Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Sögufölsun felld af stalli

Mót­mæl­end­ur í Banda­ríkj­un­um krefjast upp­gjörs og vilja stytt­ur og minn­is­merki um suð­ur­rík­in burt. Sagn­fræð­ing­ur seg­ir það ekki í nein­um takti við mann­kyns­sög­una að lista­verk á op­in­ber­um stöð­um séu var­an­leg.

Sögufölsun felld af stalli
Stytta af Suðurríkjaleiðtoga fjarlægð Borgarstjóri Richmond í Virginíu fyrirskipaði að stytta af J.E.B. Stuart hershöfðingja úr suðurríkjaher yrði fjarlægð í gær. Mynd: Eze Amos/Getty Images/AFP

Fjölmargar styttur og minnismerki hafa verið rifin niður eða fjarlægð í Bandaríkjunum síðustu vikur og einnig í öðrum löndum þar sem mótmælendur krefjast uppgjörs við rasisma fortíðar og nútíðar. Neistinn sem kveikti bálið var dauði blökkumannsins George Floyd í haldi lögreglu en í mörgum tilvikum er um að ræða styttur sem aðgerðasinnar höfðu barist gegn áratugum saman. Aðrir vilja meina að þetta séu skemmdarverk á sögulegum verðmætum en hver byggði þessar styttur, hvers vegna og hvað segir sagan okkur um önnur minnismerki sem hafa verið fjarlægð?

Bandarísku borgarastyrjöldinni, eða þrælastríðinu, lauk árið 1865 með afgerandi sigri norðurríkjanna sem afnámu þar með þrælahald fyrir sunnan. Stríðið stóð í fjögur ár og kynnu margir að halda að styttur af leiðtogum suðurríkjanna hafi verið reistar á þeim tíma eða stuttu á eftir. Staðreyndin er sú að mörg þau minnismerki sem við sjáum í dag voru ekki reist fyrr en á bilinu 1920 til 1960 þegar barátta blökkufólks fyrir borgaralegum réttindum stóð sem hæst.

Það var engin tilviljun. Styttur þessar og minnisvarðar voru hluti af áróðursherferð íhaldssamra kynþáttahatara sem börðust á hæl og hnakka gegn þeim breytingum sem menn eins og Martin Luther King létu lífið fyrir. Stytturnar voru afhjúpaðar á sama tíma og á sömu stöðum og ofbeldið gegn blökkufólki var hvað verst um miðbik 20. aldar. Með þessum hætti var vísvitandi verið að senda þeldökkum Bandaríkjamönnum mjög skýr skilaboð um hver staða þeirra væri og yrði um alla framtíð.

Það er í þessu sögulega samhengi sem krafan um að stytturnar víki kemur fram, ekki af því að fólk vilji skemma minjar frá 19. öld. Minnisvarðar þessir voru reistir mun síðar og ekki til að minnast sögunnar heldur endurskrifa hana.

Glataður málstaður

Mýtan um hinn glataða málstað eða „Lost cause“ er rótgróin í suðurríkjum Bandaríkjanna. Í stuttu máli gengur hún út á að þrælastríðið hafi alls ekki snúist um þrælahald heldur yfirgang norðurríkjanna sem hafi ekki getað unað þeim fyrir sunnan að lifa og skipuleggja samfélag sitt eftir eigin höfði og menningu. Stytturnar eru þannig endurtúlkaðar í seinni tíð sem minnismerki um hugrakkt fólk sem barðist fyrir góðum málstað og þá aðeins í sjálfsvörn.

Sannleikurinn er sá að nær allir leiðtogar suðurríkjahersins og þeir sem fjármögnuðu stríðsreksturinn voru vellauðugir menn sem áttu stórar plantekrur og ógrynnin öll af þrælum (hershöfðinginn Stonewall Jackson verandi helsta undantekningin frá þeirri reglu). Hagsmunir þeirra í stríðinu snerust að öllu leyti um að halda blökkufólki í ánauð, þó að þeir hafi vissulega haldið margar rómantískar ræður til að fegra sig og blása hermönnum sínum baráttuanda í brjóst.

