„Við lítum svo á að um hafi verið að ræða lögmætar greiðslur og höfnum því alfarið að greiðslur til þessara aðila hafi verið mútur,“ segir Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja, aðspurður um greiðslur fyrirtækisins upp á vel á annan milljarð króna til hóps namibískra ráðamanna í skiptum fyrir kvóta þar í landi á árunum 2012 til 2019. Þetta kemur fram í viðtali við Björgólf í Morgunblaðinu í dag.
Sjö Namibíumenn hafa setið í gæsluvarðhaldi í nærri eitt ár í Namibíu vegna málsins. Þeir eru grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja í málinu auk þess sem rannsókn fleiri brota er undir. Umræddir einstaklingar hafa gengið undir viðurnefningu „hákarlarnir“. Í gær var beiðni þeirra um lausn gegn tryggingu hafnað og sagði dómari í máli þeirra í sumar að Namibíumennirnir hefðu gerst sekir um „rán um hábjartan dag“.
Sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja eru sömuleiðis með réttarstöðu sakborninga vegna málsins á Íslandi. Þeir hafa verið yfirheyrðir grunaðir um aðkomu að mútugreiðslum og peningaþvætti.
„Við lítum svo á að um hafi verið að ræða lögmætar greiðslur “
Ef Björgólfur hefur rétt fyrir sér þegar hann segir, fyrir hönd Samherja, að Samherji „líti svo á“ að greiðslurnar til áhrifamannanna hafi verið „lögmætar“ er fjölmiðlaumfjöllunin um málið byggð á misskilningi á eðli greiðslna Samherja auk þess sem rannsókn ákæruvaldsins í Namibíu er ástæðulaus sem og rannsókn íslenska ákæruvaldsins á málinu. Sjömenningarnir í Namibíu hafa því setið í fangelsi í nærri eitt ár að ástæðulausu og starfsmenn Samherja hafa fengið réttarstöðu sakborninga að ósekju, ef Björgólfur fer með rétt mál.
Björgólfur gengur lengra
Í viðtalinu við Morgunblaðið gengur Björgólfur nokkuð lengra í því en Samherji hefur gert áður að halda því fram að greiðslurnar til namibísku ráðamannanna, sem Kveikur, Stundin og Al Jazeera greindu frá í fyrra í samstarfi við Wikileaks, hafi verið eðlilegar eða „lögmætar“ eins og hann orðar það.
Fyrst eftir að umræddir fjölmiðlar greindu frá málinu í nóvember í fyrra treysti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ekki að fullyrða aðspurður að Samherji hefði ekki greitt mútur. Þorsteinn Már var spurður um þetta atriði í viðtali á vísi.is.
Síðan þá hefur Þorsteinn Már haldið því fram að um hafi verið að ræða ráðgjafagreiðslur.
Í viðtali í Sprengisandi á Bylgjunni í síðasta mánuði sagði Þorsteinn Már að Samherji hefði „greitt einhverjar greiðslur til ráðgjafa“ í Namibíu en að þetta hafi ekki verið mútur.
Slíkar „ráðgjafagreiðslur“ eru þekkt yfirskyn fyrir eiginlegar mútugreiðslur í mörgum löndum heimsins þar sem engin eiginleg ráðgjöf er veitt heldur er um að ræða greiðslur sem veita aðgang að gæðum, eins og til dæmis kvóta, í krafti pólitísks valds. Aðilarnir sem sitja í fangelsi í Namibíu grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja eru meðal annars tveir fyrrverandi ráðherrar.
Líkt og enski hagfræðingurinn Paul Collier hefur sagt þá eru mútugreiðslur vitanlega aldrei skilgreindar sem mútugreiðslur heldur eitthvað annað eins og til dæmis ráðgjafagreiðslur eða strokugreiðslur (e. facilitation feee):„Mútur eru auðvitað aldrei kallaðar „mútur“; þetta eru „strokugreiðslur“ sem fyrirtækið sem nýtir auðlindirnar greiðir til fyrirtækja í viðkomandi landi, sem eru með óskýru eða óþekktu eignarhaldi, fyrir óskilgreinda þjónustu,“ segir Collier, sem er sérfræðingur í málefnum Afríku, í bók sinni The Plundered Planet.
„Hvorki Samherji, né nokkur félög tengd Samherja, hafa nokkru sinni greitt mútur.“
Í viðtalinu við Moggann í dag segir Björgólfur ekki einu sinni að um hafi verið að ræða greiðslur fyrir ráðgjöf heldur aðeins „lögmætar greiðslur“. Hann útskýrir eðli þessara greiðslna ekki frekar, líkt og Samherji hefur gert áður, og er ekki beðinn um að útskýra af hverju umræddir peningar runnu frá Samherja til Namibíumannanna sjálfra.
