Ég hef alltaf verið hjá sama útgefanda, í heil þrjátíu ár, aldrei fært mig um set. Hann hefur hinsvegar reglubundið breytt um nafn og eignarhald. Mál og menning (MM) varð Edda í kringum aldamótin, sem rétt fyrir hrun varð síðan Forlagið hans JPV og MM, sem við brotthvarf JPV varð Forlagið MM og Egils Arnar, og nú er Forlagið semsagt komið í eigu Storytel og MM. Maður hefur verið kyrr á sama stað en samt verið að ferðast. Þetta hefur verið eins og að sitja á vörubretti sem með reglulegu millibili var rúllað inn á nýjan lager. Umskiptin hafa orðið nánast á tíu ára fresti, frá því ég gaf út mína fyrstu skáldsögu árið 1990. Það er kannski þess vegna sem maður kippir sér ekkert of mikið upp við breytingu á eignarhaldi Forlagsins árið 2020. Það sem stingur þó að þessu sinni er þjóðerni peninganna og risastærð eigandans. Var verið að selja menningararfinn úr landi? Var þetta Kópavogsfundur íslenskra bókmennta?
Okkur er sagt að þetta muni ekki breyta neinu. Starfsfólkið heldur áfram, útgáfan mallar sinn veg, samningar standa óbreyttir. Meira að segja hljóðbókaútgáfa Forlagsins mun halda áfram, ekki í óbreyttri mynd, heldur öflugri en áður. Og bækurnar okkar fara ekki sjálfkrafa inn á storytel.is, sem rekið verður áfram sem sjálfstæð eining, heldur mun Forlagið semja sérstaklega um sölu þeirra þar inn, enda hljóðbókin þá hljóðrituð hjá Forlaginu. Slíkir samningar eru aðeins betri en þeir Spotify-legu samningar sem sænski risinn notar alla jafnan þegar hann tekur til sín bækur og hljóðritar og hefur þannig rakað til sín ómældum gróða á stuttum tíma.
Þarna er semsagt munur á, annars vegar vondir samningar beint við Storytel eða skárri samningar í gegnum Forlagið. Svo vitum við auðvitað ekki hve lengi þetta heldur, en þetta er okkur sagt í dag. Sama fyrirkomulag hefur reyndar haldið í Svíþjóð frá því Storytel keypti elsta og næst stærsta forlagið þar í landi, Norstedts, árið 2016. Breytingin verður því nánast engin fyrir höfunda Forlagsins. Bækur okkar halda áfram að koma út á íslensku samkvæmt íslenskum samningum og hljóðbækur geta fylgt útgáfu eða komið út síðar, og kiljuútgáfan þar á eftir. Eftir 12 mánuði má síðan huga að sölu til Storytel. Einnig er hér mögulegt að selja gamla titla í hljóðbókarformi til Storytel. Kosturinn við veituna er ekki síst sá að gamlar bækur geta gefið smá aur, en liggja ekki aldauðar á bókamörkuðunum vítt um land með 300 kr. merkimiða. Einnig verður að gefa veitunni kredit fyrir að hafa aflað bókum nýrra lesenda, með því að ná til aktífa fólksins sem er of þreytt til að lesa á kvöldin en gengur nú til verka sinna, akstra og gönguferða, með bók í heyrnartólunum. Þá gæti samstarf við erlendu forlögin í eigu Storytel skilað sér í auknum þýðingum á íslenskum bókum, en réttindastofa Forlagsins, sú sem sér um sölu á bókum höfunda þess yfir á önnur tungumál, er ein öflugasta stoð fyrirtækisins og jafnframt sú eina á landinu.
