Fimmtán þingmenn úr stjórnarandstöðunni hafa lagt fram frumvarp til stjórnskipunarlaga á Alþingi sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Frumvarpið hefur reglulega verið lagt fram síðan stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis árið 2011.
Yfir 40 þúsund manns hafa nú skrifað undir ákall á vefnum nystjornarskra.is þess efnis að frumvarp stjórnlagaráðs verði samþykkt. Þess er krafist að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 og lögfesti tillögurnar. „Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár,“ segir á vefnum. „Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!“
Frumvarp stjórnarandstöðuþingmannanna er hins vegar frábreytt tillögum stjórnlagaráðs að því leyti að það inniheldur þær breytingar sem komu fram í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á frumvarpinu árið 2013.
Flutningsmenn eru þingmenn úr röðum Pírata og Samfylkingarinnar, auk þingmanna utan flokka, þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Logi Einarsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Andrés Ingi Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy.
Athugasemdir