Mútur nefndar í bókhaldsgögnum Samherja
Í viðtalinu segir Björgólfur meðal annars einnig um mútugreiðslurnar sem félagið greiddi í Namibíu: „Samherji hafnar því staðfastlega að hafa greitt mútur. Hvorki Samherji, né nokkur félög tengd Samherja, hafa nokkru sinni greitt mútur. Varðandi kvótaviðskipti Samherja í Namibíu þá hef ég ekki séð annað en að félög tengd Samherja hafi greitt markaðsverð fyrir kvótann og þá fæ ég ekki séð að mútur hafi nokkurn tímann verið greiddar.“
Eitt af vandamálunum við þessi ummæli Björgólfs er það að Samherji gerði ráð fyrir því í kostnaðaráætlunum að þurfa að greiða mútur í starfsemi sinni í Afríku.
Eins og Stundin hefur fjallað um er eitt dæmi um að mögulegar mútur hafi verið settar inn í kostnaðaráætlanir Samherja í Afríku að finna í minnisblaði frá Samherja í Marokkó árið 2008, þar sem Samherji stundaði fiskveiðar áður en fyrirtækið fór til Namibíu. Þar stendur, undir liðnum „annað“, í kostnaðaráætlun fyrir landvinnslu Samherja þar í landi, „mútur“. Ekki kemur fram hversu mikið eigi eða hafi verið greitt í mútur og ekki er ljóst hvort þetta var gert í Marokkó. En sú staðreynd að þennan kostnaðarlið var að finna í minnisblaðinu frá Samherja sýnir að útgerðarfélagið gerði ráð fyrir því að þurfa mögulega að beita mútum í starfsemi sinni í Marokkó.
Annað gagn frá Marokkó sýnir hvernig gert var ráð fyrir mútugreiðslum til tollsins í landinu en sérstakur bókhaldslykill var merktur „bribes to customs“.
Snýst um hvert peningarnir fóru en ekki markaðsverð
Annað sem vekur athygli við orð Björgólfs er fullyrðing hans um að Samherji hafi greitt markaðsverð fyrir kvótann í Namibíu. Eitt af vandamálunum við þessi orð hans er að Samherji greiddi „hákörlunum“ svokölluðu fyrir afnotin af kvótanum að hluta en ekki namibíska ríkinu. Kvótagjaldið rann því að hluta til í vasa einstaklinganna sem nú sitja í gæsluvarðhaldi en ekki til ríkisins. Þetta er svona eins og ef veiðigjöld íslenskra útgerðarfélaga myndu renna í vasa forstjóra Fiskistofu eða sjávarútvegsráðherra Íslands á hverjum tíma en ekki í ríkiskassann.
Um þetta sagði Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari í Namibíumálinu, í viðtali við Stundina í fyrra. „Það eru kannski 1,5 til 2 milljónir Bandaríkjadala sem hafa farið til ríkisins frá 2014 til 2019. En strákarnir, þessi spillta grúppa, eru búnir að fá yfir 10 milljónir Bandaríkjadala. Það eru yfir 10 milljónir dollara sem þeir hafa fengið, beint í þeirra vasa og annarra, og ríkið fær miklu, miklu minna. Svo hefur Samherji hagnast mikið á þessum veiðum.“
Í orðum Jóhannesar felst því að þessar meira en 10 milljón dala greiðslur hafi aldrei komið til namibíska ríkisins heldur að þær hafi meðal annars farið frá fisksölufyrirtæki Samherja á Kýpur, sem meðal annars selur makrílinn sem veiddur er í Namibíu, til namibísku ráðamannanna sem nú sitja í fangelsi. Greiðslurnar fyrir afnotin af auðlindum Namibíu fóru því frá félögum Samherja í vasa spilltra stjórnmála- og embættismanna.
Þetta er í raun kjarni Namibíumáls Samherja; hvert greiðslurnar sem Samherji greiddi fyrir afnotin af kvótanum í Namibíu runnu í reynd að stóru leyti. Út af þessu er málið til rannsóknar sem mútumál í Namibíu og einnig á Íslandi. Það er ekki til rannsóknar hvort peningarnir sem runnu frá Samherja í skiptum fyrir kvótann hafi numið markaðsverði á kvótanum eða ekki heldur hvert þessir peningar fóru.
Hvort ákæruvaldið í Namibíu og á Íslandi „lítur svo á“ að Björgólfur Jóhannsson og Samherji hafi rétt fyrir sér í þessum túlkunum á mútugreiðslunum frá útgerðinni á svo eftir að koma í ljós.
Athugasemdir