Uppsögn ræðismanns í pólska sendiráðinu á þriðjudag hefur vakið ólgu í samfélagi Pólverja á Íslandi. Framámenn í samfélaginu gerðu tilraun til að afhenda Gerard Pokruszyński sendiherra bréf vegna málsins, en segja sendiherrann hafa vísað þeim úr sendiráðinu með látum.
Í bréfinu kemur fram að ræðismanni í sendiráðinu, Jakub Pilch, hafi verið sagt upp án fyrirvara á þriðjudag. Uppsögnin hafi komið á óvart og starfsmaðurinn hafi verið settur í erfiðar aðstæður. Ennfremur sé þetta ekki fyrsta dæmið um starfsmann sem hafi átt erfitt í starfi hjá sendiráðinu. Undir bréfið skrifa forsvarsmenn sex félaga sem standa að pólska samfélaginu á Íslandi.
„Þetta er stórmál í okkar litla pólska samfélagi hérna,“ segir Tomasz Chrapek, einn af aðstandendum félagasamtakanna Projekt Polska, um uppsögn Jakub Pilch. „Honum var ekki sagt af hverju hann ætti að mæta aftur til Varsjár með nokkra daga fyrirvara. Þetta hefur aldrei gerst á Íslandi. Hann var hérna í þrjú ár með börnin og þarf að pakka, yfirgefa íbúðina og fara heim.“
Tomasz segir að sendiherrann hafi með tölvupósti veitt óskýr svör um uppsögnina. „Þetta hljómaði eins og 100 prósent pólitísk ákvörðun,“ segir hann. „Jakub er góður maður og góður starfsmaður. Hann var alltaf að hjálpa fólki og það sem hann gerði í sendiráðinu var vel liðið í pólska samfélaginu. Þetta kom á óvart og við urðum hissa.“
Á miðvikudag fóru aðstandendur bréfsins í pólska sendiráðið í Þórunnartúni í Reykjavík til að afhenda sendiherranum bréfið sem stílað er á Jacek Czaputowicz utanríkisráðherra og ráðuneytisstjóra hans. „Hann neitaði og bara vísaði okkur á dyr,“ segir Tomasz um sendiherrann. „Hann var mjög aggressífur og öskraði. Ég hef aldrei í lífinu upplifað svona. Þetta er diplómati sem er ekkert diplómatískur.“
Tomasz segir bréfið nú hafa verið sent beint á viðtakendur þess innan utanríkisráðuneytis Póllands þar sem sendiherrann hafi ekki viljað taka við því. Aðstandendur viti einnig til þess að önnur kvörtun hafi verið send ráðuneytinu vegna ótengds máls sem snúi að sitjandi sendiherra. „Ég vona að Gerard verði sagt upp því hann er ekki góður sendiherra,“ segir Tomasz. „Það var ljóst frá byrjun.“
„Þetta er diplómati sem er ekkert diplómatískur“
Hann segir erfitt að segja hvort málið tengist niðurstöðum forsetakosninganna síðustu helgi. Sitjandi forseti, Andrzej Duda, bar nauman sigur úr býtum gegn mótframbjóðanda sínum Rafal Trzaskowski. 80 prósent þeirra Pólverja sem kusu á Íslandi studdu Trzaskowski samkvæmt opinberum tölum.
„Það væru bara getgátur núna,“ segir Tomasz um tenginguna við kosningarnar. Hann segir þó málið augljóslega pólitískt og segist hafa á tilfinningunni að pólska samfélagið á Íslandi styðji mótmælin vegna uppsagnar Jakub Pilch.
„Þetta er það sem er að gerast núna í Póllandi“
Duda forseti hefur verið gagnrýndur fyrir öfgafullar skoðanir og fyrir að þrengja að réttindum LGBT+ fólks í landinu. Tomasz segir að nú þegar hafi komið fram dæmi þar sem fólki virðist refsað fyrir stuðning við Trzaskowski innan utanríkisþjónustunnar. Pólskur þingmaður hafi þannig kallað eftir uppstokkun á sendiráði Póllands í Pakistan þegar í ljós kom að kjósendur þar hafi upp til hópa stutt Trzaskowski. „Þetta er það sem er að gerast núna í Póllandi, þetta er pólitískur raunveruleiki,“ segir Tomasz.
Ekki náðist í Gerard Pokruszyński sendiherra vegna málsins.
Athugasemdir