Tileinkað Ragnheiði Gyðu Jónsdóttur.
***
Já, svo þið haldið að sagan sé löng? Maðurinn búinn að bardúsa hér lengi? Ísland frá örófi alda - og það er svakalega langt, er það ekki, þetta öróf? Og þegar þið standið undir píramídanum mikla í Giza, finnst ykkur þið þá heyra í klukkunni í Brekkukoti: Ei-líbbð, ei-líbbð?
En þó vitiði eflaust um leið að sá tími sem okkur hefur verið ætlaður á þessari jörð er ekki nema andartak. Maðurinn í allri sinni sögu og öllu sínu örófi er enn bara kornbarn á mælikvarða heimsins, þeim mælikvarða sem okkur er ekki gefið að skilja eða skynja.
Og núna er nýfundið annað mannkyn.
Það gekk hér á grundu miklu lengur en við höfum gert. Það lifði sínu lífi án þess að hafa hugmynd um að til væri framtíð sem yrði öðruvísi en nútíðin þeirra.
Það lifði ísaldir og hlýskeið; stundum voru veiðidýrin gjöful, stundum var ekkert að éta.
En þetta fólk, það lifði og lifði, uns eftir langan tíma, þá lifði það ekki lengur en dó.
Því eftir milljón ára sögu, nei, eftir meira en milljón ára sögu, þá hvarf þetta fólk af jörðinni, gufaði upp, sporlaust með öllu, milljón ár, er nokkur leið fyrir eina skammlífa mannssál að gera sér grein fyrir því hvað rúm milljón ár eru langur tími?
Hvaða fólk er þetta? Það er von að spurt sé því þangað til fyrr á þessu ári þá vissi eiginlega enginn með vissu hvort þetta mannkyn hefði verið til, þrátt fyrir árin milljón og meira sem það lifði hér á Jörðu.
Og það er svo nýtt að það hefur ekki einu sinni fengið nafn.
Einu ummerkin um það er að finna í erfðavísum okkar - og fleiri manntegunda sem lifðu af hvað svo sem varð þessu mannkyni að bana.
Illilega úrelt mynd
Byrjum hér:
Fyrir rúmum fimmtíu árum, um þær mundir sem ég var farinn að lesa fjölfræðibækur barnanna, sem þá tíðkuðust mjög, þá viðgekkst enn að teikna skýringamyndir af þróun mannsins á borð við þá sem hér má sjá að ofan.
Hrein og klár er þróunin frá apa til manns.
Ein tegund æxlast frá annarri og verður sífellt gáfaðri, hæfari og uppréttari.
Þar til loks að homo sapiens sapiens arkar til leiks lengst til hægri í leðurstígvélum og lendaskýlu til marks um að hann bæði kunni ýmislegt fyrir sér og sé kominn með siðferðisvitund.
Vilji ekki láta sjá typpið á sér.
(Svona myndir eru alltaf af karlmönnum.)
En nú er þessi mynd illilega úrelt.
Í sjálfu sér er hún svo sem ekki röng. Mannapar þróuðust vissulega til apamanna og svo til manna - ef þannig má til orða taka með hæfilegri léttúð.

En gallinn við myndina er sá að hún gefur til kynna að alltaf hafi verið bara ein tegund ráðandi, uns sú næsta kom fram.
Þetta vitum við nú að er fjarri sanni. Allt frá byrjun voru á kreiki á sama tíma nokkrar tegundir „frumstæðra“ manna.
Fyrir um tveim milljónum ára voru til dæmis bæði homo habilis og homo erectus á ferðinni. Fyrrum héldu vísindamenn að erectus hefði þróast tiltölulega snyrtilega frá habilis, og leyst hann síðan af hólmi, en sú mynd breyst á síðustu árum.
Í fyrsta lagi er nú ljóst að þessar tvær tegundir lifðu samtímis mjög lengi eða í mörg hundruð þúsund ár og líklega að hluta til á svipuðum slóðum (einkum í syðsta hluta Afríku).
