Laxadauðinn sem átti sér stað hjá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi í byrjun ársins setur verulegt strik í reikninginn hjá fyrirtækinu í ár. Tekjurnar drógust saman um nærri helming á ársfjórðungnum apríl til júní vegna laxadauðans og lágs heimsmarkaðsverðs á eldislaxi. Tekjur Arnarlax voru einungis 99 milljónir norskra króna, tæplega 1,5 milljarður, á ársfjórðungnum samanborið við 177 milljónir norskra króna, 2,6 milljarðar króna, í fyrra. Framleiðslan hjá Arnarlaxi, eldislaxi sem var slátrað og seldur, dróst saman um 1.100 tonn á ársfjórðungnum. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra var framleiðslan 2.800 tonn en í ár var hún 1.700 tonn.
Þetta kemur fram í árshlutahlutauppgjöri móðurfélags Arnarlax, Salmar AS, sem er skráð í kauphöllina í Noregi. Árshlutauppgjörið var gert opinbert í morgun.
Salmar AS á meirihluta hlutabréfa í Arnarlaxi eftir að hafa keypt meðal annars keypt íslenska hluthafa eins og Tryggingamiðstöðina og Fiskisund út úr félaginu. Fyrirtækið er stærsti einstaki hagsmunaðilinn í íslensku laxeldi þar sem Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki landsins.
Laxinn drapst vegna vetrarsára
Stundin greindi frá laxadauðanum hjá Arnarlaxi, sem átti sér stað í kvíum í Hringsdal í Arnarfirði, í febrúar. Samkvæmt síðustu tölum sem blaðið greindi frá drápust alls 128.900 eldislaxar, sem vógu 774 tonn, í hremmingunum. Þessar tölur komu frá Matvælastofnun. Ástæða laxadauðans voru vetrarsár á löxunum sem voru tilkomin vegna sjávarkulda og vegna þrengsla í eldiskvíunum. Þrengslin urðu meiri en ella þar sem eldislaxinn var kominn í sláturstærð og tók því meira pláss en minni fiskur.
Þettta tvennt gerði það að verkum að laxinn leitaði neðar í kvíarnar í Arnarfirði og nuddaðist fiskurinn í auknum mæli við netið í kvíunum sem leiddi til þess að sár mynduðust á hreistri laxanna sem svo dró þá til dauða. Þegar eldisfiskur fær sár á hreystrið aukast líkur á sjúkdómum og þar með dauða.
„Mér virðist þetta vera svipað og í fyrra en er þó heldur fyrr á ferðinni“
Arnarlax kallaði á skip frá Vestmannaeyjum sem sigldi vestur í Arnarfjörð til að hreinsa dauðan lax upp úr kvíunum og eins fékk fyrirtækið norska sláturskipi Norwegian Gannett til landsins til að slátra upp úr kvíunum þar sem ástandið var sem verst. Þetta gerði fyrirtækið til að reyna að bjarga verðmætum með því að slátra sem mest af laxinum sem fyrst áður en hann dræpist.
Fyrst eftir að laxadauðinn kom upp reyndi Arnarlax að gera lítið úr vandamálinu. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður í Arnarlaxi og hluthafi í fyrirtækinu, sagði við Stundina eftir að vandamálið kom upp að líklega væri um að ræða álíka mikinn laxadauða og hjá fyrirtækinu í fyrra. „Mér virðist þetta vera svipað og í fyrra en er þó heldur fyrr á ferðinni,“ sagði Kjartan.
Sú upplýsingagjöf um málið sem veitt var á heimasíðu Arnarlax var einnig önnur en þær upplýsingar sem fram koma í uppgjörum norska móðurfélagsins. Ástæðan er sú að það hvílir ekki sama upplýsingaskylda á Arnarlaxi og Salmar AS vegna þess að síðarnefnda félagið er skráð í norsku kauphöllina og verður að greina frá slíkum skakkaföllum í rekstrinum undanbragðalaust.
Eitt stærsta vandamálið sem steðjar að laxeldi í sjókvíum við Íslandsstrendur er annars vegar sjávarkuldinn við landið og hins vegar möguleikinn á vonskuveðri yfir vetrarmánuðina sem skemmt getur kvíarnar og valdið tjóni.
Tjónið kom fram í apríl og maí
Í árshlutauppgjöri Salmar segir um laxadauðann: „Eins og síðasta árshlutauppgjör benti til var rekstrarniðurstaða Arnarlax mjög léleg á ársfjórðungnum. Hann einkenndist af háum kostnaði og lágum verðum á tímabilinu. Sá lax sem var framleiddur á öðrum ársfjórðungi kemur fyrst og fremst frá eldissvæðum þar sem mikill laxadauði hefur átt sér stað. Samtímis hefur lágt framleiðslumagn leitt til þess að notkunin á verksmiðju Arnarlax á Bíldudal hefur verið lítil. Þar að auki var mest af eldislaxinum slátrað og hann seldur í apríl og maí, þegar verð voru mjög lág.“
Í árshlutauppgjörinu kemur fram að nú sé að búið að tæma þau eldissvæði Arnarlax þar sem laxadauðinn átti sér stað. Þar kemur einnig fram að þrátt fyrir þetta tjón félagsins ætli Arnarlax sér að framleiða 12 þúsund tonn af eldislaxi á þessu ári.
Athugasemdir