Í janúar síðastliðnum var haldið uppboð á húsi í París. Það hafði staðið autt og óhreyft í 30 ár, það voru komnar sprungur í veggi, víða var hrunið úr loftum, allt náttúrlega hulið ævafornu ryki, og garðurinn var eins og ofvaxinn frumskógur.
Neglt og múrað hafði verið fyrir alla glugga út að götunni, stiginn niður í kjallara var fúinn og hruninn að hluta til. Þangað niður treysti sér enginn, né heldur upp á efri hæðirnar. Gólf gætu hrunið á hverri stundu.
Þetta var allt heldur hrörlegt á að líta, vægast sagt.

Víst var það stórt, þetta hús, heilir 1.000 rykugir fermetrar, og hrörlegt bakhús upp á 600 fermetra, og auk þess var þessi óræktargarður rúmir 900 fermetrar.
En það var ekki sjón að sjá þessi ósköp!
Húsið var í eigu dularfulls hollensks félags sem enginn vissi almennilega hvað fékkst við. Alla vega hafði fyrirtækið ekkert hirt eða sinnt um húsið í þrjá áratugi, það stóð bara þarna við Rue Oudinot númer 12 og grotnaði niður, og hollenska félagið var löngu hætt að borga fasteignagjöld, og vatn og rafmagn höfðu verið tekin af húsinu um aldamótin síðustu.

Loks var húsið sem sagt sett á uppboð til borga skuldir hollenska félagsins, sem var orðið meira og minna eins og undarlegur draugur í fyrirtækjaskránni.
Mundi einhver vilja kaupa þetta húsbrak?
Það þyrfti jú nánast að rífa það allt að innan og endurbyggja, og útveggirnir voru farnir að molna og garðurinn - ja, drottinn minn.
Það myndi kosta óhemju fúlgur að gera þetta hús íbúðarhæft.
Ekki síst af því húsið var gamalt og stóð í grónu hverfi og hver sá sem ætlaði að gera það upp yrði að hlíta ströngum og kostnaðarsömum skilyrðum skipulags- og byggingaryfirvalda í París.
Vildi einhver takast á við þetta?
En vitiði, jú, það var ekki laust við að viljugir kaupendur gæfu sig fram.
Uppboðið tók aðeins stundarfjórðung, enda voru vanir menn mættir til leiks og kunnu að bjóða í hús.
Þeir höfðu líka fullar hendur fjár og voru ráðnir í að fara ekki erindisleysu.
Boðin gengu leiftursnöggt milli manna en fljótt kom í ljós að einn var öðrum ákveðnari.
Hann - eða réttara sagt fulltrúi hans við uppboðið - gaf skýrt til kynna að hann ætlaði sér húsið, hversu illa sem það var á sig komið og hvað sem það myndi kosta.
Einn af öðrum gáfust keppinautarnir upp og eftir þessar 15 mínútur var húsið slegið Jean-Bernard Lafonta.
Dauft bros lék um varir Lafonta þegar hann millifærði upphæðina inn á reikning uppboðshaldarans.
5,6 milljarða íslenskra króna.

Já, þið lásuð rétt. Þetta hálfónýta hús kostaði Lafonta 5,6 milljarða íslenskra króna.
Uppboðshaldarinn hafði reyndar verið bjartsýnn.
Hann hafði gert sér vonir um rúmar 800 milljónir íslenskra króna fyrir brakið.
Ástæðan var sú að þótt húsið væri illa farið, þá er það vissulega frekar stórt, eins og áðan kom fram, svolítil höll eiginlega, og þó réði mestu um bjartsýni uppboðshaldarans að Rue Oudinot 12 er í 7. hverfinu í París, einhverju „fínasta“ og dýrasta hverfi borgarinnar þar sem nær eingöngu búa auðkýfingar.
Í þessu hverfi hafði stór húseign ekki komið á söluskrá í ár eða öllu heldur áratugi. Þeir sem eiga þarna húsnæði halda fast í fínerið.
Þess vegna voru svo margir hákarlar mættir þegar blásið var til uppboðs. Marga þyrsti í að eignast hús í þessu auðkýfingahverfi.
Og verðið var sem sagt engin fyrirstaða. Það rauk á svipstundu langt upp fyrir lágmarksverð uppboðshaldarans, og endaði í þessum 5,6 milljörðum.

