Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji boðar þætti þar sem Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, og Seðlabankinn virðast vera til umfjöllunar. Fjöldi manns hefur verið fenginn til liðs við Samherja á síðasta ári til að sinna fjölmiðlaumfjöllun og krísustjórnun.
Fyrirtækið hefur áður orðið uppvíst um óheimila kostun á fréttatengdu efni og einhliða umfjöllun um Seðlabankann og RÚV.
Samherji birti stiklu um þættina á YouTube í dag. Kveikur, Stundin, Al Jazeera og Wikileaks fjölluðu í nóvember í fyrra um mútugreiðslur Samherja til að komast yfir hestamakrílskvóta í Namibíu. Síðan þá hefur fyrirtækið leitað fanga víða til að mæta neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun. Norska lögmannsstofan Wikborg Rein var ráðin til að framkvæma rannsókn á starfseminni í Namibíu og skilaði niðurstöðum til Samherja nýverið, sem hafa ekki verið gerðar opinberar.
Eftir að Samherja varð ljóst um yfirvofandi umfjöllun réð fyrirtækið Håkon Borud, fyrrverandi fréttastjóra Aftenposten og meðeiganda ráðgjafafyrirtækisins First House, til að sinna krísustjórnun. Þá réð fyrirtækið lögmanninn og fréttamanninn fyrrverandi, Þorbjörn Þórðarson, til ráðgjafar. Hann stofnaði lögmannsstofuna LPR í fyrra eftir að hann lauk störfum á Stöð 2, en samkvæmt heimasíðu LPS sinnir hún lögmennsku og almannatengslum.
Í stiklunni sem Samherji birti í dag er spilað samtal sem sagt er vera leyniupptaka af Helga Seljan. Óljóst er hvað Helgi er að tala um á upptökunni og við hvern, en samkvæmt samhenginu við myndefnið virðist vera að því stefnt að ítreka fullyrðingar Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, þess efnis að RÚV hafi verið gerandi í húsleit sem Seðlabankinn framkvæmdi hjá fyrirtækinu árið 2012 vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu 2018 að Seðlabankanum hefði ekki verið heimilt að leggja stjórnvaldssekt á Samherja vegna brota á gjaldeyrislögum sem Seðlabankinn sakaði Samherja um. Samherji hefur krafið Seðlabankann um bætur vegna húsleitarinnar og málarekstursins og hefur Þorsteinn Már rætt þær ítrekað í fjölmiðlum.
„Rannsóknarlögreglumaður Samherja“ í viðtali
Í stiklunni er einnig til viðtals Jón Óttar Ólafsson, sem kynntur er sem afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður. Forsvarsmenn Samherja hafa haldið því fram að Jón Óttar, sem ráðinn var til fyrirtækisins árið 2014, hafi verið sendur til Namibíu tveimur árum síðar til að taka starfsemina í gegn
Hann var þvert á móti í innsta hring Namibíuveiðanna og starfaði með Jóhannesi Stefánssyni, sem síðar gerðist uppljóstrari, að verkefnum þar sem kvóti hafði fengist frá namibískum yfirvöldum með mútugreiðslum. Jón Óttar sat fundi með namibískum mútuþegum Samherja og fékk afrit af tölvupóstum þar sem rætt var um greiðslur í skattaskjól.
„Hvaðan koma þessar ásakanir?“ spyr Jón Óttar í myndbandinu. „Hvernig getur þetta átt sér stað?“
Í lokin eru áhorfendur beðnir um að fylgjast með á morgun, þegar fyrsti þáttur kemur út. Lokað er fyrir athugasemdir við myndbandið.
Sat fundi með mútuþegunum
Samherjaskjölin sýna glöggt að Jón Óttar var hátt settur starfsmaður við Namibíuútgerð Samherja. Í maí árið 2016 snæddi hann til dæmis með Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, um borð í togara Samherja, Heinaste. Esau sætir nú ákæru í Namibíu vegna aðildar sinnar að málinu.
Jón Óttar sat meðal annars fund um starfsemina með Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, Baldvini syni hans, Aðalsteini Helgasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kötlu Seafood, Örnu Bryndísi Baldvins McClure, yfirlögfræðingi Samherja, og Jóhannesi Stefánssyni, sem stýrði Namibíustarfseminni en ljóstraði síðar upp um mútugreiðslurnar.
