Hamingjan býr í þakklætinu
Arnhildur Árnadóttir
Mér finnst hamingjan felast í því þegar maður getur verið þakklátur fyrir það sem maður upplifir og hefur, það er jafnvægið sem skapast þegar maður hefur allt sem maður þarf og áttar sig á því að það er nóg. Ekki endilega af veraldlegum toga heldur geta það verið tilfinningar eða ástand í fullri meðvitund. Þar af leiðandi er hamingjan ekki fengin frá öðrum heldur myndast út frá því hvernig maður höndlar þær aðstæður sem maður er í. Hamingjan skapast í hverri og einni manneskju og byggist á forsendum hennar.
Að leyfa mér að finna allar tilfinningar
Brynja Dan Gunnarsdóttir
Hamingjan fyrir mér er númer eitt, tvö og tíu að fá að vera mamma hans Mánalings. Að fá að eyða lífinu með öllu fólkinu mínu. Að leyfa mér að finna allar tilfinningarnar hvort sem þær eru erfiðar eða ekki, það er allt partur af ferðalaginu sem lífið býður upp á og gerir það svo spennandi, krefjandi en yndislegt um leið. Ég finn líka hamingjuna í því að berjast fyrir því sem ég trúi á, nota röddina mína til þess að standa upp og reyna að breyta til hins betra með því að rugga nokkrum bátum hér og þar af og til.
Minningar sem þú skapar með börnunum
Hanna Gréta Pálsdóttir
Það sem kom fyrst í hugann þegar ég hugsaði um hamingju voru allar þær góðu og skemmtilegu minningar sem ég hef skapað með strákunum mínum og öll litlu augnablikin sem fær mann til að brosa. Að sjá börnin mín vaxa og dafna, vera stolt móðir og fá tár í augun þegar það er skorað mark í fótboltaleik og stigið á svið í skólanum hvort sem það er að taka þátt í leiksýningu eða taka við prófskírteini við útskrift. Að standa á hæstu tindum landsins og upplifa víðáttuna og hafa heilsu til að komast þangað í góðra vina hóp.
Þetta er hamingja mín.
Trylltur dans sem stiginn er í núinu
Helena Margrét Friðriksdóttir
Fyrir mér liggur hamingjan í kyrrðinni, hugarrónni og eirðinni sem læðist að manni í göngutúrnum, í matarboðinu eða í stofunni heima. Þegar maður nýtir orku í eitthvað stærra en mann sjálfan, þar liggur greið leið að hamingju. Hamingjan er ásetningur. Hamingjan er líka að leyfa sér að líða illa því hamingjan er eitthvert jafnvægi; trylltur dans sem stiginn er í núinu, ekki fortíðinni eða framtíðinni.
Hamingjan felst í því að elska
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir
Hamingjan felst í því að elska, njóta lífsins og vera góður við fólk. Hún felst líka í að vera mannvinur.
Athugasemdir