Þjóðverjarnir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Út úr mistrinu og reyknum sem huldu vígvöllinn heyrðist þungt og drungalegt vélarhljóð, sem skar sig frá stórskotahríðinni í fjarska og færðist nær og nær, og allt í einu birtust undarlegar þústir sem komu frá vígstöðvum Breta.
Þjóðverjarnir höfðu verið öruggir í skotgröfum sínum í fjögur misseri í þessu endalausa stríði.
Í hvert sinn sem bresku dátarnir klöngruðust upp úr skotgröfum sínum handan við einskismannslandið þurftu þeir fyrst að hlaupa yfir sundursprengda gljúpa jörðina, komast gegnum ógurlegar gaddavírsflækjur og þola stöðuga vélbyssuskothríð úr þýskum byssuhreiðrum, áður en þeir svo mikið sem komust að þýsku skotgröfunum þar sem Þjóðverjarnir biðu með byssustingi sína reidda.

En fæstir Bretanna komust svo langt. Þess vegna hreyfðist víglínan nær ekkert mánuðum og árum saman.
Því Þjóðverjar komust fyrir sitt leyti ekkert áleiðis heldur.
En hvað var nú að gerast?
Þústirnar færðust nær og nær, renndu sér hægt en mjög örugglega yfir sprengigíga og forarsvað einskismannslandsins, og krömdu svo undir sér gaddavírinn.
Þegar Þjóðverjarnir höfðu náð sér af mestu undruninni hófu þeir stjórnlausa skothríð með vélbyssum og rifflum og köstuðu handsprengjum að þessum þústum, sem voru nú komnar skuggalega nærri þeirra eigin skotgröfum.
En þústirnar, sem líktust nú æ meira einhverjum forsögulegum skrímslum, högguðust ekkert við skothríðina, en héldu áfram ógnandi ferð sinni. Þessi skrímsli voru greinilega brynvarin eins og herskip, en knúin áfram af glamrandi beltum sem skriðu yfir hvað sem fyrir varð.

Og inni í þeim voru greinilega manneskjur, því nú tóku byssur á hliðum skrímslisins til máls og létu skothríð dynja yfir Þjóðverjana sem kúrðu í skotgröf sinni, allt í einu sviptir öllum vörnum.
***
Hér var lýst upphafi orrustu sem háð var við frönsku smáþorpin Fiers og Courcelette í Norður-Frakklandi 15. september 1916.
Fyrri heimsstyrjöldin hafði geisað í rúm tvö ár og var fyrir löngu orðin að blóðugu þrátefli, þar sem hvorugur aðili - Frakkar og Bretar annars vegar, Þjóðverjar hins vegar - komst áleiðis yfir skotgrafir hins.
Þarna var hins vegar komið fram á sjónarsviðið tæki sem Bretar vonuðu að myndi gera þeim kleift að brjótast úr úr þráteflinu og yfir skotgrafir Þjóðverja.
Meðan á þróun þessa tækis stóð hafði það verið kallað „tankurinn“ í skilaboðum Breta á milli, svo Þjóðverja grunaði ekki hvað væri á ferðinni, ef þeir hleruðu skeytin, og þetta dulnefni festist svo við tækið fullsmíðað.
Því heitir græjan enn þann dag í dag tank á ensku.
Íslendingar völdu því hins vegar dramatískara og meira lýsandi nafn: Skriðreki.
Skriðdrekarnir, sem Bretar tefldu fram í september 1916, náðu ekki að ráða úrslitum í orrustunni við Somme-ána, en bardaginn við frönsku þorpin tvö, var hluti hennar. Þeir voru enn of bilanagjarnir og Bretar ekki fyllilega búnir að læra á þá.
En öllum mátti vera ljóst að þarna var komið fram á sjónarsviðið nýtt og öflugt vopn, sem myndi breyta gangi hernaðarsögunnar.
***
Frá og með síðari heimsstyrjöld hafa skriðdrekar svo verið einkennisvopn tímabilsins. Á öllum vígstöðvum í Evrópu og Norður-Afríku fóru fram hrikalegar skriðdrekaorrustur og sovéski T-34 skriðdrekinn og hinn þýski Tiger urðu tákn hildarleiksins blóðuga á austurvígstöðvunum.