Í öðru lagi hefur komið upp úr dúrnum að margar aðrar manntegundir voru uppi á sama tíma, og þær hafa verið grafnar úr jörð eða flokkaðar upp á nýtt á allra síðustu tímum. Það dugar að nefna homo rudolfensis, homo gautengensis, homo ergaster og homo georgicus.
Sem sagt leggið þetta á minnið:

Þessar tegundir allar - habilis, erectus og fleiri - voru á dögum fyrir tveim milljónum ára.
Svo hurfu flestar þeirra smátt og smátt. Síðast spurðist til homo habilis fyrir 1,4 milljónum ára. Homo erectus var hins vegar enn við góða heilsu lengi enn.
Nema hvað næst staðnæmumst við í sögunni fyrir um 700.000 árum.
Þá var komin fram tegundin homo heidelbergensis og var útbreidd um mestalla Afríku og Evrópu líka. Þessi tegund var sennilega komin af homo erectus, sem þá var enn við lýði, kannski með viðkomu í annarri eða jafnvel báðum af tveim ívið eldri tegundum: Homo rhodesiensis eða homo antecessor.
Það er af homo heidelbergensis að segja að sú tegund virðist dáin út fyrir 300.000 árum, en um það leyti eru komnar fram þrjár nýjar tegundir manna.
Það eru Neanderdalsmenn, Denisovar og svo að lokum sjálfur homo sapiens sapiens.
Sá síðastnefndi, það eru við.
Upphaflega bjuggum við í Afríku, það má fullyrða, en hinar tegundirnar tvær í Evrópu og Asíu, og voru sennilega komnar fram á sjónarsviðið eitthvað töluvert á undan okkur.
Eðlileg ályktun af þessum söguþræði er að „nýju“ tegundirnar þrjár séu allar komnar af homo heidelbergensis. Þá ályktun hafa líka ýmsir vísindamenn dregið. En reyndar er víst alls ekki hægt að slá því föstu, þar sem ennþá vantar nokkur hundruð þúsund ár í steingervingasafnið.

Þó genarannsóknir hafi umbylt þessum fræðum á síðustu árum kemur þó ekkert í staðinn fyrir steingervinga af dauðu fólki.
Meðan heimurinn hefur verið annars hugar vegna kóvíd-19 veikinnar hafa vísindamenn hins vegar verið að melta nýjar og að sumu leyti mjög óvæntar niðurstöður úr genarannsóknum síðustu missera.
Fyrir örfáum árum kom í ljós að homo sapiens hafði - eftir að hann flutti frá Afríku fyrir 80.000 árum eða þar um bil - þá hafði hann blandast bæði Neanderdalsmönnum og Denisovum í einhverjum mæli.
Ástir eða ofbeldi, það vitum við ekki.
Menn reiknuðu alla vega út að mest fjör hefði verið í þessum innbyrðis samskiptum tegundanna fyrir um 50.000 árum.
Denisovar og Neanderdalsmenn höfðu þá líka blandað blóði í talsverðum mæli.
Þetta var sagt fela í sér að Afríkumenn væru einu mennirnir sem hefðu ekkert (eða nánast ekkert) erfðaefni frá öðrum manntegundum, vegna þess að homo sapiens hefði ekki blandast Neanderdalsmönnum og Denisovum fyrr en eftir að hann fór frá Afríku, eins og áður sagði.
Í janúar á þessu ári var hins vegar birt ný og nákvæm rannsókn sem sýndi fram á að víst var töluvert erfðaefni frá Neanderdalsmönnum í blóði Afríkumanna.
Þetta er mjög merkilegt vegna þess að þetta er sterk vísbending um að fyrir „aðeins“ um 20.000 árum hafi stór hópur Evrópumanna og/eða fólks frá Miðausturlöndum flust aftur til Afríku.

Með sín Neanderdalsgen í blóðinu.
Og hinir nýkomnu blönduðust þeim sapiens sem hafði orðið eftir þegar fyrsti hópurinn lagði af stað.
