Togarinn Júlíus Geirmundsson er notaður sem myndskreyting í nýju myndbandi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) þar sem kynnt er stefna í samfélagsábyrgð er kynnt. Útgerð togarans hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að kalla skipið ekki til hafnar þegar upp komu útbreidd veikindi um borð snemma í síðasta veiðitúr þess. Þegar skipið kom til hafnar reyndust 22 skipverjar af 25 smitaðir af COVID-19. Skipverjar segja útgerðina hafa stefnt áhöfninni í hættu.
Útgerð togarans, Hraðfrystihúsið Gunnvör, er jafnframt eitt þeirra fyrirtækja innan raða SFS sem sérstaklega er kynnt að hafi skrifað undir samfélagsstefnu sjávarútvegsins, eins og sjá má snemma í myndbandinu hér að neðan. Á vefsíðu SFS er sú stefna kynnt, þar segir meðal annars: „Við erum hluti af samfélagi og berum ábyrgð í samræmi við það. Íslenskur sjávarútvegur vill rísa undir þeirri ábyrgð og auka gagnsæi.“ Þá segir einnig að forsvarsmaður fyrirtækis sem riti undir stefnuna beri ábyrgð á henni sé framfylgt.
Eiga að hafa virðingu fyrir starfsfólki að leiðarljósi
Hluti af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækin undirgangast er að stjórnunarhættir þeirra sé ábyrgir. Þar er meðal annars tiltekið að fyrirtækin leitist við að tryggja að starfsemi þeirra sé samkvæmt lögum og reglum, hvort sem hún er á Íslandi eða í útlöndum, þau axli ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum og beitum dómgreind í samræmi við aðstæður og þau stuðli að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum á vinnustað og utan hans.
„Við leggjum áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks“
Þá er einnig horft til félagslegra þátta og starfsfólk sérstaklega nefnt enda sé gott starfsfólk forsenda velgengni fyrirtækja í sjávarútvegi. „Okkur er ljós sú ábyrgð sem við berum gagnvart starfsfólki okkar og við höfum virðingu að leiðarljósi í öllum okkar samskiptum.“ Enn fremur segir: „Við leggjum áherslu á heilsu og öryggi starfsfólks og vinnum markvisst að því að draga úr hættu við vinnu og í starfsumhverfi. Markvisst er unnið að öryggis- og vinnuverndarmálum með öflugri öryggisfræðslu.“
Segja áhöfninni sýnda lítilsvirðingu
Skipverjar Júlíusar Geirmundssonar eru öskureiðir út í útgerðina vegna þess að ekki var skeytt um veikindi fjölda manna um borð og beiðnir um að skipinu yrði snúið til hafnar hunsaðar. Eins og Stundin greindi frá í gær halda skipverjar því fram að áhöfninni hafi verið stefnt í hættu með aðgerðaleysi stjórnenda Gunnvarar.
Sjómannasamband Íslands sendi í gær frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem segir að útgerðin hafi sýnd áhöfninni lítilsvirðingu. Umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum hafi óskað eftir því í tvígang að skipið kæmi í land vegna veikindanna en því hafi útgerðin hafnað. „Sjómannasamband Íslands krefst þess að íslenskar útgerðir fari að umræddum tilmælum í hvívetna og stofni ekki lífi og limum áhafna sinna í hættu að óþörfu á þessum hættutímum.“
Samherji eitt fyrirtækjanna sem er aðili að samningunum um samfélagsábyrgð
Þá vekur einnig athygli að útgerðarfyrirtækið Samherji hefur undirritað umræddan samning um samfélagsábyrgð. Svo sem nefnt er hér að framan er meðal þess sem kemur fram í samningnum að útgerðarfyrirtækin skuli leitast við að „tryggja að starfsemi okkar sé samkvæmt lögum og reglum, hvort sem hún er á Íslandi eða í útlöndum.“ Svo sem þekkt er stendur yfir rannsókn á viðskiptaháttum Samherja bæði hér á landi og í Namibíu eftir að Kveikur, Stundin og Al Jazeera greindu frá því í fyrra að forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu greitt mútur til að komast yfir hestamakrílkvóta í Namibíu. Þannig hefur til að mynda Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, réttarstöðu grunaðs manns í málinu.
Athugasemdir