Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

„Í besta falli afbökun en í versta falli hrein lygi“

Hvorki lög­mað­ur né vin­ir Khedr-fjöl­skyld­unn­ar hafa náð í hana í síma í sól­ar­hring. Fjöl­skyld­an var að lík­ind­um flutt úr landi nauð­ug í morg­un. Lög­mað­ur seg­ir mál­flutn­ing full­trúa Út­lend­inga­stofn­un­ar lít­ilmann­leg­an í mál­inu. Lát­ið verð­ur reyna á brott­vís­un­ina fyr­ir dóm­stól­um.

„Í besta falli afbökun en í versta falli hrein lygi“
Að líkindum flutt úr landi Til stóð að flytja Khedr-fjölskylduna úr landi í morgun en ekki hefur fengist stðafest hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra að það hafi verið gert. Mynd: Sema Erla Serdar

Hvorki lögmaður né vinir Khedr-fjölskyldunnar egypsku hafa náð sambandi við hana allt frá því í gær. Svo virðist sem slökkt hafi verið á símum fjölskyldumeðlima frá því í gærmorgun hið minnsta. Því vita hvorki Magnús D. Norðdal lögmaður né vinir og stuðningsfólk fjölskyldunnar hvað á daga þeirra hefur drifið síðasta sólarhring. Til stóð að flytja fjölskylduna nauðuga úr landi í morgun og fljúga henni til Amsterdam og þaðan til Kaíró. Ekki náðist í fulltrúa stoðdeildar ríkislögreglustjóra við vinnslu fréttarinnar til að staðfesta að það hefði verið gert.

Icelandair flaug til Amsterdam í morgun og fór vélin í loftið klukkan 7:31. Magnús segist ekki þekkja málavexti en gerir ráð fyrir að Khedr-fjölskyldan hafi verið flutt um borð og sé í loftinu á þessari stundu. „Að því marki sem mér eru aðgerðir lögreglu kunnugar stóð til að sækja þau klukkan hálf sex í morgun, fara með þau út á Keflavíkurflugvöll, fljúga með þau til Amsterdam og þaðan til Kaíró.“

Magnús gagnrýnir fullyrðingar Þorsteins Gunnarssonar, sviðsstjóra hjá Útlendingastofnun, í Kastljósi í gær harðlega. Þorsteinn hélt því þar fram að ástæður þess að fjölskyldan hefði ekki verið flutt úr landi fyrr en nú hafi verið sú að vegabréf tveggja elstu barnanna, Rewidu og Abdalla, hafi runnið út og foreldrarnir ekki verið viljugir til að sækja um framlengingu þeirra. Því hafi íslensk yfirvöld þurft að sækja um ný vegabréf hjá egypskum yfirvöldum og það hafi tekið marga mánuði.

„Flóttafólk tekur ekki í gikkinn og fer sjálft úr landi, það er bara ekki þannig“

„Hann skellir skuldinni á fjölskylduna, hún hafi tafið málið og það sé ekkert við yfirvöld að sakast. Að kenna fjölskyldunni um þessar tafir er lítilmannlegt. Flóttafólk tekur ekki í gikkinn og fer sjálft úr landi, það er bara ekki þannig,“ segir Magnús.

Segir framgöngu yfirvalda skammarlega

Tvö vegabréf barnanna runnu út 28. janúar, sem fyrr segir, en fram að því var öll fjölskyldan með gild vegabréf. „Úrskurður kærunefndar útlendingamála var hins vegar kveðinn upp 14. nóvember á síðasta ári og birtur fjölskyldunni 18. nóvember. Þau höfðu þá 30 daga til að yfirgefa landið á eigin vegum og þeir 30 dagar voru liðnir 18. desember. Frá 18. desember til 28. janúar er fjölskyldan með gild ferðaskilríki. Það eru 48 dagar. Útlendingastofnun hugðist hins vegar senda þau úr landi í febrúar. Af hverju var fjölskyldan ekki flutt úr landi á þessum tæpu fimmtíu dögum þegar ferðaskilríki þeirra voru gild. Ekki getur það hafa verið vegna Covid-19 faraldursins sem ekki var orðinn að heimsfaraldri þá. Þessi málflutningur fulltrúa Útlendingastofnunar er í besta falli afbökun en í versta falli hrein lygi,“ segir Magnús

Enn er eftir að fá svar kærunefndar útlendingamála við tveimur kröfum í máli fjölskyldunnar. Nefndin hafnaði í gær frestun á réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar. Magnús segir að látið verði reyna á málið fyrir dómstólum og hann vonist til þess að Khedr-fjölskyldan geti snúið til baka til Íslands. Langan tíma getur þó tekið að reka málið fyrir dómi, ekki nema að flýtimeðferð verði samþykkt en þá gæti mögulega verið hægt að klára dómsmál á mánuði. „Við munum láta reyna á þessa málsmeðferð í heild sinni, frá a til ö, og þar höfum við aldeilis úr ýmsu að moða. Það verður krafist ógildingar á úrskurði Útlendingastofnunar og öllum úrskurðum kærunefndar, þeim sem hafa fallið og þeim sem enn er beðið eftir verði þeir fjölskyldunni í óhag. Þetta er ótrúlega sorglegt og framganga yfirvalda skammarleg.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Bráðafjölskylda á vaktinni
5
Á vettvangi

Bráða­fjöl­skylda á vakt­inni

Starfs­fólk bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um á það til að líkja starfs­hópn­um við fjöl­skyldu, þar sem teym­ið vinn­ur þétt sam­an og þarf að treysta hvert öðru fyr­ir sér, ekki síst and­spæn­is erf­ið­leik­um og eftir­köst­um þeirra. Þar starfa líka fjöl­skyld­ur og nán­ir að­stand­end­ur lenda jafn­vel sam­an á vakt. Hér er rætt við með­limi einn­ar fjöl­skyld­unn­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár