Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, segir í samtali við Stundina að allir stjórnarandstöðuþingmenn hafi nú tekið undir kröfu hennar að haldinn verði sérstakur þingfundur þann 29. desember vegna hættu á hópamyndun yfir áramót og háttsemi Bjarna Benediktssonar á Þorláksmessu þegar hann var staddur í samkvæmi sem lögregla leysti upp um að verða ellefu fyrir miðnætti vegna meints brots á sóttvarnarreglum.
Hins vegar hafi þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks, Birgir Ármannsson, og Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, tjáð henni að ólíklegt sé að þau taki undir slíka kröfu. „Þrjátíu stjórnarandstöðuþingmenn hafa tekið undir þessa kröfu og við erum ekki fleiri í stjórnarandstöðu. Við þurfum tvo af stjórnarliðum með okkur svo meirihluti sé kominn til að kalla saman þingið. Ég er búin að fá svör frá þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna um að ekki sé líklegt að þau taki undir þessa kröfu,“ segir Oddný.
Birgir hafði þá tjáð henni í skriflegu svari að miðað við það sem hann hafi heyrt í kringum sig undanfarna daga væri ekki að finna stuðning við þingfund nú í þinghlé og Bjarkey tekið undir það með honum.
Þá segir hún það vekja furðu að þingflokksformennirnir vilji ekki ræða þá stöðu sem komið hefur upp á þingi. „Mér finnst þetta mjög skrýtið og skrýtið mat á stöðunni. Það má vel vera að þau vilji halda áfram samstarfi með Bjarna þrátt fyrir háttsemi hans en þau vilja ekki einu sinni ræða hvaða áhrif það getur haft ef þetta verður til þess að almenningur slaki á sóttvarnarreglum um áramót. Það er hættulegt heilsu fólks og efnahagsins á þessum viðkvæma tíma núna meðan við bíðum eftir bóluefni,“ segir hún þá.
Hefur áhyggjur af afleiðingunum
Oddný segist hafa áhyggjur af því að almenningur slaki á sóttvörnum vegna háttsemi ráðherra og viðbrögðum forsætisráðherra og samgönguráðherra. „Ég hef áhyggjur af því að það muni slakna á hjá almenningi þegar ráðherra er búinn að sýna þetta slæma fordæmi og samstarfsmenn hans í ríkisstjórn og forsætisráðherra hafa sagt að slíkt sé afsakanlegt.“
Uppfærð frétt
Forseti Alþingis staðfesti í samtali við mbl.is síðdegis í dag að þingið yrði ekki kallað saman á milli jóla og nýárs vegna málsins.
Athugasemdir