Sagnfræðingar í dag gefa ekkert fyrir þá söguskoðun að þrælastríðið hafi verið réttlát sjálfsvörn en mýtan lifir góðu lífi. Fyrir vikið er stór hópur fólks, sérstaklega í suðurríkjunum, sem lítur á það sem persónulega og menningarlega árás að ráðast gegn styttum af hershöfðingjum þrælastríðsins.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var af Smithsonian stofnuninni hefur það kostað vel á sjötta milljarð íslenskra króna af bandarísku skattfé að viðhalda minnismerkjum um suðurríkjaleiðtoga síðastliðinn áratug. Það væri ekki gert nema með stuðningi stórs hóps íhaldssamra kjósenda sem eru einmitt þeir sem almennt leggjast mest gegn ríkisútgjöldum. Í þessu tilviki gera margir þeirra undantekningu.

Í umsögn um niðurstöður rannsóknar Smithsonian segir sagnfræðingurinn Karen Cox við háskólann í Norður-Karólínu: „Með þessu er sjálft ríkið að styðja við ranghugmyndina um glataða málstaðinn, að nota skattfé með þessum hætti er til merkis um samþykki yfirvalda. Hvað segir það við þeldökka ríkisborgara eða aðra ríkisborgara, hvað segir það við yngstu kynslóðirnar?“ segir Cox.

Aldalöng hefð að ráðast á styttur

Annar virtur sagnfræðingur, Karen L. Thompson prófessor við John Jay College of Criminal Justice í New York, hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum fyrir að styðja kröfur mótmælanna og hefur hún jafnvel gefið góð ráð um hvernig best sé að rífa styttur niður af stöllum. Sagði hún að betra væri að nota keðjur en reipi þar sem það síðarnefnda gæfi of mikið eftir og skapaði aukna hættu fyrir viðstadda.

Thompson hefur einnig deilt ofannefndum kostnaðartölum frá Smithsonian á Twitter reikningi sínum og segir að allir þessir milljarðar ættu frekar að fara í að varðveita sögufrægar minjar frá frelsisbaráttu blökkumanna og frumbygga sem flestar eru í niðurníðslu eftir áratuga vanrækslu.

„Margir halda að sem prófessor í listasögu vilji ég varðveita allar minjar en ég geri mér grein fyrir að það kostar sitt,“ segir Thompson. „Það kostar bókstaflegt stórfé að viðhalda þessum styttum [af leiðtogum suðurríkjanna]... Þegar mótmælendur rifu niður svonefnda Silent Sam styttu við háskólann í Norður Karólínu fyrir tveimur árum tilkynntu stjórnendur skólans að þeir hygðust ekki bara laga hana heldur reisa heilt safn utan um styttuna fyrir tæpar sjö hundruð milljónir íslenskra króna og verja svo meira en 130 milljónum árlega í viðhald og öryggisgæslu. Þarna er bara verið að sturta niður peningum.“

Dagblaðið New York Times tók Thompson tali til að ræða sjónarhorn hennar á deiluna og í því viðtali sagði hún að fólk fyrr á öldum hafi gert sér fyllilega grein fyrir því að styttur væru ekki varanlegir hlutir. „Sem sagnfræðingur í listasögu veit ég að eyðilegging er normið og varðveisla sjaldgæf undantekning. Mannkynið hefur reist minnisvarða um fólk og hugmyndafræði allt frá því að við byrjuðum fyrst að búa til list. Og um leið og við byrjuðum að reisa þessar styttur var fólk að rífa þær niður í sífellu,“ segir Thompson.

