Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að ekki þurfi að styrkja sjálfstæði ráðsins frá stjórnvöldum og hagsmunaaðilum þar sem ráðið sé nú þegar sjálfstætt í sínum störfum. Hann segir ráðið enn vera nýtt og að gefa þurfi ráðinu meiri tíma og reynslu. Því séu breytingar ótímabærar.
Ráðið er sjálfstætt
Í samtali við Stundina segir Guðmundur að samkvæmt lögum sé loftslagsráð sjálfstætt í sínum störfum og varðandi það hvort styrkja þurfi sjálfstæði ráðsins frá hagsmunaaðilum og stjórnvöldum, telji hann ráðið nógu sjálfstætt.
Þá telur hann til kosta að í ráðinu sitji hagsmunaaðilar vegna þess að þá sé hægt að taka umræðuna um ráðgjöf og aðhald til stjórnvalda á breiðum grundvelli.
„Það eykur líka að mínu mati þekkingu og reynslu allra þessa aðila að vera í ráðinu og að taka til umfjöllunar þessi verkefni stjórnvalda sem verið er að rýna og gagnrýna,“ segir Guðmundur.
Loftslagsráð ekki það eina
Hann segir eðlilegt að umræða sé um það hverjir eigi að sitja í ráðinu og hvort það eigi að vera hreint fagráð. „Mín skoðun er sú að við eigum að gefa þessu aðeins meiri tíma, ráðið er búið að vera í eitt ár, “ segir hann þá.
Aðspurður hvort ráðið hafi ekki verið starfrækt síðan 2018 segir hann að umgjörðina sem ráðið vinni eftir sé ársgömul þar sem ráðið var lögfest árið 2019.
Ráðið var stofnað árið 2018 á grundvelli þingsályktunartillögu en Guðmundur vildi setja ákvæði inn í lög til að skýra umgjörð þess sem var gert 2019. „Svo það færi ekki á milli mála í löggjöfinni hvert hlutverk ráðsins ætti að vera,“ segir hann. Ráðið hefur því starfað í tvö ár og hefur nú sinn þriðja starfsvetur.
Sömuleiðis nefnir hann í því samhengi að hann vilji fá meiri reynslu af ráðinu áður en teknar séu ákvarðanir um hvort ætti að breyta því. „Ég er ekki þar með að segja að við ættum að kíkja á þetta árið 2028 heldur miklu fyrr í tíma. Ef það yrði þá metið þannig að það gæti verið skynsamlegra að gera þetta með þeim hætti að það væri fagráð, meira í takt við það sem er á Norðurlöndunum, eða áfram eins og það er, eins og er að finna sums staðar annars staðar, þá er það umræða sem við ættum að taka og vera óhrædd við að gera breytingar ef við teljum það vera betra fyrir loftslagsmálin í heild sinni,“ segir hann.
Frumvarp Andrésar
Eins og kemur fram í umfjöllun Stundarinnar hefur Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, lagt til frumvarp sem breyta á skipan og hlutverki loftslagsráðs. Guðmundur telur frumvarpið vera ótímabært vegna þeirrar skoðunar að gefa ætti ráðinu meiri tíma og reynslu. Þá segist hann einnig vera ósammála gagnrýni Landverndar að endurskipuleggja þurfi loftslagsráð að svo stöddu.
Þá nefnir Andrés Ingi í umfjöllun Stundarinnar að betra væri að skipta núverandi loftslagsráði í tvo mismunandi vettvanga. Annars vegar væri þá loftslagsráð sem sinnti aðhaldshlutverki og hins vegar settur á stofn samráðsvettvangur hagsmunaaðila og umhverfissamtaka, því að hans mati sé hagsmunaaðilum illa komið fyrir í núverandi skipulagi, að það stangist á við aðhaldshlutverk ráðsins.
Guðmundur segir að gengið sé út frá því að núverandi uppbygging ráðsins sé slæm og því er hann ekki sammála. „Það sem Andrés hefur lagt fram er ein leið og núverandi staða er önnur leið. Leyfum þessu að fá meiri meltingartíma. En gleymum því ekki að loftslagsráð með sitt aðhaldshlutverk og ráðgjafahlutverk er ekki það eina sem er að gerast í loftslagsmálum. Það er mín tilfinning að fókusinn sé þannig í þessari umræðu,“ segir hann.
Umræða á þingi
Í umræðu á þingi um loftslagsmál, dagsett 20. október síðastliðinn, sagði Guðmundur að hann fagnaði aðhaldi og að loftslagsráð hefði það hlutverk. „En ég tel að þar megi skerpa á, ég tek undir með háttvirtum þingmanni, Andrési Inga Jónssyni með það.“
Andrés hafði þá tekið til máls á undan honum og nefndi þá frumvarp sitt um aukið aðhaldshlutverk loftslagsráðs. „Ríkisstjórnin hefur jafnframt sett fram metnaðarfulla loftslagsstefnu, segir ráðherrann. Það væri nú gott að geta metið það af einhverjum óháðum aðila,“ sagði hann og hélt svo áfram.
