an hér á landi er sú þriðja dýr­asta í Evr­ópu, en var sú dýr­asta ár­ið áð­ur. Laun á Ís­landi voru 60 pró­sent­um hærri en að með­al­tali í Evr­ópu á sama tíma.

Íslendingar borga 40% meira fyrir matinn
Dýr matarkarfa Matarkarfan hér á landi er sú þriðja dýrasta í Evrópu. Mynd: Davíð Þór

Matarverð á Íslandi var 40 prósent hærra en að meðaltali í Evrópusambandinu á árinu 2019. Verð á matvöru og drykkjum var hið þriðja hæsta hér á landi. Aðeins í Noregi og í Sviss var matarkarfan dýrari.

Þetta kemur fram í tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Samanburðurinn tekur til 34 landa, allra 26 aðildarríkja sambandsins, Bretlands, EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Sviss, Norður-Makedóníu, Póllands, Serbíu og Tyrklands.

Sé miðað við meðaltalsverð í Evrópusambandinu greiða Svisslendingar um 63 prósent hærra verð fyrir matarkörfuna og Norðmenn um 57 prósent hærra verð. Verð á mat og drykk á Íslandi er afgerandi hærra en á Norðurlöndunum, utan Noregs. Danir eru næstir eftir Íslendingum en þar kostar matarkarfan um 29 prósentum meira en að meðaltali í í Evrópusambandinu. Finnsk heimili greiða 18,5 prósentum meira en að meðaltali og Svíar um 14 prósent.

45 prósent dýrari en í Bretlandi

Þá er mun hagstæðara að gera matarinnkaupin í öðrum nágrannalöndum okkar, eins og Hollandi og Þýskalandi til að mynda en þar er matarkarfan tæplega 40 prósentum ódýrari en hér á landi. Í Bretlandi er hún síðan um 45 prósentum ódýrari en hér á landi. Útganga Breta úr Evrópusambandinu um síðustu áramót kann hins vegar að hafa áhrif þar á í framtíðinni.

Matarverð er lægst í Norður-Makedóníu, 40 prósentum lægra en að meðaltali í samanburðarlöndunum, og í Rúmeníu þar sem það er 34 prósent lægra. Kaupmáttur á Íslandi er mun meiri en í þessum löndum. Árið 2019 voru laun á Íslandi um 60 prósentum hærri en að meðaltali í öðrum Evrópuríkjum.

Mikil verðhækkun á síðasta ári

Tölur Eurostat eru fyrir árið 2019 sem fyrr segir. Í frétt á vef Landsbankans frá því 21. september síðastliðinn kemur fram að á því ári hafi matarkarfa Íslendinga hækkað um 1,1 prósent. Sögulega séð er það lítil hækkun, enda var matvælaverð enn hærra hlutfalslega árið 2018, þegar Ísland var með hæsta verðlag í Evrópu.

Árið 2018 munaði mestu um að Íslendingar greiddu langmest á hótelum og veitingastöðum, hátt í tvöfalt meira en meðaltalið í Evrópu. Landsmenn borguðu meira en aðrir í menningu- og skemmtun, eða 66% yfir meðaltalinu, og mest allra í almenningssamgöngur og klæðnað. Norðmenn borguðu hins vegar meira fyrir áfengi og tóbak og bæði þeir og Danir meira en Íslendingar fyrir einkabílinn. Hagstæðast var verðlag í fjarskiptum fyrir Íslendinga, aðeins 19 prósent yfir meðaltalinu.

Verðhækkanir árið 2020

Þrátt fyrir hlutfallslega lækkun í samanburði við aðrar þjóðir árið 2019 eru horfur á því að Íslendingar greiði meira núna. Þrátt fyrir lækkandi hráefnaverð hefur matarkarfan á Íslandi hækkað um 6,3 prósent fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2020. Það var verulega mikið meira en hækkun á vísitölu neysluverðs, sem hafði hækkað um 2,5 prósent á sama tímabili á síðasta ári. Veiking krónunnar var þar talin vega hvað þyngst, en lækkun eldsneytis- og hráefnisverðs á heimsmarkaði hafði mótvægisáhrif.

Samkvæmt vef Hagstofunnar verja íslensk heimili um 15 prósentum af útgjöldum sínum til kaupa á matar- og drykkjavörum. Þá eru undanskilin útgjöld vegna kaupa á mat og drykk sem neytt er á veitinga- og kaffihúsum og í mötuneytum. Hæst hlutfall er vegna kaupa á kjörvöru, um 19 prósent, og síðan vegna kaupa á mjólkurvörum og eggjum. Samkvæmt tölum Eurostat er kjöt að meðaltali 56 prósentum dýrara hér á landi en í Evrópulöndunum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár