Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og forseti Alþingis, segir að það sé ekki Alþingis að svara spurningum um birtingu nýrra laga heldur framkvæmdavaldsins. Það er segja ráðherra og ráðuneyta þeirra sem um ræðir.
Stundin spurði Steíngrím J. um inngrip skrifstofustjóra sjávarútvegs- og fiskeldis í atvinnuvegaráðuneytinu, Jóhann Guðmundsson, í birtingu laga um fiskeldi í fyrrasumar, árið 2019. Steingrímur telur að það sé ekki Alþingis að svara fyrir inngrip Jóhanns: „Meðferð þessa tiltekna máls var með hefðbundum hætti af hálfu Alþingis og innan tímaramma, en við ekki til svara fyrir það að öðru leiti, sbr. það sem hér að ofan er komið fram,“ segir í svari forseta Alþingis í tölvupósti.
Eins og Stundin sagði frá á föstudaginn í síðustu viku þá hringdi Jóhann í Stjórnartíðindi, deild innan dómsmálaráðuneytisins sem sér um birtingu nýrra laga frá Alþingi, og bað um að birtingu nýrra laga um fiskeldi yrði frestað um þrjá daga.
Vísaði Jóhann til frests sem laxeldisfyrirtæki höfðu fengið hjá Skipulagsstofnun til að skila gögnum til stofnunarinnar. Frestur laxeldisfyrirtækjanna rann út þann 17. júlí og upphaflega átti að birta nýju lögin þann 15. en Jóhann bað um að þetta yrði gert þann 18. í staðinn. Ástæðan var sú að ef lögin hefðu verið birt áður en laxeldisfyrirtækin skiluðu umræddum gögnum þá hefðu nýju lögin, sem meðal annars fólu í sér uppboð á nýjum eldissvæðum þar sem ný svæði hefðu átt að fara til hæsbjóðanda, gilt um þau laxeldisáform sem þessi fyrirtæki voru að vinna með. Um var að ræða 25 þúsund tonna laxeldi þriggja fyrirtækja í Ísafjarðardjúpi og á Austfjörðum. Því var um að ræða verulega fjárhagslega hagsmuni fyrir umrædd laxeldisfyrirtæki; 25 þúsund tonna laxeldisáform.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað Jóhanni gekk til með þessu inngripi eða af hverju hann hringdi umrætt símtal og lét seinka birtingu laganna. Stundin hefur gert árangurslausar tilraunir síðustu daga til að ná tali af Jóhanni til að spyrja hann út í það hvað honum gekk til.
Alþingi tekur ekki afstöðu
Miðað við svar Steingríms er þetta mál í reynd ekki mál sem Alþingi á að svara fyrir. Eins og Steingrímur segir: „Sem sagt, eftir að prentuð og undirrituð eintök eru farin héðan, oftast fáeinum dögum eftir afgreiðslu og alltaf vel innan 14 daga, er málið úr höndum Alþingis og það alfarið mál framkvæmdavaldsins, og skylda, að klára ferlið.“
Með öðrum orðum er það ekki Alþingis að „klára ferlið“ eða hafa skoðun á því hvernig þetta ferli er eða var klárað í þessu tilfelli.
Ljóst er að Jóhann seinkaði formlegri gildistöku umræddra laga um þrjá daga og seinkaði þar með að vilji Alþingis með umræddri lagasetningu næði fram á að ganga innan áður tilsetts og ákveðins tímaramma.
Atvinnuvegaráðuneytið segist hafa sent Jóhann í leyfi frá störfum þegar upp komst um þetta inngrip hans síðastliðið sumar.
Ekki liggur hins vegar ennþá fyrir á hvaða forsendum Jóhann var sendur í umrætt „ótímabundna leyfi“ frá störfum, hvaða starfsreglur eða vinnulag hann braut og svo framvegis. Ráðuneytið segir að Jóhann hafi hringt umrætt símtal að eigin frumkvæði. Þannig hefur ráðuneytið hvítþvegið sig af vitneskju sinni um málið en það hefur jafnframt ekki svör á reiðum höndum af hverju Jóhann greip inn í birtingu laganna með þessum hætti.
„Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um nein önnur slík tilvik“
Var hringt í Jóhann frá umræddum laxeldisfyrirtækjum og hann beðinn um að ganga hagsmuna þeirra? Hafði SFS, hagsmunasamtök eldisfyrirtækja meðal annars, samband við Jóhann og bað um þetta inngrip ráðuneytisins? Var „leyfi“ Jóhanns Guðmundssonar lögmætt eða ekki og var hann sendur í leyfi á óréttmætum forsendum? Á þessari stundu er þetta ekki vitað og ráðuneytið hefur ekki látið rannsaka þetta mál, svo vitað sé.
Fjölmörgum spurningum er því ósvarað í málinu og er ljóst út frá svörum Alþingis að stofnunin telur sig ekki vera þann aðila sem eigi að svara þeim.
Misvísandi svör
Eitt af vandamálunum í þessu tiltekna máli er að Stundin hefur fengið misvísandi frá hlutaaðeigandi ráðuneytum um hversu eðlilegt inngrip Jóhanns hafi verið.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið segir inngripið vera einsdæmi: „Í málaskrá ráðuneytisins, sem byggir á Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Alþingi gáfu út árið 2007, er sérstakur kafli sem gildir um þau tilvik þegar flýta þarf birtingu laga. Ekki er hins vegar að finna umfjöllun eða skilyrði fyrir því að seinka birtingu laga en ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um nein önnur slík tilvik.“
„Nokkuð algengt er að haft sé samband úr ráðuneytum vegna birtingar laga“
Þetta sagði ráðuneytið í tölvupósti til Stundarinnar án þess að útskýra hvað var að þessu inngripi og hvað vinnureglur Jóhann braut.
Dómsmálaráðuneytið gerði hins vegar lítið úr málinu í sínum svörum og sagði „nokkuð algengt“ að slík tilfelli kæmu upp að ráðuneyti hlutuðust til um birtingu laga: „Nokkuð algengt er að haft sé samband úr ráðuneytum vegna birtingar laga. Oft er aðeins verið að sinna skyldu skv. áðurnefndri 2. mgr. 6. gr. laga nr. 15/2005. Stundum er verið að minna á sérstakan gildistökudag og óska þess að birting fari fram fyrir þann dag. Stundum er verið að stilla saman birtingu laga og reglugerðar sem byggir á lögunum. Stundum er verið að taka í notkun ný tölvukerfi vegna lagabreytinga og þá verður að vera búið að ganga frá kerfum áður en lög taka gildi. Þannig voru svokölluð neyðarlög nr. 125/2008 gefin út um miðja nótt til að geta tekið gildi við opnun fjármálastofnana að morgni.“
Út frá þessum svörum er erfitt að segja hverju eðlileg eða óeðlileg inngrip Jóhanns voru. Þar af leiðandi er erfitt að meta hvort réttmætt hafi verið að senda hann í leyfi frá störfum vegna þess. Og þar sem Jóhann hefur ekki viljað tjá sig um forsendur þess að hann greip inn í birtingu laganna, og þar sem ráðuneytið virðist heldur ekki hafa áhuga á því að vita það, er málið ennþá óleyst.
Athugasemdir