Bretar, sem höfðu verið brautryðjendur í skriðdrekasmíði, höfðu þá heltst úr lestinni um skeið og reiddu sig að mestu á bandaríska Sherman-skriðdreka í styrjöldinni, en rétt í þann mund að stríðinu lauk birtist breski Centurion-drekinn, sem þótti afar fullkominn og var notaður áratugum saman í ýmsum herjum.
Ísraelar beittu honum til dæmis af mikilli hind í styrjöldum sínum við nágrannaþjóðir sínar.
Í stríðum Bandaríkjanna í Kúveit og Írak hefur risadrekinn Abrams hins vegar leikið stærstu rulluna upp á síðkastið.
Flestir hafa sjálfsagt talið að skriðdrekar yrðu alltaf á meðal vor.
Nú er hins vegar svo komið að Bretar, brautryðjendurnir sjálfir, eru alvarlega að íhuga að leggja niður skriðdrekasveitir sínar og hætta að halda þessum drekum úti.
***
Hér er frá því að segja að á eftir Centurion-skriðdrekanum breska 1945 kom Chieftain-skriðdrekinn 1966 og svo enn fullkomnari skriðdreki 1983, Challenger.
Challenger og Challenger II þóttu einkar fullkomnir en eru nú óðum að verða úreltir, og því standa Bretar frammi fyrir því að annaðhvort þurfa þeir að leggja út í mikinn kostnað við að þróa og smíða nýja skriðdreka eða hreinlega leggja niður skriðdrekasveitir sínar.
Að kaupa nýja skriðdreka frá Bandaríkjunum kemur ekki til greina, Bretar hafa þrátt fyrir allt enn sitt stolt!

Sumir telja á að Bretar verði að búa yfir skriðdrekasveitum. Ef sú ógn kalda stríðsins skyldi nú rumska að Sovétmenn/Rússar kunni að senda skriðdrekasveitir sínar inn í Mið-Evrópu, þá verði að vera til afl sem getur staðist nýjustu skriðdrekum þeirra (T-14) snúning.
Aðrir benda á að þótt skriðdrekar hafi reynst ógurleg vopn þegar baráttan snerist um að leggja undir sig landsvæði, þá muni stríð framtíðarinnar ekki snúast um það, nema í litlum mæli.
Miklum mun öruggara væri að leggja það takmarkaða fjármagn sem til er í rafeindavopn ýmis, netnjósnir og stríðstól í lofti, heldur en að kaupa nýja skriðdreka, en splunkunýr dreki gæti sem hægast kostað rúman milljarð íslenskra króna og þá er ótalinn gríðarlegur kostnaður við að þróa og prófa nýja drekann.

Og Bretar verði, segja þessar raddir, að horfast í augu við að rétt eins og orrustuskip voru í raun orðin úrelt eftir fyrri heimsstyrjöldina, þá sé skriðdrekinn í sjálfu sér nú í þann veginn að verða úreltur.
Bretar - eins og margar aðrar þjóðir - neituðu að horfast í augu við að orrustuskipið var orðið úrelt strax um 1920 með tilkomu flugvéla og kafbáta, og eyddu geypilegum fjármunum í að byggja gagnslaus en æ stærri fallbyssuskip í tvo áratugi.
Og nú finnst mönnum að loks ætti að draga rétta lexíu af því.
***
Max Hastings rithöfundur, sem gagnkunnugur er styrjöldum og stríðstólum, mælir svo í blaðinu The Times í morgun:
„Skriðdrekar eru enn í hávegum hafðir í næstum öllum herjum sem hreyfanleg virki, enda bera þeir byssur sem geta heldur betur barið frá sér, eins og kom í ljós í Kúveit 1991 og Írak frá 2003.

En um leið eru þeir ofboðslega dýrir og verða sífellt viðkvæmari fyrir ógnum úr lofti, bæði frá drónum og árásarþyrlum, að ekki sé nú minnst á ódýrar edflaugar eins og hver einasti skæruher heimsins býr yfir.
Breski herinn vildi garnan halda úti að minnsta sæmilegum skriðdrekafjölda,“ heldur Hastings áfram, „en stendur frammi fyrir mjög erfiðri spurningu [um í hvað skal eyða peningunum]. Enginn ætti að líta með eftirsjá til stríðsvopna - hvort sem það eru langbogar, atgeirar, framhlaðningar - eða skriðdrekar.
Það er nánast óhugsandi að breski herinn lendi [í fyrirsjáanlegri framtíð] í stórorrustum við rússneskan, kínverskan eða íranskan her. Svo hvern ættu arftakar Challenger-drekanna okkar að berjast við? Tjaldið er nú að falla á aldarlanga sögu hins breska skriðdreka, en það er engin þörf á að snökta úti í væng.“
Ekki hefur heyrst af því hvort svipaðar hugleiðingar séu komnar upp á yfirborðið hjá Bandaríkjamönnum eða til dæmis Rússum, en væntanlega kemur að því fyrr en síðar.
Athugasemdir