Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson, meðhöndlari við stoðkerfisvanda, var dæmdur í fimm ára fangelsi í dag fyrir að hafa nauðgað fjórum konum sem leituðu meðferðar hjá honum á árunum 2009 til 2015. Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Stundin fjallaði ítarlega um Jóhannes Tryggva, kærur og ásakanir um nauðganir og kynferðisbrot á hendur honum í sumar. Fimmtán konur kærðu Jóhannes til lögreglu, ein dró kæruna til baka en tíu mál voru látin niður falla. Í umfjöllun Stundarinnar stigu fram þrjár konur sem lýstu brotum Jóhannesar á hendur sér. Mál þeirra allra voru látin niður falla og eru ekki meðal þeirra sem hann er dæmdur fyrir nú.
Flestar höfðu konurnar fimmtán svipaða sögu að segja af brotum Jóhannesar á hendur þeim, þær hefðu leitað til hans vegna stoðkerfisvandamála en hann hefði við meðferð þeirra brotið gegn þeim með því að snerta kynfæri þeirra og í flestum tilfellum farið með fingur inn í leggöng þeirra eða endaþarm. Ein kona, sem Stundin ræddi við í sumar, kærði Jóhannes hins vegar fyrir ítrekuð kynferðisbrot og nauðgun þegar hún var á unglingsaldri, meðal annars í félagsskap við aðra menn. Þá var mál vinkonu þeirrar konu, sem kærði Jóhannes fyrir nauðgun árið 2005, tekið til rannsóknar að nýju einnig. Mál þeirra voru látin niður falla.
Í ákærunum sem saksóknari gaf út á hendur Jóhannesi og hann hefur nú verið dæmdur fyrir voru brotin öll á svipaða leið. Var Jóhannes ákærður fyrir nauðgun í málunum fjórum með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konurnar án þeirra samþykkis.
Athugasemdir