Enginn hefur, sýnist mér, fram að þessu haft minnstu hugmynd um slíka þjóðflutninga sapiens aftur heim til „gamla landsins“.
En þetta er þó bara lítilræði við þær miklu fréttir sem lesa mátti út úr annarri rannsókn sem kynnt var í vefútgáfu tímaritsins Science Advances og víðar í febrúar.
Þrír prófessorar við mannfræðideild háskólans í Utah í Bandaríkjunum - Alan R. Rogers, Nathan S. Harris og Alan A. Achenbach - þeir stóðu fyrir þeirri rannsókn.
Rogers, Harris og Achenbach segja í inngangi rannsóknar sinnar á Neanderdalsmönnum og Denisovum:
„Fyrri rannsóknir hafa sýnt að nútímamenn í Evrasíu [Evrópu og Asíu] blönduðu blóði við þá Neanderdalsmenn og Denisova sem á undan þeim voru [fyrir 50 þúsund árum]. Við sýnum hér fram á að mörg hundruð þúsund árum fyrr hafi forfeður Neanderdalsmanna og Denisvoa blandast sínum eigin forfeðrum - „ofur-fornri“ manntegund, sem hafði skilið sig frá öðrum manntegundum fyrir tveim milljónum ára.“
Þetta var eins og finna fjársjóð.
Sá fjársjóður er tegundin sem prófessorarnir kalla „ofur-forna“ - á ensku „super-archaic“.
Það þýðir að fyrir tveimur milljónum ára var uppi manntegund sem enginn hafði fundið merki um fyrr.
Þótt vissulega grunaði ýmsa að einhver slík tegund hefði einhvern tíma verið til.
En hún var þá yfirleitt talin hafa verið mun seinna á dögum.
Fyrir tveim milljónum ára!
Nú sýndu prófessorarnir fram á að „ofur-forna“ tegundin þeirra hefði verið komin fram fyrir tveimur milljónum ára.
Fyrir tveim milljónum ára; það var sem sé um það leyti sem bæði homo habilis og homo erectus þrifust á Jörðinni.
Enn eitt spjótalagið í þá úreltu mynd að alltaf hafi bara ein tegund tekið við af annarri.
Fyrir tveim milljónum ára hafa manntegundirnar verið að minnsta kosti fimm eða sex, sem við vitum um.
Sú niðurstaða prófessoranna var sem sé í sjálfu sér merkileg.
Alltaf gaman að finna nýtt mannkyn, þótt engar beinaleifar eða steingervingar hafi ennþá fundist, heldur bara leifar af genum þessarar óþekktu tegundar.
En það er ekki allt búið enn.
Hvenær komu Neanderdalsmenn og Denisovar fram á sjónarsviðið?
Það er nú það.

Löngu áður en homo sapiens lagði upp í ferðalagið til Evrasíu, þá höfðu forfeður Neanderdalsmanna og Denisova farið þá leið á undan þeim.
Og löngu áður merkir hér mörg hundruð þúsund ár.
Sennilega allt að 600-700.000 ár.
Og með „forfeðrum Neanderdalsmanna og Denisova“ á ég við þá manntegund sem prófessorarnir þrír kalla „Neandersova“ og merkir sameiginlega formóður þessara tveggja tegunda
Kannski voru „Neandersovar“ einhver undirgrein eða hliðargrein homo heidelbergensis.
Kannski ekki.
En fljótlega eftir komuna til Evrasíu skildu leiðir og Neanderdalsmenn (Evrópumenn, í grófum dráttum) og Denisovar (Mið-Asíumenn) urðu til sem sérstakar tegundir.
Vegna einhverra ytri áfalla, sem ekki er gott að segja hver gætu hafa verið, urðu báðar hinar nýju tegundir fyrir skakkaföllum, og virðast á tímabili hafa verið mjög fámennar.
Lent í „flöskuhálsi“ eins og það er kallað.
