Það hefur verið á vitorði vísindamanna um skeið en fróðleikurinn þó líklega ekki seytlað nógsamlega út til almennings:
Hundar eru ekki, þvert oní það sem lengi var talið, afkomendur úlfa. Þeir eru vissulega náskyldir úlfum, en ekki sem afkomendur þeirra heldur frændur.
Eftir að þróunarkenningin festist í sessi virtist uppruni hunda liggja ljós fyrir. Úlfahópar fóru að halda til í námunda við bústaði steinaldarmanna því þar gátu þeir átt von á að næla sér í leifar af bráðinni sem mennirnir veiddu.
Mennirnir hændu smátt og smátt að sér eitthvað af úlfum og gerðu þá sér handgengna.
Tömdu þá, með öðrum orðum.
Og fóru svo, ómeðvitað kannski í fyrstu en síðan markvisst og ákveðið, að rækta upp hina ýmsu og ólíku eiginleika úlfsins, uns komin var ný tegund fram á sjónarsviðið, hundurinn, og margar ólíkar undirtegundir hans.
Ekki úlfur
Þessi mynd kann að vísu að vera rétt í stærstu dráttunum en tegundin sem menn löðuðu að sér – eða laðaðist að mönnum – var ekki úlfur.
Þetta kom fram í ýmsum rannsóknum sem kynntar voru upp úr 2010 (og hér er til dæmis sagt frá einni þeirra) þar sem rannsakaðir voru nokkrir hópar úlfa og hunda.
Niðurstaða þessarar rannsóknar var að leiðir hunda og gráúlfa nútímans hefðu skilið fyrir 9 til 34 þúsund árum, og hundar væru ekki komnir af nútímaúlfum í neinum skilningi.
Tegundirnar ættu sameiginlegan forföður eða -móður, en sú óþekkta tegund væri dáin út og ekkert hægt að segja um hana svo óyggjandi væri.
Leiðir skildu fyrir allt að 41.000 árum
Frekari rannsóknir síðan hafa staðfest þetta, nema hvað nú telja flestir að leiðirnar hafi skilið ívið fyrr, eða fyrir 36 til 41 þúsund árum.
Það er að segja áður en hundar og menn rugluðu saman reitum. Það er nokkuð samdóma álit vísindamanna að það hafi gerst fyrir rúmum 15 þúsund árum.
Umdeild kenning hermir raunar að það hafi gerst löngu fyrr eða fyrir 35 þúsund árum. En sú kenning hefur ekki öðlast almennt fylgi.
Skilnaður úlfa og „for-hunda“ varð sem sé án afskipta mannsins, samkvæmt hinum nýja sjónarhól.
Tiltölulega skömmu eftir að leiðir úlfa og formóður hundsins skildu, þá gengu báðar tegundirnar í gegnum erfiðleika og fækkaði mikið. Ástæðurnar voru sjálfsagt veðurfarslegar en ísöld var þá í gangi.

Þær náðu sér þó báðar á strik aftur og raunar er talið að partur af því hve hundar og úlfar séu svipaðir eigi rót að rekja til kynblöndunar eftir að tegundir úlfa og hundamóður skildust að, og voru á uppleið aftur eftir fyrrnefnda erfiðleika eða „flöskuháls“.
En hver var þá þessi tegund sem allir hundar eru nú komnir af?
Vissulega var þar um að ræða einhvers konar úlf og sjálfsagt hefði tegundin komið okkur nokkuð kunnuglega fyrir sjónir.
En hversu svipuð tegundin var nútímaúlfum – eða nútímahundum – er ekki gott að segja.
Í rannsókn sem kynnt var í byrjun þessa árs er bent á aðra fárra missera rannsókn þar sem líkum var leitt að því að hin óþekkta formóðir hundsins kunni að hafa þróast á tíma og svæði þar sem rakt var og hlýtt.
Þau skilyrði gætu hafa verið ýtt undir smærri vöxt en hinna stóru gráúlfa.
Svo formóðir hundsins gæti hafa verið á stæð við venjulegan „þorpshund“ eins og komist er að orði í annarri rannsókninni.
Athugasemdir