Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ekki útiloka verkföll eða aðrar aðgerðir ef stjórnvöld standa ekki við loforð sín um að gera launaþjófnað refsiverðan. Hún birti í dag opið bréf þess efnis sem hún sendi á fimm ráðuneyti. Þar vísar hún í yfirlýsingu stjórnvalda frá 3. apríl 2019 um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings Lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, en þar er lofað að auka heimildir til refsinga fyrir ákveðin kjarasamningsbrot.
Í bréfinu skorar hún á meðlimi ríkisstjórnarinnar að standa við gefin loforð. „Berist ekki skriflegar skýringar á því hvernig þið hyggist gera það innan skamms áskil ég mér fullan rétt til að gera það sem í mínu valdi stendur sem formaður Eflingar til að knýja á um að þið standið við orð ykkar. Ég og félagar mínir í stétt verka- og láglaunafólks munum ekki sætta okkur við meira af þessu ótrúlega rugli sem viðgengist hefur.“
Stundin hafði samband og spurði Sólveigu hvað hún meinti með þessum orðum. Hún sagði að ef stjórnvöld stæðu ekki við gefin loforð mundi Lífskjarasamningurinn svokallaði falla, og að þá fái verkalýðsfélög landsins ýmis verkfæri í hendurnar.
„Allir vita að það kemur núna að endurskoðun Lífskjarasamningsins í haust,“ segir Sólveig. „Þetta hefur verið vitað frá undirritun samningsins, þannig að það ætti ekki að koma neinum á óvart að við í Eflingu erum orðin mjög óþreyjufull að sjá enda á þessu atriði vegna þess að þetta er eitt af þeim málum sem við settum á oddinn í viðræðunum. Við munum aldrei sætta okkur við annað en að þetta loforð verði uppfyllt.“
Aðspurð hvort til stæði að efla til verkfalla ef ríkisstjórnin dregur lappirnar ef samningurinn fellur svaraði Sólveig að allt komi til greina. „Á þessum tímapunkti útiloka ég ekki neitt.“
Launakröfur upp á 345 milljónir í fyrra
Í bréfinu segir hún að þúsundir félagsmanna hafi leitað til Eflingar á síðustu árum vegna „ógreiddra launa, launaþjófnaðar, stulds á desember- og orlofsuppbót og annarar glæpahegðunar atvinnurekenda.“
Hún segir að félag sitt hafi gert 700 launakröfur fyrir félagsfólk sitt upp á 345 milljónir króna. Meðalupphæð kröfu er 492.000 krónur, sem hún segir að sé mun meira en láglaunamanneskja fær fyrir fulla vinnu. „Lögmenn Eflingar tóku svo að sér 370 mál til frekari innheimtu fyrir hönd meðlima í Eflingu. Þetta eru staðreyndir úr tilveru verka- og láglaunafólks á íslenskum vinnumarkaði.“
Bréfið er stílað eins og hefðbundið kröfubréf frá Eflingu, en það var sent á forsætisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið, en þau áttu öll aðkomu að Lífskjarasamningnum svokallaða.
Launaþjófnaður ekki refsiverður
Í Facebook færslu sem fylgdi bréfinu spyr Sólveig Anna: „Vissuð þið að það er ekki refsivert á Íslandi að stela launum af vinnuaflinu?“
Samkvæmt núverandi reglugerð er ekki ólöglegt fyrir vinnuveitanda að borga vinnufólki sínu ekki full laun. Eina afleiðing slíkrar hegðunar er að þurfa að borga vangoldin laun.
Þegar verkalýðsfélög hafa sótt mál fyrir hönd félagsmanna sinna hefur lögreglan ekki gripið inn í, heldur borið fyrir sig skort á lagaheimildum til að ákæra vinnuveitenda sem borga ekki laun. Krafa hefur verið uppi hjá verkalýðsfélögum landsins að bæta úr þessu og skapa refsiramma fyrir óheiðarlega vinnuveitendur.
Krafan kom meðal annars upp í samstarfshópi félags- og barnamálaráðherra sem var skipaður 14. september 2018. Þar náðist ekki einhugur um að gera kjarasamningsbrot refsiverð, en krafan var endurómuð þegar kom að Lífskjarasamningnum og stjórnvöld skuldbundu sig við að þróa hana áfram í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Þann 3. apríl birtist frétt á síðu stjórnarráðs Íslands þar sem tilkynntar voru 38 væntanlegar aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að Lífskjarasamningnum. Í kaflanum sem er merktur Félagsleg undirboð má finna ýmis áform um úrræði til að taka á því óréttlæti sem Sólveig lýsir og stéttarfélög hafa barist gegn á þessari öld. 22. liður segir: „Heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns.“
Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hafa stjórnvöld ekki enn kynnt frekari áform þótt ár hafi liðið.
Í samtali við Stundina árið 2017 sagði yfirmaður mansalsrannsókna í Danmörku að á Íslandi væri reyndar til lagaheimild sem lögreglan ætti að getað notað. Vísaði hann þá í 253. grein almennra hegningarlaga Íslands, sem bannar einstaklingum að nýta sér „bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu“ til að féfletta hann. Hann sagði að Danmörk hefði notað slík lög ítrekað í baráttu landsins gegn mansali.
Lesa má bréf Eflingar og færslu Sólveigar hér að neðan.
Athugasemdir