Það er vel þekkt út frá hagfræði, stjórnmálafræði og opinberri stjórnsýslu, að bregðast þurfi við umboðs- og freistnivanda þegar einhver fer með eigur annarra í þeirra umboði.
Þannig eru þingmenn og ráðherrar í þeirri stöðu að taka ákvarðanir um og fara með eigur okkar allra, með umboð frá okkur. Aðhald okkar er takmarkað og felst í almennum þingkosningum á 1.460 daga fresti. Mesta hættan á umboðs- og freistnivanda skapast þegar fulltrúar okkar fá sjálfir að móta reglurnar, án okkar aðkomu, sem þó erum réttmætari aðilar. Oftast gerist þetta með leynd, vegna ósamhverfra upplýsinga, en það getur líka gerst frammi fyrir augunum á okkur.
Eitt slíkt tilfelli á sér stað núna á Íslandi, þegar þingmenn og ráðherrar ákveða sjálfir að ráða stjórnarskránni, reglunum sem ákvarða meðal annars valdið sem þeir fá í okkar umboði.
Vanhæfi þingmanna
Þingmenn eru vanhæfir til þess að móta stjórnarskrána, vegna þess að hún fjallar um þá sjálfa. Þeir hafa beina hagsmuni af því að stýra henni og því er hagsmunaárekstur til staðar. Augljóst dæmi er aukin áhersla á aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum, sem dregur þá úr valdi þingmanna. Annað augljóst dæmi er ákvæði um að atkvæði allra landsmanna vegi jafnt, sem veikir stöðu flokka sem eru sterkir á landsbyggðinni. Þriðja augljósa dæmið er hagsmunir stjórnmálaflokka af því að standa í vegi fyrir persónukjöri, sem minnkar vald flokkanna.
Frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá tekur á öllum þessum málum. Við þurfum ekki að vera sammála frumvarpinu til að sjá að umboðs- og freistnivandinn er til staðar hjá fulltrúum okkar. Þingmenn eru því óumdeilanlegir hagsmunaaðilar að gerð stjórnarskrárinnar. Enda var það vitað.
Þess vegna var lagt til, strax nokkrum árum eftir að núverandi stjórnarskrá var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningu um sjálfstæði Íslands árið 1944, að stofnað yrði óflokkspólitískt stjórnlagaþing sem myndi móta nýja íslenska stjórnarskrá.
Og þess vegna var ákveðið að stofna til þúsund manna þjóðfundar árið 2011, sem myndi leggja á ráðin um grunngildi þjóðarinnar, sem þjóðkjörið, ópólitískt stjórnlagaþing myndi hafa til hliðsjónar við gerð nýrrar stjórnarskrár, sem yrði síðan sett í dóm þjóðarinnar í beinni kosningu.
Niðurstöðum þeirrar kosningar hefur hins vegar ekki verið fylgt.
Formennirnir funda
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra metur sem svo að samþykki á staðhæfingunni „Við viljum að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“ feli í sér að formenn stjórnmálaflokka sammælist um að breyta einstökum greinum gömlu stjórnarskrárinnar með orðavali sem þeir sættast á, að viðhafðri valkvæðri hliðsjón af stjórnarskrá stjórnlagaráðs.
„Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“, segir í kynningu á drögum að nokkrum breytingum á stjórnarskránni, sem sumar líkjast frumvarpi stjórnlagaráðs en aðrar alls ekki.
Katrín segir að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn, sem er í orðanna hljóðan rétt, ef horft er fram hjá þeim anda lýðræðisins að þingmenn eru fulltrúar almennings sem samþykkti grundvöll að „nýrri stjórnarskrá“.
Niðurstaða Katrínar var því að gömul stjórnarskrá verði lögð til grundvallar breytinga flokksformanna á stjórnarskránni, með tilfallandi, ráðgefandi aðkomu almennings.
„Hún er því ekki til.“
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og samherji Katrínar í ríkisstjórn og andstöðu við kröfuna um nýja stjórnarskrá, svarar beiðninni um að ný stjórnarskrá verði staðfest með því að afneita tilvist hennar. Hann segir að þar sem Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn hafi nýja stjórnarskráin aldrei verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu – þegar 67% kjósenda samþykktu að „tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“.
„Ný stjórnarskrá“ hefur því aldrei verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er því ekki til.“
Nýja kynslóðin sem virðir lýðræði
Samband ungra Sjálfstæðismanna ákvað fyrir stuttu að stofna staðreyndavakt um stjórnarskrána.