„Mig langar að nefna frumvarp mitt um aukið aðhaldshlutverk loftslagsráðs, sem ég mælti fyrir í gær, sem snýst akkúrat um það að loftslagsráð geti lagt mat á trúverðuleika áætlana stjórnvalda. Ekki er vanþörf á þegar fjórum mánuðum eftir framlagningu loftslagsáætlunar í vor var allt í einu hætt við urðunarskatt, sem er ein af aðgerðunum í þeirri áætlun.“
Takmörkuð vitund um ráðið
Varðandi það að í skýrslu Capacent komi fram að vitund um ráðið, hlutverk þess og eðli sé mjög takmarkað, bæði hvað varðar stjórnsýsluna og almenning segir Guðmundur í samtali við Stundina það vera vegna þess hve nýtt ráðið er. „Maður hefur heyrt rugling í umræðunni (um ráðið), sumir halda að loftslagsráð sé að vinna að aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem er alls ekki raunin. Ráðið rýnir þær áætlanir til að geta svo komið með mat á þeim og til að aðstoða stjórnvöld til að gera betur. Ég held að með tímanum ætti loftslagsráð að verða þekktara og fólk muni skilja betur hvert hlutverk þess er. Það er alveg óháð því hvernig það er saman sett. Ráðið þarf að taka sér meira rými.“
„Mér finnst ekki rétt að ég svari því.“
Aðspurður um það hvernig ráðið veiti stjórnvöldum aðhald segir hann besta dæmið vera rýni ráðsins á aðgerðaráætlun stjórnvalda og gerð úttektar á stjórnsýslu í loftslagsmálum. „Sú áætlun sem við gáfum út í júní fór á fyrri stigum til ráðsins, sem ég tel mjög gott. Við fengum athugasemdir frá ráðinu um ákveðna þætti sem þyrfti að veita meiri athygli og í kjölfarið tókum við athugasemdir til greina sem breytti lokaútkomu áætluninnar. Mér finnst þetta gott aðhald. Ég vil líka nefna gerð stjórnsýsluúttektarinnar. Þegar ég kem inn í ráðuneytið og er að koma loftslagsmálum á fót, beini ég ákveðnum verkefnum til ráðsins og eitt af þeim verkefnum var að fara yfir stjórnsýslu loftslagsmála því hún er flókin, það er staðreynd.“
Þá vísar hann til þess að úttekt Capacent á stjórnsýslu loftslagsmála hjálpi til við yfirsýn á málaflokknum.
„Ég held að úttektin, sem var algjörlega unnin á forsendum loftslagsráðs, ég bað þau um að gera þetta en síðan fara þau í þessa vinnu og þetta er loka úttektin, þetta hjálpar okkur að vinna áfram og halda betur utan um alla þræði stjórnsýslunnar því loftslagsmálin eru bæði í mörgum ráðuneytum og stofnunum,“ segir hann.
Einnig nefnir hann skýrslu ráðsins um aðlögun að loftslagsmálum og greinargerðir um kolefnishlutleysi. Verkefni sem ráðherra fól ráðinu. Hvað varðar frumkvæði ráðsins að sinna verkefnum segir hann ráðið hafa fullt sjálfdæmi að gera það sem þau vilja og láta kanna það sem þau vilja kanna. „En það er líka gert ráð fyrir því í lögunum að ráðherra geti falið þeim verkefni. Þau geta tekið þá ákvörðun, af því að þau eru sjálfstæð, að vinna ekki tiltekin verkefni.“
Aðspurður hvaða verkefni ráðið hefur unnið að sínu frumkvæði segir hann ekki rétt að hann svari fyrir það heldur sé það í hlutverki ráðsins. „Mér finnst ekki rétt að ég svari því,“ segir hann.
Ánægður með formanninn
Hvað varðar hlutleysi formannsins sem óformlegur ráðgjafi núverandi og fyrrum ríkisstjórna segir Guðmundur að fyrir það fyrsta hafi formaðurinn enga stöðu sem formlegur eða óformlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, hann sé formaður loftslagsráðs. Hins vegar sé mikið leitað til hans vegna yfirburðarþekkingar hans á málaflokknum og svo hafi fyrrum ríkisstjórnir einnig gert.
„Mér finnst Halldór hafa staðið sig vel sem formaður loftslagsráðs í því hlutverki að veita stjórnvöldum ráðgjöf og aðhald.“
„Mér finnst Halldór hafa staðið sig vel sem formaður loftslagsráðs í því hlutverki að veita stjórnvöldum ráðgjöf og aðhald. Það er mikið leitað til hans og mér finnst það ekkert óeðlilegt miðað við þekkingu hans og reynslu. Ég held að hann sem formaður loftslagsráðs hafi ákveðin sveigjanleika til að tala við stjórnvöld og ráðleggja þeim. Þegar ég hef talað við Halldór hefur hann gefið ráð með þeim hætti að verður til þess að við stöndum okkur betur í loftslagsmálum. Hann er ekki að vinna gegn þeim, hann er að vinna að því að við gerum betur,“ segir hann.
Athugasemdir