Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður
Hamingja er vellíðunartilfinning. Tilfinning sem bæði gefur hlýju og ró en líka svona smá fiðrildi í magann. Það góða við tilfinningar er að maður getur sjálfur haft svo mikið með þær að gera.
Þannig getur maður hjálpað til og aukið á hamingjutilfinningu með því að næra sjálfið sitt.
Ég geri það með útiveru og hreyfingu og samvistum við mína nánustu. Það skiptir máli að komast út í fallega náttúru og njóta hennar en á sama tíma að muna að vera þakklát fyrir að geta notið.
Þetta er aðferð sem nýtist mér og virkar svona eins og sprinklerkerfi sem dreifir hamingjuhormóni um líkamann.
Daði Guðbjörnsson listmálari
Að vera í góðu sambandi við raunveruleikann er uppspretta hamingjunnar að mínu áliti. Þetta hljómar kannski ekki spennandi en eltingarleikurinn við draumóra og mikil veraldleg gæði getur valdið streitu og vonbrigðum.
Núið er vettvangur hamingjunnar; fortíðin er liðin og ekkert hægt að lagfæra hana og framtíðin kemur í ljós, það er ágætt að gera skynsamleg framtíðarplön en heimurinn mun ekki farast þó að við séum stundum örlítið afslappaðri.
Það er örugglega betra að geta hlegið að sínum eigin göllum og mistökum en að vera sífellt að rannsaka flísina í auga náungans; ef maður er fullkominn er maður sennilega ekki alveg í lagi.
Guðrún Kristín Kristinsdóttir háskólanemi
Hamingja er ástand sem við sköpum okkur sjálf. Lífið gefur okkur verkfærin til þess og er það undir okkur komið að nota þau til að byggja upp lífið sem okkur langar að lifa. Vissir atburðir geta veitt okkur hamingju hverju sinni, að ganga vel í prófi, bæta tímann sinn í hlaupi, gleðja ástvin eða sjá einhvern sem maður elskar brosa og líða vel. Það veitir okkur hamingju þegar maður er duglegur og sér árangur sem maður vonaðist eftir, því hvað er lífið annað en samansafn af verkefnum? Verkfæri til hamingjunnar eru allt í kringum okkur, við þurfum bara að sjá þau og nota þau.
Sólveig Svala Hannesdóttir nemi
Hamingja er tilfinning sem ég finn fyrir þegar ég er bæði sátt við sjálfa mig og þau hlutverk sem ég tek mér fyrir hendur. Hamingja er samt að mínu mati einnig ákvörðun. Maður þarf að taka alls konar ákvarðanir á hverjum degi sem hefur áhrif á hamingju manns. Ég reyni að ákveða daglega að hafa gott viðhorf gagnvart verkefnum mínum. Ég ákveð að umgangast fólk sem veitir mér hamingju. Ég ákveð að vera góð við sjálfa mig og fólkið í kringum mig. Ég ákveð að hugsa daglega um þrjá hluti sem ég er þakklát fyrir. Allar þessar litlu ákvarðanir hafa áhrif á hamingju mína og viðhorf mitt til lífsins. Mikilvægt finnst mér að viðhalda hamingju með því að gleðjast með vinum mínum og fjölskyldu.
Aron Freyr Stefánsson nemi
Þegar ég hugsa um hamingjuna þá er það fyrsta sem mér dettur í hug góðu stundirnar með fjölskyldunni minni og góðum vinum. Að skapa minningar, og þær bestu eru þegar ég geng á fjöll og næ markmiði mínu eftir erfiða göngu og stend á toppnum og nýt þess sem ég sé. Stundum er ekki mikið útsýni en það skiptir ekki öllu því toppnum er náð. Að vera úti í náttúrunni og njóta með góðum göngufélögum. Náttúran gefur mér svo mikla hamingju og sérstaklega þegar ég er með góðu, traustu og skemmtilegu fólki þar sem aldur, kyn og starf skiptir engu máli.
Athugasemdir