Gallinn við Storytel er hinsvegar sá að eins og fleiri „game-changerar“ (graðir ungpungar í gamalgrónu viðskiptaumhverfi) er fyrirtækið nánast einrátt á hljóðbókamarkaðnum. Í norrænu löndunum er þetta orðið Spotify bókmenntanna, á meðan Audible ræður ríkjum annarstaðar, og bætast þessi fyrirtæki þar með í hóp vinsælla einokunarfyrirtækja eins og Facebook, Google og Amazon (sem reyndar á Audible). Þetta er vandinn við tæknibreytingarnar: Sá sem breytir eignast breytinguna og leyfir enga samkeppni. Og við kunnum engin ráð gegn slíku ofurvaldi. Eða hvernig átti Ísland að geta staðið gegn Facebook-Google-Amazon-Spotify-væðingu heimsins? Þessi innrás sænska risans minnir einnig að vissu leyti á komu IKEA til landsins. Íslenskir neytendur fögnuðu og eru enn að fagna, en þáverandi húsgagnaframleiðendur og innflytjendur gátu lítið annað gert en játa sig sigraða. Verður reyndin söm í bókmenntunum? Verður Storytel eina forlagið OG bókabúðin á Íslandi eftir tíu ár? Okkur höfundum hættir til að hugsa aðeins um eigin hag, en spurningin er hvernig tíðindin muni snerta aðra útgefendur, því stærð Forlagsins er víst ærin fyrir.
Eins og fram hefur komið ýtti Gauti Kristmannsson, rithöfundur og þýðandi, þeirri hugmynd úr vör fyrir nokkrum árum að ríkið ætti að stofna sína eigin streymisveitu þar sem íslensk menning gæti flotið fram í eyru og augu landsmanna samkvæmt nýjustu tækni, þar sem allar okkar perlur væru fram bornar: Íslendingasögur, hljóðrituð leikrit, rímurnar, kvæðin, Laxness og Steinn, Guðrún frá Lundi og gamlir annálar, kvæðamenn og karlakórar, sem og nýjustu skáldsögur og ljóð. Þetta ræddum við í stjórn Rithöfundasambandsins á sínum tíma, sem hugsanlegt samvinnuverkefni Landsbóka- og Borgarbókasafns. Önnur hugmynd var svo reyndar að veitan yrði einskonar framhald af RÚV-vefnum. Hvort sem væri yrði þannig til okkar eigið íslenska Amazon, okkar eigið Storytel, ríkisrekið, sanngjarnt og opið öllum, einskonar vegakerfi starfrænnar miðlunar, sannkölluð menningarmóðir. Þetta var auðvitað alltof góð hugmynd til að verða hrint í framkvæmd strax, yfirleitt þarf hið seinfæra samfélag 30 ára umþóttunartíma fyrir slíka snilld.
Íslenski bókamarkaðurinn hefur verið íhaldssamur. Hann hefur ekki viljað hraða sér inn í nútímann vegna þess að fortíðin var gjöfulli að fé. Það er fyrst og fremst hinn séríslenski jólabókamarkaður sem sér höfundum og forlögum fyrir tekjum. Þá koma ritin út í hátíðarútgáfum, rándýr og harðspjalda, en samt sem áður hefur almenningur verið viljugur að kaupa, og virt jólagjafahefðina af slíku afli að undrun og aðdáun vekur. Þarna er hin sanna „tekjulind“ rithöfunda, þarna ná þeir sér í eina milljón eða tvær fyrir þriggja ára puð við skrifborðið heima. Launasjóðurinn sér svo um rest. Líkleg skýring á seinagangi landans inn í stafrænan nútíma er tilhneigingin til að halda í jólahefðina.
Önnur skýring er síðan hið umdeilda Hljóðbókasafn sem hefur um árabil hljóðritað bækur og gefið út til sjónskertra og prentleturshamlaðra Íslendinga. Þetta var upphaflega falleg hugmynd, að færa blindu fólki bækur, en með tímanum hefur fjölgað ískyggilega í þessum hópi; það hefur verið erfitt að stöðva fólk í að njóta hljóðbókanna sem Blindi frændi fær frá Hljóðbókasafninu. Þannig hefur ein hljóðbók gengið marga hringi á milli fólks í fjölskyldum, bæjarfélögum og Íslendingasamfélögum erlendis.