(Seinna átti homo sapiens líka eftir að lenda í flöskuhálsi, líklega út af eldgosinu í Tóba-fjalli á Súmötru fyrir 75.000 árum, þegar kólnaði mikið um allan heim. Þá munaði ekki miklu að homo sapiens dæi út og við hefðum aldrei fengið að sjá Jörðina okkar utan úr geimnum eða lesa okkur til um Alexander hinn mikla. En það er önnur saga.)
Eignuðust afkvæmi með hinum „ofurfornu“
Prófessorarnir telja að „Neandersovar“ hafi yfirgefið Afríku fyrir um 700.000 árum og hafa líklega lent í flöskuhálsinum skömmu eftir það.
En á þessum nýju slóðum í Evrópu og Asíu hittu Neanderdalsmenn og Denisovar líka sem sagt fyrir þá „ofur-fornu“ tegund, sem við vissum ekkert af áður, þótt ýmsa vísindamenn hafi grunað tilvist hennar.
Og báðar hinar nýju tegundir, Neanderdalsmenn og Denisovar, eignuðust afkvæmi með hinum „ofur-fornu“.
Sennilega ekki oft en nógu oft til að þess sjást enn merki í genamenginu.
Þau merki eru svo glögg, nú þegar ljóst er hverju á að leita að, að prófessorarnir telja sig meira að segja geta fullyrt að Neanderdalsmenn annars vegar og Denisovar hins vegar hafi blandað blóði við hvorir sína sort af hinum „ofur-fornu“ þótt ein tegund teljist þær hafa verið.
Og enn er ekki öll saga sögð.
Genarannsóknum getur svipað mest til galdra í augum þeirra sem ekki þekkja til og vissulega virðist það göldrum líkast að með því að rannsaka DNA úr Neanderdalsmönnum og Denisovum (og svo okkur sjálfum), þá skuli nú hafa tekist að ekki bara finna þetta nýja mannkyn, heldur líka komast að því hve fjölmennt það var!
Svona í grófum dráttum.
Þeir prófessorar þrír treysta sér nefnilega til að fullyrða að hið „ofur-forna“ áður óþekkta mannkyn hafi um þær mundir, sem „Neandersovarnir“ blönduðust því, talið að minnsta kosti milli 20 og 50 þúsund „virka“ einstaklinga.

Og það er há tala, skilst mér.
Það þýðir að stofninn hefur verið vel á sig kominn, ef svo má segja.
Og í henni felst að hinir „ofur-fornu“ hafa verið búsettir mjög víða um Evrasíu.
Þeir hafa sjálfsagt ekki búið í stórum hópum, en þeir hafa víða farið.
Og þeir virðast hafa haldið velli í meira en milljón ár.
Allt frá því þeir komu fram fyrir tveim milljónum ára og þar til þeir virðast horfið tiltölulega skömmu eftir að „Neandersovar“ mættu til leiks í Evrasíu.
„Living and partly living.“
Hugsið ykkur allan þann tíma. Að minnsta kosti 1,3 milljónir ára.
Þeir bjuggu í sínum hellum, átu kjöt af nýdauðum stórgripum og heimaslátruðum smákvikindum ýmsum, týndu upp í sig rætur og skordýr og orma.
Í 1,3 milljónir ára.
Og hugsuðu sitt.
Til dæmis hvernig átti að bregðast við þeim nýkomnu.
Ráðast á þá, eða vingast við þá?
Kannski hefðu þessir nafnlausu forfeður og -mæður tekið „stóra stökkið fram á við“ ef þau hefðu haldið velli lengur.
En það gerðist ekki: þau hurfu bara.
Svo gjörsamlega að engin leif hefur enn fundist af þessari tegund sem hélt að heimurinn væri hennar í meira en milljón ár.
Hvers vegna?
Ruddu Neanderdalsmenn og Denisovar þeim burt?
Var ekki pláss fyrir í hæsta lagi 50.000 manns af öðru kyni í allri Evrópu og Mið-Asíu?
Athugasemdir