Hólmfríður Guðjónsdóttir, varaformaður Slysavarnardeildarinnar Ránar á Seyðisfirði, óttaðist að síðasta stund sín og fólksins hennar væri upprunnin þegar skriðan stóra féll á Seyðisfirði um miðjan dag síðastliðinn föstudag. Hún og aðrir sem staddir voru í björgunarsveitarhúsinu í bænum áttu fótum sínum fjör að launa þegar þau hlupu undan skriðunni. „Ég vissi ekki að ég gæti hlaupið svona hratt,“ segir Hólmfríður.
Stundin ræddi við Hólmfríði að morgni föstudagsins, eftir að skriða hafði tekið með sér eitt hús í bænum þá um nóttina. Hólmfríður sagði heimamenn þá rólega en kvíðna. Það átti eftir að koma í ljós að sá kvíð átti sannarlega rétt á sér.
Um klukkan þrjú um daginn féll risastór skriða á bæinn og fleiri fylgdu á eftir. Yfir tugur húsa eru ýmist ónýt eða mikið skemmd og talið er að tjónið sé yfir milljarður króna. Til allrar hamingju slasaðist þó enginn í hamförunum, þó það hafi staðið tæpt.
„Ég hélt að allt fjallið væri að koma yfir okkur“
„Ég var úti í björgunarsveitarhúsi þegar þetta skeði og maður átti fótum sínum fjör að launa, það var bara að hlaupa. Við horfðum á skriðuna koma niður og ég var farin að kveðja mitt fólk í huganum. Ég óttaðist um okkur öll sem að hlupum úr björgunarsveitarhúsinu og á bak við Ríkið. Þar biðum við bara og mér leið eins og þetta tæki óratíma,“ segir Hólmfríður. „Ég var eiginlega bara í sjokki frá því þetta byrjaði, þegar ég hélt að allt fjallið væri að koma yfir okkur, og lengi á eftir. Ég skalf eins og hrísla í vindi. Ég hef aldrei lent í öðru eins, ég hef aldrei upplifað nokkuð í líkingu við þetta og ég vona að ég þurfi aldrei að upplifa annað eins aftur.“
Getur ekki hrósað Héraðsbúum nóg
Hólmfríður segir að fólkið hafi forðað sér yfir í ferjuhúsið við höfnina á Seyðisfirði en svo hafi borist boð um að allir ættu að mæta í fjöldahjálparstöðina í félagsheimilinu Herðubreið. Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að rýma bæinn og héldu Seyðfirðingar upp á Fljótsdalshérað yfir Fjarðarheiði, ýmist í rútum eða einkabílum. Hólmfríður fór með bróður sínum og mágkonu þar eð hennar eiginn bíll var fastur úti í bænum vegna skriðufallana.
Þegar upp á Hérað var komið hafði dóttir Hólmfríðar þegar pantað fyrir hana gistingu á Hótel Héraði. „Það var alveg dásamlegt að vera þar, það var allt gert fyrir okkur og snúist í kringum okkur. Það er sko ekki af þeim Héraðsbúum skafið hvað þeir eru búnir að vera yndislegir við þá sem þurftu að flýja heimili sín, allt gert til að hjálpa fólki.“
Uppi á Héraði var Hólmfríður í tvær nætur en var svo ein þeirra sem fékk að snúa heim á Seyðisfjörð í gær. „Ég kom í myrkri, sem betur fer. Ég er farin að sjá hvernig er umhorfs núna í dag hér í bænum. Það er ömurlegt að sjá þetta, í einu orði sagt. Hreinsunarstarf er ekkert hafið. En, við ætlum okkur að byggja þetta upp og vonandi koma sem flestir til baka.“
Verður að tryggja að fólki finnist það öruggt
Í samtali Stundarinnar við Hólmfríði síðastliðinn föstudag, áður en mestu hamfarirnar gengu yfir Seyðisfjörð, orðaði hún áhyggjur sínar af því að ekki myndu allir treysta sér til að búa áfram á Seyðisfirði eftir það sem á hefði gengið. Þá voru stóru skriðurnar, sem eyðilögðu tug húsa og settu fólk í bráða hættu, enn ekki fallnar. Hólmfríður segir að þær áhyggjur séu enn meiri nú en þá, af því að fólk muni ekki þora að búa áfram í bænum. „Veistu, mér þætti það ekki skrýtið, ég verð að segja alveg hreint eins og er. Það var rosalegt að lenda í þessu, hlusta á drunurnar og enginn vissi hvað væri að gerast, hvort fjallið væri allt að koma. Við vissum ekki hvort allir væru óhultir, svo fór rafmagnið til að bæta gráu ofan á svart og þetta var bara skelfilegt, einu orði sagt.“
„Þó að gólfið sé skítugt hjá manni þá skiptir það engu máli, við höldum bara jólin“
Hólmfríður segir að Seyðfirðingar hafi aldrei upplifað aðrar eins rigningar og búnar voru að vera í aðdraganda skriðufallanna. Það verði að fara í einhverjar aðgerðir strax til að fyrirbyggja að svona nokkuð geti aftur komið fyrir, einhvers konar ofanflóðavarnir. „Það verður að gera eitthvað svo fólki finnist það öruggt, og treysti sér til að koma heim.“
Hólmfríður hitti marga Seyðfirðinga uppi á Hótel Héraði og þar hélt fólk þétt utan um hvert annað, spjallaði saman og reyndi að vinna úr upplifuninni. „Maðu hefur auðvitað áhyggjur af sálarástandi fólks. Það er áfallateymi sem hægt var að leita til og ég skora á sem flesta að sækja þjónustu þess, ræða hlutina, það hjálpar rosalega mikið. Ég gerði það sjálf og það hjálpaði mér. Það er alveg nauðsynlegt þegar fólk lendir í svona, það á að sækja sér hjálp.“
Hólmfríður sagði við Stundina síðasta föstudag að jólin væru kannski komin á smá bið en núna er hún þeirrar skoðunar að það sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda upp á þau, reyna að gleðjast saman. „Það er það, við tökum hvern dag, eða hvern klukkutíma í einu. við fögnum því að það fórst enginn, það slasaðist enginn og það er auðvitað númer eitt, tvö og þrjú. Þó að gólfið sé skítugt hjá manni þá skiptir það engu máli, við höldum bara jólin.“
Athugasemdir