Maður hélt að safninu hefði tekist að koma í veg fyrir þessa misnotkun með nýrri tækni en svo virðist því miður ekki vera. Ég gaf út skáldsögu 2018. Tveimur vikum síðar hitti ég alsjáandi fólk sem vildi tjá hrifningu sína og þakka fyrir söguna, „sem ég var að ljúka við að hlusta á“ og svo fylgdi smá sakbit í auga. Þetta var svekkjandi gremj, því sjálfur var ég ekki búinn að lesa hljóðbókina inn og höfundar fá aðeins formlega smágreiðslu fyrir þessar hljóðbækur Hljóðbókasafnsins. Forlögin fá hinsvegar ekki krónu og hafa því skiljanlega verið treg að keppa á þessum hljóðbókamarkaði, með ærnum tilkostnaði, þegar ríkið grípur allar bækur þeirra, hljóðritar og dúndrar út, án þess að greiða nokkuð fyrir.
Vandinn var því þessi: Engin stafræn ríkisveita var til önnur en Hljóðbókasafnið sem upphaflega var ætluð blindum en hafði nú náð til siðblindra. Fólk var orðið vant því að á Íslandi væru hljóðbækur ókeypis og hægt að nálgast þær eftir auðveldum reddingarleiðum. Inn í þetta umhverfi kom fyrirtækið Skynjun, sem hjóðritaði slatta af góðum bókum og kom þeim á markað með heiðarlegum hætti, en var síðan keypt af Storytel. Bóka-IKEA var þar með komið inn á þennan skringilega örmarkað og var auðvitað ekki lengi að komast í ásættanlegan gróða.
Þannig hefur ýmislegt stuðlað að risi Storytel hérlendis. Og nú standa margir rithöfundar í sömu sporum og tónlistarmenn stóðu í þegar Spotify kom fyrst fram á sjónarsviðið. Bálreiðir en ráðalausir. Síðan þá hefur Spotify bara stækkað og nú virðist manni staðan sú að flesta tónlistarmenn dreymi um að komast með efnið sitt inn á Spotify. Auðvitað vilja allir vera á aðaltorginu, þar sem tónlistin heyrist og hlustendurnir eru. Kannski hafa líka samningarnir batnað þar á bæ, ég þekki það ekki of vel. Kunnugir segja mér þó að hjá Spotify fái 5% tónlistarfólks 95% teknanna, en 5% teknanna skiptist síðan á milli 95% tónlistarfólks. Þetta sé gert til að „hafa stjörnurnar góðar“.
Víst er þó að tæknileg framþróun verður ekki stöðvuð, og það er tímaeyðsla að reyna að standa gegn henni. Hljóðbókaveitur eru komnar til að vera, þeirra er framtíðin. Við getum aðeins vonast til að ná betri samningum við Storytel, og auka gagnsæið í þeim samningum. Það skilur þá nánast enginn, kannski ekki þau sjálf heldur. Ég hef sjálfur verið með tvær skáldsögur hjá Storytel, sem ég hljóðritaði fyrir Skynjun áður en Storytel kom til landsins, og lúta því „verri“ samningum en Forlagið stendur fyrir í dag. Í uppgjöri ársins 2019 skilaði önnur þeirra 106 krónum fyrir hverja hlustun en hin 76 krónum. Þetta eru ekki háar tölur, í kringum það sem höfundar fá fyrir útlán á bókasöfnum (um 94 kr. á bók), en hvers vegna upphæðin er mismunandi eftir bókum fæ ég ekki skilið.
Tilkynningin um sölu Forlagsins til sænska risans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og nú viku síðar erum við flest enn hálfvönkuð, enn að átta okkur á þýðingu þessa. Allskonar tilfinningar bærast í brjósti. Einn daginn líst manni ekkert á þetta en svo hittir maður kollega á götu sem fagnar því að erlent stórfyrirtæki vilji fjárfesta í okkar litla bókamarkaði, og sér þá minna athugavert við söluna. Við eftirgrennslan kemst maður svo að því að þó maður skilji ekki sína eigin samninga við Storytel veit maður líklega meira um það fyrirtæki en innlenda meðeigandann, Mál og menningu, þrátt fyrir að hafa verið höfundur þar á bæ í þrjátíu ár.