„Og um leið og við byrjuðum að reisa þessar styttur var fólk að rífa þær niður í sífellu“

„Við erum t.d. að tala um laskaðar styttur af konungum Assyríumanna og á þeim má finna áletranir þar sem segir að sá sem vogi sér að hrófla við styttunni skuli þjást það sem hann eigi eftir ólifað og þess háttar. Fyrir vikið vitum við að árásir á styttur urðu strax ein af aðferðum byltingarsinna til að kalla fram breytingar. Þeir rifu niður þessa styttu tvö þúsund og sjö hundruð árum fyrir kristsburð. Það ætti því alls ekki að koma neinum á óvart að sjá fólk í dag beita sömu aðferðum til að ráðast á þá hugmyndaræði sem styttur standa fyrir.“

Fortíðin alltaf í endurskoðun

„Hugsum líka bara aðeins um bronsið,“ segir Thompson. „Flestar þessar styttur í suðurríkjunum eru einmitt gerðar úr bronsi sem er málmur sem er mjög auðvelt að bræða niður og endurnýta. Grikkir til forna byggðu líka mörg sín helstu minnismerki úr bronsi en nánast ekkert af þeim stendur eftir í dag. Það er vegna þess að í hvert sinn sem það urðu stjórnarskipti eða stríð braust út voru menn fljótir að bræða stytturnar niður og ýmist komu bronsinu í verð, bjuggu til vopn eða reistu nýja brons-styttu af einhverjum öðrum. Svona er öll listasagan, saga breytilegrar hollustu og fortíðar sem var jafn óðum endurskrifuð... Ég held að okkar kynslóð hugsi um listaverk á opinberum stöðum sem eitthvað varanlegt en það er ekki í neinum takt við mannkynssöguna.“

Thompson segir að líklega sé ástæðan sú að Bandaríkjamenn hafi verið ríkt samfélag í svo langan tíma, auk þess að vera lausir við stríð heimafyrir. Þeir séu ekki vanir sviptingum sögunnar á sama hátt og kannski aðrar þjóðir.

 „Styttu-árásirnar sýna hversu mjög hvít kynþáttahyggja er samofin bandarísku samfélagi“

„Þessar nýjustu árásir á styttur eru til merkis um að vandinn í dag er ekki bara hvað skuli gera í framtíðinni heldur hvernig megi gera upp fortíðina sem þjóð, sem þjóðfélag og sem heimsbyggð,“ segir Thompson. „Styttu-árásirnar sýna hversu mjög hvít kynþáttahyggja er samofin bandarísku samfélagi - að við þurfum að endurskoða alfarið hvernig við skiljum heiminn, jafnvel fortíðina, til að geta horft til bjartari framtíðar.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
2
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Þakklátur fyrir að vera á lífi
3
Viðtal

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þor­lák­ur Mort­hens, Tolli, hef­ur marga fjör­una sop­ið í lífs­ins ólgu­sjó. Æsku­ár­in höfðu sín áhrif en þá byrj­aði hann að teikna og var ljóst að dreng­ur­inn væri gædd­ur hæfi­leik­um. Óregla og veik­indi lit­uðu fjöl­skyldu­líf­ið og á unglings­ár­un­um sá hann um sig sjálf­ur. Um ára­bil var hann sjómað­ur, verka­mað­ur og skóg­ar­höggs­mað­ur. Eft­ir mynd­list­ar­nám hef­ur hann lif­að af mynd­list­inni. Nú er Tolli far­inn að mála í ljós­ari tón­um. Hann gaf nýra, greind­ist síð­an með krabba­mein og sigr­aði.
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
4
Það sem ég hef lært

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir

Mér renn­ur blóð­ið til skyld­unn­ar

Guð­laug Svala Stein­unn­ar Kristjáns­dótt­ir seg­ir að stærsta lexía lífs síns sé lík­lega að upp­götva um miðj­an ald­ur að hún er ein­hverf. Hún hafi átt­að sig á sjálfri sér með hjálp ann­ars ein­hverfs fólks sem þá hafði þeg­ar oln­bog­að sig áfram í heimi ráð­andi tauga­gerð­ar, misst lík­am­lega, and­lega, fé­lags­lega og starfstengda heilsu áð­ur en það átt­aði sig á sjálfu sér.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var bara glæpamaður“
4
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
6
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár