Einu sinni bjó ég í Japan. Þar er alvanalegt að fólk gangi um með grímur. Það tíðkaðist líka fyrir tíu árum síðan, löngu áður en íslenskur strætó setti (ekki) reglur um grímunotkun út af svolitlu og ferðamálaráðherra fór (ekki) á djammið. Í Japan mæta allir með grímu í vinnuna ef þeir finna fyrir svo mikið sem kláða í nefbroddinum. Þöglir unglingar í pressuðum skólabúningum, stelpa og strákur á víxl, sitja í beinum röðum í skólasölum, allir með grímur.
Reyndar getum við tekið Japani til fyrirmyndar á þessum síðustu og verstu með ýmislegt annað. Ég hafði til dæmis ekki búið þar lengi þegar það var orðið mér algjörlega eðlislægt að hneigja mig, frekar en að ráðast á fólk og knúsa það og eða kyssa.
En svo getur hinum plássfreka og knúsgjarna Íslendingi þótt nóg um sumt. Tveggja metra reglur, sóttkví og einangrun, þetta eru allt svolítið fjarstæðukenndar hugmyndir, í það minnsta til lengri tíma. En eins og ýmislegt annað hafa Japanir masterað félagsforðun. Svo mjög að þar hefur verið talað um faraldur einmanaleika og til er sérstakt orð yfir fólk sem hefur dregið sig alfarið í hlé heima hjá sér og mætir hvorki í vinnu né skóla; hikikomori. Í dag er talið að fjöldi hikikomori í Japan sé rúm milljón. Það er þreföld íslenska þjóðin.
Ég viðurkenni það fúslega að eftir tveggja ára búsetu í Japan var ég farin að þrá ófullkomleikann; að ganga fyrir aftan einhvern sem hafði gleymt að greiða á sér hárið, að verða vitni að feimnislegum kveðjukossi á lestarpalli eða krakkahóp sem gleymdi sér í leik. Öllu má sannarlega ofgera. En mér dettur í hug íslensk snörun á japanska orðinu góða: Hikmóri. „Jæja, krakkar, nú er (aftur) komin hikmóratíð, allir að passa sig.“ „Já, nei hann kemst ekki í kvöld, þú veist, hann er hikmóri.“ Og þar fram eftir götunum. Og svo, þegar þetta er allt saman yfirstaðið: „Æ, vertu ekki svona mikill hikmóri, gemmér knús.“
Athugasemdir