Fundurinn var haldinn 11. apríl 2016 og hann sóttu einnig namibísku þremenningarnir James og Tamson Hatukulipi og Sacky Shangala, sem allir hafa þegið mútur frá fyrirtækinu til að greiða aðgang að fiskveiðikvóta. Samkvæmt fundargerð var rætt um starfsemina í Namibíu, yfirvofandi leiðtogakjör í SWAPO flokknum í Namibíu sem þeir eru allir meðlimir í og væntanlegar þingkosningar í lok árs 2019. Einnig var talað um verkefni í Angóla og Suður-Afríku.
Þremenningarnir komu til Íslands á árshátíð Samherja sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri tveimur dögum áður, þann 9. apríl, og greiddi Samherji fyrir þá flug og hótel í tengslum við komuna á árshátíðina.
Í skjali til undirbúnings fyrir fundinn með þremenningunum er fjallað um sýn þeirra á framtíð mála í Namibíu, en ekki skráð hvaða Íslendingar fengu það í sínar hendur.
„Þeir hafa lagt mikið í að koma okkur þangað sem við erum (breytt lögum og farið með það í gegnum þingið),“ segir í skjalinu. „Þetta er að sjálfsögðu pólitískt. Það er margt búið að gerast á bakvið tjöldin. Við erum í dag með 3ja stærsta kvótann ekki af ástæðulausu [sic].“
„Ef þeir fara óánægðir frá Íslandi þá er samstarfinu lokið“
Þá er lýst pólitísku mikilvægi mannanna, en James var stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor og Sacky var á þessum tíma ríkissaksóknari, en síðar dómsmálaráðherra Namibíu. „Þeir vilja vinna með okkur en tíminn er á þrotum,“ segir ennfremur. „Ef þeir fara óánægðir frá Íslandi þá er samstarfinu lokið og þá er betra að segja það strax.“
Eftir að Jóhannes hætti hjá fyrirtækinu í júlí 2016 héldu mútugreiðslurnar áfram. Síðustu millifærslurnar sem heimildir eru fyrir eru frá 9. og 31. janúar 2019, en þá var Jóhannes búinn að setja sig í samband við Wikileaks út af Namibíumálinu með það fyrir augum að upplýsa um millifærslurnar.
Hafa áður greitt fyrir óheimilaða kostun umfjöllunar um málið
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Samherji fjallar um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans með þáttagerð. Árið 2017 birti sjónvarpsstöðin Hringbraut þættina Gjaldeyriseftirlitið þar sem hið svokallaða Aserta-mál var til umfjöllunar. Tengdist það rannsókn Seðlabankans á meintum brotum á gjaldeyrisreglum, en fjallað var sérstaklega um húsleit Seðlabankans hjá Samherja og birti hljóðbrot af samtali Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og Más Guðmundssonar, þáverandi seðlabankastjóra, sem virtist tekið upp án vitundar þess síðarnefnda
„Samherji kostaði þann þátt að langmestu leyti,“ sagði Sigurður Kolbeinsson, framleiðandi þáttarins, í viðtali við Stundina um málið.
Fjölmiðlanefnd tók þetta mál og aðra dagskrárgerð Hringbrautar til umfjöllunar og sektaði sjónvarpsstöðina um alls tvær milljónir króna í fjórum aðskildum ákvörðunum.
„Umfjöllun í þáttunum Gjaldeyriseftirlitið einkennist að stærstum hluta af einhliða gagnrýni á rannsókn og framkvæmd gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, án þess að sjónarmið fulltrúa bankans komi fram, nema í hljóðbrotum af samtali seðlabankastjóra og forstjóra Samherja hf., sem virðast tekin upp án vitundar seðlabankastjóra,“ sagði í ákvörðun fjölmiðlanefndar. „Er framangreint til þess fallið að renna stoðum undir það að kostandi þáttanna, Samherji hf. hafi haft áhrif á innihald og efnistök hins kostaða fréttatengda efnis og að um hafi verið að ræða einhliða umfjöllun sem ekki hafi verið í samræmi við hlutlægnikröfur 26. gr. laga um fjölmiðla,“ sagði í niðurstöðu nefndarinnar.
Niðurstaða nefndarinnar var að Hringbraut hefði brotið gegn 26. gr. laga um fjölmiðla, um lýðræðislegar grundvallarreglur, með því að gæta ekki að rétti viðmælanda til friðhelgi einkalífs og að hlutlægni og nákvæmni í hinu fréttatengda efni. Var Hringbraut einnig gert að greiða stjórnvaldssekt að upphæð 500.000 kr.
Athugasemdir