Sú óvænta uppgötvun skilaði sér í smá upplýsingaöflun. Mál og menning er auðvitað stórmerkilegt kaupfélag sem stofnað var af sósíalískri hugsjón en endaði í eins manns vasa eins og flest slík fyrirtæki (sósíalisminn endar jú yfirleitt í einræði), vasa sem fóðraður var með erlendu fé um tíma. Þegar upphafsmaðurinn dó tók prinsinn við en í kjölfarið urðu átök og á endanum var honum bolað út. Þannig bögglaðist MM áfram uns Halldór Guðmundsson og Árni Einarsson tóku við skútunni um miðjan níunda áratuginn og hafa stjórnað síðan. Þeir sigldu sósíalísku fleyi um stórsjói kapítalismans og tókst bærilega upp: Eftir nokkrar seglafellingar stendur Mál og menning enn uppi með digran sjóð. Hvað þeir tvímenningar gera við hann er svo spurning sem biður um svör. Ein mýtan um MM er sú að fyrirtækið eigi enn Laugaveg 18, sem er ekki rétt, en kannski væri ráð að sjóðurinn yrði nýttur til að kaupa það hús til sín aftur og gera úr því Literaturhus Reykjavik…? Hvað sem úr verður vonum við að þessi hálfi milljarður plús sem íslenski bókabransinn gat af sér við kaup Storytel verði með einhverjum hætti nýttur innan greinar.
Frá því tilkynnt var um kaup Storytel á Forlaginu er fátt um annað talað í bransanum og jafnvel utan hans. Stjórn Rithöfundasambandsins sendi frá sér ályktun þar sem hún segist ekki treysta Storytel og margir höfundar gnísta tönnum. Þeir sem gerst þekkja til segja að í orðabók sænska risans finnist ekki orðið „litteratur“, ekki frekar en orðið „smíði“ finnst í orðasafni IKEA. Aðrir tala um „landráð“. Víst er að veðrabrigði hafa orðið og það mun taka tíma fyrir okkur ritfuglana að læra á nýja vinda. Þá eru kunningjar úr viðskiptalífinu gagnrýnir á framkvæmdastjóra sem selur bréfin í eigin fyrirtæki og einnig á Mál og menningu sem ætlar að sitja inni með 30% eign í fyrirtækinu, sem er stór en áhrifalaus hlutur, segja menn, því „enginn vill kaupa 30% hlut í fyrirtæki“. Allt er þetta hálfgerð latína fyrir mér, og fyrirspurnir hafa skilað góðum svörum. Egill Örn er ekki á förum og MM vildi halda 30% hlut til að hafa einhver áhrif og fá tvo stjórnarmenn. Að sögn fylgir hlutnum einnig forkaupsréttur ef Storytel gefst upp, og ekki má breyta eignahlutfallinu næstu þrjú árin. Þá getur MM alltaf farið með vörumerkið sitt út úr fyrirtækinu.
Við höfundarnir erum sem fyrr á vörubrettinu og nú hefur því verið rúllað inn á enn einn lagerinn, án þess að við fáum nokkuð við því gert, enda höfuðhlutverk okkar að halda áfram að skrifa. Forlagið okkar er komið í erlenda eigu, en það breytir kannski ekki svo miklu, annað hvert forlag heimsins er í eigu fjölþjóðlegra ofurfyrirtækja, hvort sem það heitir Gallimard, Penguin eða Random House.
Peningar tala sænsku, höfundar skrifa á íslensku. Peningar lesa ekki bækur og höfundar hafa takmarkaðan skilning á fjármálum. Kannski er þetta bara fínasta sambúð?
Tíminn verður að leiða í ljós hvort hér er á ferðinni Kópavogsfundur eða koma símans.
Athugasemdir