Í staðreyndavaktinni kemur fram að Alþingi, sem hefur ákveðið að fylgja ekki niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána fyrir 8 árum, hafi þannig „virt“ þjóðaratkvæðagreiðsluna:
„Er Alþingi ekki að virða þjóðaratkvæðagreiðsluna frá 20. október 2020?“ spyr staðreyndavaktin og svarar: „Jú, skýrt var í öllum upplýsingum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna að hún væri einungis ráðgefandi en ekki lagalega bindandi fyrir Alþingi.“
Við getum haft skoðun á því hvort þingmenn hafi nokkra siðferðislega skyldu til þess að fylgja ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum, en enginn er að virða vilja þinn ef hann fer gegn vilja þínum, jafnvel þótt hann hafi enga lagaskyldu til þess. Þetta er öllum mikilvægt að vita á lífsleiðinni.
Fjórar þjóðaratkvæðagreiðslur
Ungir Sjálfstæðismenn hafa gengið svo langt að kalla þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána skoðanakönnun. Venjan er hins vegar að fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslum, ráðgefandi eða bindandi.
Í fjórum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi hafa þingmenn alltaf fylgt niðurstöðunum, nema einu sinni, og það var í tilfelli stjórnarskrárinnar.
Í vikunni náðu til dæmis Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur saman um að mynda meirihluta í nýju sveitarfélagi á Fljótsdalshéraði. Meirihlutinn ákvað að fara að vilja íbúa í ráðgefandi íbúakosningu um nýtt nafn á sveitarfélagið. Það mun því heita Múlaþing.
Atkvæðagreiðslan var ekki lagalega bindandi og því hefði nýi meirihlutinn getað valið Drekabyggð, sem varð í öðru sæti. Eða Múlabyggð eða Múlaþinghá, sem örnefnanefnd mælti með.
Samkvæmt skilningi Sambands ungra Sjálfstæðismanna hefði nýi meirihlutinn verið að „virða“ íbúakosninguna með því að kalla sveitarfélagið eitthvað annað, því kosningin var ekki bindandi.
Þið fenguð tækifæri
Stjórnmálamennirnir geta hins vegar sagt að þar sem þeir hlutu kosningu í alþingiskosningunum séu þeir óbundnir af þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá, enda hafi kjósendur fengið tækifæri til að beita valdi sínu og vali með því að velja þá eða ekki.
Aðeins eru hins vegar sjö ár síðan bæði Sjálfstæðisflokkur og formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lofuðu því fyrir alþingiskosningar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, en ákváðu síðan að framfylgja ekki loforðinu um að láta kjósendur ráða beint, vegna þess að þeir vildu sjálfir slíta aðildarviðræðunum. Þeir sem kusu flokkana tvo, að hluta til í trausti þess að fyrirfram loforðum þeirra yrði fylgt, gátu hins vegar ekkert gert í því.
Afleiddur vandi
Þessu fylgir ferns konar afleiddur vandi.
Í fyrsta lagi, að efnislega taki ný og uppfærð stjórnarskrá ekki gildi. Sumir eru þó ánægðir með það. 33% kjósenda, eða rúmlega 16% þjóðarinnar samkvæmt skilgreiningu staðreyndavaktarinnar, voru mótfallnir henni.
Í öðru lagi, að lýðræðið og lýðræðisandinn hefur verið vanvirtur. Enginn ætti að vera sáttur við það.
Í þriðja lagi að grafið er undan grundvelli lýðræðislegs gildismats með orðræðu andstæðinga nýrrar stjórnarskrár, sem endurskilgreina orð og hugtök í þágu málstaðarins.
Í fjórða lagi er umboðsvandi og freistnivandi þingmanna og flokksformanna við gerð grundvallarreglna samfélagsins okkar.
Stjórnarskrárgjafinn
Óháð öðru er Katrín Jakobsdóttir komin að niðurstöðu um stjórnarskrárgjafann. Niðurstaðan eins og hún er, er að hún og hinir flokksformennirnir eru í reynd stjórnarskrárgjafarnir. En því fylgir mikill vandi. Sá vandi er fræðilega vel þekktur sem umboðs- og freistnivandi, eða principal-agent problem. Svo vill til að við höfum tækifæri til að veita aðhald eftir á. Fylgi við flokk forsætisráðherra mælist nú allt niður í helming þess sem það var í síðustu kosningum og aðeins 23% landsmanna treysta Alþingi. Það eru ráðgefandi skilaboð um komandi vilja, tilvist og sundurgreiningu á nýju og gömlu.
Athugasemdir