Og Lafonta hafði djúpa vasa og hristi upphæðina fram úr erminni.
Þó eru ekki liðin nema fimm ár síðan franskur dómstóll dæmdi Lafonta til að borga meira en 12 milljarða króna í sektir og bætur ýmiss konar fyrir fjármálaglæpi og skattsvik.
Jean-Bernard Lafonta fæddist árið 1961 í millahverfinu Neuilly-sur-Seine, var af ríku fólki kominn og tók ungur að fást við fjármál.
Hann rak svo einhverja peningasjóði, sem ég nenni ekki að setja mig inn í, en auðgaðist altént tröllslega.
Lafonta hefur því bersýnilega kunnað sitt fag, það er nokkuð ljóst.
Þótt sektin fyrrnefnda bendi óneitanlega til þess að hann hafi máske ekki alltaf verið vandur að meðulum.
En nema hvað, húsið var slegið honum og hrósaði nú Lafonta happi og réði sér vinnuflokk, sem þegar í febúar síðastliðnum bjóst til inngöngu í húsið og byrjaði að rífa og brjóta og undirbúa gagngera endurbyggingu þessa gamla húss.

Húsið telst vera „hotel particiulier“ sem þýðir ekki hótel, enda þýðir „hotel“ einfaldlega „heimili“ á frönsku, skilst mér. Og „hotel particiulier“ þýðir eiginlega höll eða herragarður, með því sniði sem menn þekkja yfirleitt til sveita: bygging umhverfis port í miðju og gangur að framan inn í portið.
Endurómur frá miðaldaköstulum.
Þótt á Rue Oudinot 12 sé löngu búið að múra upp í ganginn að framan, rétt eins og alla glugga.
Húsið var byggt á 18. öld og í aðeins rúmlega 500 metra fjarlægð frá Invalides-höll og kirkjunni, þar sem Napóleon liggur grafinn, og það eru 600 metrar í norður að Matignon-höllinni, þar sem er embættisbústaður forsætisráðherra Frakklands.
Gakktu einn og hálfan kílómetra í austur og þú ert komin að hinum undurfögru Lúxembúrgargörðum.
Svona er húsið við Rue Oudinot 12 vel staðsett.

Það fer ekki miklum sögum af fyrri íbúum þess, nema hvað á 19. öld bjó þar skáldið François Edouard Joachim Coppée, sem þá var í nokkrum metum fyrir sögur og ljóð og leikrit í ljóðum. Núorðið er Coppée hins vegar öllum gleymdur, nema helst vegna þess að skáldjöfurinn ótrúlegi Arthur Rimbaud sá ástæðu til að hæðast að því hve hallærislegt skáld hann væri.

Orti Rimbaud af því tilefni nokkur bráðfyndin ljóð sem voru skopstæling á kvæðum Coppées.
Þegar komið var fram á 9. áratug 20. aldar mun húsið góða hafa komist í eigu einhverrar fúaspýtu af feysknu tré gömlu Búrgúndar-ættarinnar sem alla leið aftur á 15. öld tyllti sér í hásæti Frakklands um skeið, og hefur æ síðan þóst vera fínt fólk.
En ekki hélst þessum Búrgúnda lengi á húsinu og rétt upp úr 1990 keypti hið þokukennda hollenska fyrirtæki þetta hús.
En enginn á þess vegum virðist sem sé hafa sest að í húsinu, því æ síðan hefur það verið tómt og grotnað niður smátt og smátt.
Ástæður þess að húsið var látið standa autt eru ókunnar sem stendur.
En nema hvað, í febrúar á þessu ári, þá kom vinnuflokkur Lafonta sem sé askvaðandi á Rue Oudinot 12 og fór að taka til hendinni.
Og meðal annars fetuðu hugdjörf hreystimenni sig niður brakandi fúinn stigann niður í kjallara.
Þar var allt á rúi og stúi, og er þá vægt til orða tekið.
En þetta voru hraustir menn á góðu kaupi frá Lafonta svo þeir fóru að róta til ruslinu.
Og þá gaf á að líta.

