Kíkið á þrautina frá í gær, ef þið hafið ekki þegar leyst hana!
***
Fyrri aukaspurning.
„Að bjarga heiminum“ er stundum haft í flimtingum að ætti að vera óskadraumur hvers manns. En það er í alvörunni hægt að færa fyrir fyrir því gild rök að maðurinn á myndinni hér að ofan hafi vissulega „bjargað heiminum“ með því sem hann gerði, eða réttara sagt neitaði að gera. Hvað var það svona nokkurn veginn?
***
Aðalspurningar.
1. Á eyju nokkurri allstórri hafa fundist allt að 9.500 ára gamlar leifar um heimiliskött, þær elstu sem þekktar eru. Ekki er talið að kötturinn hafi gengið í þjónustu mannsins akkúrat á þessari eyju (því þar er ekki vitað til að hafi verið neinir villtir kettir), svo einhver hefur flutt köttinn út á þessa eyju. Hvað heitir þessi eyja með hinum elstu húskattarleifum?
2. Hér fyrrum var oft talað um að meðal íslenskra kinda væri sérstakt kyn, duglegra og aðsópsmeira en annað fé. Hvað var það kallað?
3. Keith Urban heitir maður nokkur, fæddur á Nýja Sjálandi en alinn upp í Ástralíu. Hann er tónlistarmaður, soldið country-skotinn og hefur gefið út fjölda hljómplatna sem seljast vel. Hann er nú samt enn þekktari fyrir að vera eiginmaður einnar frægustu filmstjörnu heimsins, sem er einmitt af þessum slóðum líka. Hver er hún?
4. Hvar kemur ferjan Norræna að landi á Íslandi?
5. Hvað hét fyrsta konan sem var forsætisráðherra Bretlands?
6. Listastefna ein reis í Evrópu á árum fyrri heimsstyrjaldar og blómstraði nokkuð í Frakklandi fram yfir 1920, hún er gjarnan talin náskyld súrrealisma en gekk helst út á tilviljanakenndar uppákomur, sundurklippt ljóð og listaverk, það var reynt á þanþol veruleikans og list fundin á óvæntum stöðum. Rúmeninn Tristan Tzara er jafnan nefndur meðal helstu frumkvöðlanna. Hvað kallaðist þessi fjöruga, litskrúðuga en hverfula liststefna?
7. Hvað heitir höfuðborg Albaníu?
8. Hvaða heitir sá fótboltavöllur í Kaupmannahöfn þar sem dönsku landsliðin spila flestalla heimaleiki sína?
9. Hrossagaukurinn er sagður „hneggja“ en með hverju myndar hann þau sérkennilegu hljóð sem við köllum hnegg?
10. Í hvaða styrjöld komu skriðdrekar fyrst fram á sjónarsviðið?
***
Seinni aukaspurning.
Fyrir hvað er þessi einkennilega vera tákn?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Kýpur
2. Forystufé.
3. Nicole Kidman.
4. Seyðisfirði.
5. Margaret Thatcher.
6. Dada.
7. Tírana.
8. Parken.
9. Stélfjöðrunum.
10. Fyrri heimsstyrjöldinni.
***
Svör við aukaspurningum.
Karlmaðurinn á myndinni efst hét Vasilí Arkhipov og var sovéskur kafbátaforingi. Haustið 1962 var hann foringi um borð í kafbátnum B-59 þegar Kúbudeilan milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna stóð yfir og heimurinn stóð á barmi kjarnorkustyrjaldar.

Kafbátur Arkhipovs var í námunda við Kúbu þegar bandarísk herskip gerðu sig líkleg til að þjarma að honum. Tveir af þremur æðstu foringjum um borð vildu svara með því að gera árás á bandarísku skipin með kjarnorkuskeytum kafbátsins.
Þeir töldu einsýnt að stríð hefði þegar brotist út og þeir yrðu að verja sig.
Ef kafbáturinn hefði gert árás, þá hefðu Bandaríkjamenn áreiðanlega svarað með eigin kjarnorkuárás og allsherjar stríð hefði mjög sennilega brotist út með skelfilegum afleiðingum fyrir alla heimsbyggðina.
Arkhipov neitaði hins vegar að fallast á árás á bandarísku herskipin. Hann benti á að kafbátamenn hefðu mjög takmarkaða hugmynd um hvað væri á seyði og ættu ekki að taka þá áhættu að auka á stríðshættuna.

Arkhipov fékk að ráða og ekki varð af neinum allsherjar átökum.
Til að fá rétt svar dugar að vita að þessi orðum skrýddi maður neitaði að gera kjarnorkuárás í Kúbudeilunni, og kom þannig í veg allsherjar stríð.
Ekki er nauðsynlegt að vita nafnið hans, til dæmis, eða þekkja til smáatriðanna í málinu.
En hér að ofan er annars önnur mynd af honum með konunni, henni Olgu Arkhipovu.
Gljámerkið á neðri myndinni er „andi alsælunnar“ sem prýðir lúxusbíla af gerðinni Rolls Royce.
***
Athugasemdir