Donald J. Trump er ekki fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem veikist af lífshættulegri farsótt. Vorið 1919 fékk Woodrow Wilson forseti spænsku veikina og það gæti hafa haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir veraldarsöguna.
Spænska veikin fór hamförum um heiminn 1918-1920. Farsóttin kann að hafa drepið allt að 100 milljónir manna. Þar af drap hún 675.000 Bandaríkjamenn. Eins og rifjað er upp í dag – til dæmis á vefsíðu Smithsonian – þá þykir mönnum eftir á sem ríkisstjórn Wilsons forseta hafi brugðist seint og illa við, og raunar helst viljað láta eins og ekkert væri.
Hljómar kunnuglega.

Hljómar kunnuglega?
Ástæðan fyrir sinnuleysi Wilsons var að fyrri heimsstyrjöldinni var þá að ljúka og hann ætlaði sér og Bandaríkjunum mikið hlutverk í nýrri skipan heimsins, og vildi því ekki að óþægilegar fregnir eins og dauði fjölda fólks af sjúkdómnum skyggðu á sigurgönguna.
Wilson gerði því lítið úr sjúkdómnum opinberlega en af vitnisburði samverkamanna hans síðar er ljóst að hann gerði sér í rauninni fulla grein fyrir því hve hættuleg farsóttin var.
Hljómar kunnuglega.
Í byrjun árs 1919 kom Wilson til Parísar til að taka þátt í undirbúningi fyrir friðarráðstefnuna í Versölum, en Þjóðverjar höfðu gefist upp í nóvember árið áður og nú þurfti að semja um framhaldið.
Ljóst var að Frakkar myndu gera kröfur um háar stríðsskaðabætur af hendi Þjóðverja.
Deilan um stríðsskaðabætur
Í raun voru þær kröfur ekki óbilgjarnar. Þjóðverjar höfðu jú hafið stríðið og valdið ógurlegu tjóni á byggðum og bæjum og sveitum Norður-Frakklands en raunverulegt tjón í Þýskalandi var í sjálfu sér ekkert.
Hins vegar var efnahagur Þýskalands eigi að síður í rústum og upplausn í öllu landinu.
Ýmsir, einnig í hópi sigurvegaranna, gerðu sér grein fyrir að ef Þjóðverjar yrðu þvingaðir til að greiða háar skaðabætur, þá gæti það endað með enn meiri efnahagsörðugleikum þeirra og síðan gremju og svekkelsi í garð sigurvegaranna.
Það gæti svo endað með því að aftur stefndi í stríð.
Þótt Wilson væri rasisti (hljómar kunnuglega) var hann á réttri leið hvað snerti hugmyndir um skipan mála eftir styrjöldina. Hann vildi fara vægilega að Þjóðverjum, meðal annars til þess að þeir yrðu örugglega með í því Þjóðabandalagi sem Wilson vildi láta stofna.
Það átti að semja um deilur stórvelda áður en til stríðsátaka kæmi.
Fárveikur forseti með óráði
Um mánaðamótin mars-apríl 1919 veiktist Wilson hins vegar af spænsku veikinni í París. Ein bylgja hennar var þá að ríða yfir Vestur-Evrópu.
Raunverulegri heilsu forsetans var vandlega haldið leyndri. Aðeins var gefið upp að Wilson hefði fengið fremur slæmt kvef, enda vorið í Frakklandi heldur kalt þetta árið.
Sannleikurinn var þó sá að Wilson var fárveikur, hafði mikinn hósta, meltingartruflanir og háan hita. Hitinn var tæpar 40 gráður þegar mest var og þá þjáðist Wilson af ofskynjunum og ringlun.
Hann hélt til dæmis um tíma að hann væri umkringdur frönskum njósnurum.
Þegar hann fór að hjarna við fór hann að taka þátt í undirbúningi fyrir Versalafundinn gegnum aðstoðarmenn sína og ritara. Svo átti að heita að hann væri með fullu fjöri. En þeir sem fengu að hitta Wilson á dvalarstað hans sáu strax að því fór fjarri. Hann var mjög tekinn, hafði glatað skarpleika sínum andlega og fékk enn furðulegar hugmyndir.
Hann fékk til dæmis á heilann um skeið að hann yrði að hafa mjög nákvæmt eftirlit með hverjir notuðu bíla á vegum Bandaríkjastjórnar.
Eins og það skipti miklu máli á þessari stundu.

Varð aldrei samur maður
Verst var að í miðju kafi lét hann skyndilega og óvænt undan kröfum Frakka í sambandi við stríðsskaðabætur af hendi Þjóðverja.
Hann virtist einfaldlega ekki lengur hafa þrek til að andmæla Frökkum.
Eins og hendi væri veifað gufaði upp sú sannfæring hans að skynsamlegast væri þrátt fyrir allt að fara mildilega að Þjóðverjum.
Þegar svo Versalafundurinn sjálfur hófst var Wilson kominn á fætur og bar sig vel, þótt einn helsti aðstoðarmaður hans segði síðar að eftir kynni sín af spænsku veikinni hefði Wilson „aldrei orðið samur maður“.
Svo fór að Þjóðverjar urðu að samþykkja kröfur Frakka, sem Bandaríkjamenn tóku nú undir, um stríðsskaðabætur.
Margir telja að það hafi átt ólítinn þátt í að öfgaflokkum þjóðernissinna óx fiskur um hrygg í Þýskalandi næsta áratuginn og endaði með valdatöku Adolfs Hitlers.
Í október 1919 fékk Wilson svo einhvers konar heilablóðfall og var lengi nánast út úr heiminum. Edith kona hans og fáeinir nánustu samstarfsmenn hans leyndu veikindunum og rúmt ár var hún í rauninni forseti Bandaríkjanna, því hún tók flestar helstu ákvarðanir fyrir hann.

Olli spænska veikin heilablóðfalli Wilsons?
Hvort spænska veikin og þær hörmungar sem hún hafði kallað yfir líkama Wilsons hafi átt þátt í heilablóðfalli hans verður ekki sagt hér. Sumir telja þó að svo hafi verið.
Veikindi Wilson ollu því meðal annars að hann gat ekki rekið áróður meðal landa sinna fyrir þátttöku þeirra í Þjóðabandalaginu, sem þó má segja að hafi verið sérstakur óskadraumur Wilsons. Einangrunarsinnar á Bandaríkjaþingi fengu því ráðið – gegn magnþrota andstöðu hins fársjúka forseta – að Bandaríkin tóku ekki þátt í Þjóðabandalaginu.
Þar með var slagkraftur bandalagsins mun minni en ella, og það síður í stakk búið til að hindra þá atburðarás milli stríða sem endaði með síðari heimsstyrjöldinni.
Athugasemdir