Undir viðarflekum og spýtnarusli og múrsteinum lá dauður maður.
Þetta var karlmaður, bersýnilega dauður fyrir löngu, líkið var að einhverju leyti rotnað en þó aðallega skorpnað svo það líktist helst hrukkóttri múmíu.
Það hafði þornað svo upp þarna niðri í þurrum loftlausum kjallaranum.
En á líkinu voru augljós merki um bæði barsmíðar og hnífstungur.
Nú var auðvitað kallað á lögregluna.
Ef þau hefðu mætt á staðinn, Laure Berthaud og Gilou Escoffier úr frönsku lögguþáttunum Engrenages, þá er lítill vafi á að þau hefðu leyst morðmálið fljótt og vel og lagt það síðan fyrir Roban dómara.
Og kannski hefði þetta hrjúfa alþýðufólk úr röðum lögreglunnar ýft svolítið í leiðinni yfirstéttarfasið á Jean-Bernard Lafonta.
En þar eð Laure og Gilou stóðu ekki til boða, þá mættu bara alvörulöggur lifandi til leiks og hafa enn ekki náð að leysa málið.
Þeim tókst að komast að því hver maðurinn var, en það var reyndar ekki mjög erfitt, því líkið var með skilríkin sín á sér.
Jean-Pierre Renaud hét hann.
Og þegar lögreglan fór að spyrjast fyrir hann kom í ljós að ekkert hafði spurst til hans í 30 ár.
En áður en hann hvarf hafði Renaud verið hálfgerður útigangsmaður og átt í miklum vandræðum með brennivín.
Því hafði lítið verið leitað að honum á sínum tíma, þegar börnin hans uppgötvuðu að þau höfðu ekki heyrt frá honum lengi.
Hið erfiða líf útigangsmannsins hafði krafist enn eins fórnarlambs, hugsaði fólk bara.
Nú er búið að láta börnin vita hvað um föður þeirra varð.
En hver myrti Renaud og hvers vegna, það er enn alveg á huldu.
Framkvæmdir í húsinu hafa verið stopp síðan líkið fannst, bæði vegna rannsóknar á morðinu og síðan Covid-19, en Lafonta hefur látið á sér skilja að hann ætli ekki að láta neinn bilbug á sér finna, heldur endurbyggja húsið eins og til stóð.

Ljóst er af því fáa, sem lögreglan hefur látið hafa eftir sér, að hún hallast helst að því að Renaud hafi látið lífið í slagsmálum útigangsmanna.
En hvort hann var drepinn þarna á Rue Oudinot 12 eða hvort lík hans var einfaldlega falið þar í tómu og auðu húsinu, það er ekki á hreinu.
En Laure og Gilou, þau myndu áreiðanlega hnusa víðar.
Af hverju seldi Búrgúndinn húsið með hraði? Hafði hann eitthvað að fela?
Og hvað er eiginlega með þetta hollenska félag? Af hverju flutti enginn inn á þess vegum? Af hverju lét félagið húsið drabbast niður?
Er þetta hollenska félag yfirleitt til lengur?
Og Jean-Bernard Lafonta, af hverju var honum svo mikið í mun að eignast húsið að hann borgaði fyrir það hina ógurlegu upphæð?
Sex sinnum meira en bjartsýnasta mat uppboðshaldarans.
Var planið að bæla niður einhvern óþægilegan sannleika?
En verkamennirnir of fljótir á sér niðrí kjallarann?
Fylgist með í næsta þætti!
Athugasemdir