Fyrirhuguð smávirkjun í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi mundi hafa neikvæð áhrif á umhverfið og ferðaþjónustu. Áformin sýna fram á veikleika rammaáætlunar þegar kemur að smávirkjunum. Þetta er niðurstaða Skipulagsstofnunar í umhverfismati sem stofnunin birti í gær.
„Ljóst er að fyrirhuguð virkjun mun hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun. Skaftáreldar í Lakagígum voru eitt mesta eldgos á sögulegum tíma á jörðinni og Skaftáreldahraun er annað af tveimur stærstu hraungosum sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma,“ segir í mati stofnunarinnar. „Verndargildi þess bæði á landsvísu og heimsvísu er hátt og hefur umtalsverða sérstöðu.“
Framkvæmdaaðili virkjunarinnar er Ragnar Jónsson, ábúandi á Dalshöfða. Virkjunin í Hverfisfljóti yrði 9,3 MW að afli og telst til svokallaðra smávirkjana sem að jafnaði þurfa ekki að fara í umhverfismat. Virkjunin yrði með 800 metra langri og 1 til 3 metra hárri stíflu, 2,3 kílómetra langri þrýstipípu, um 6,6 kílómetra löngum aðkomuvegi, um 750 fermetra stöðvarhúsi og aðrennslis- og frárennslisskurðum.
„Verndargildi þess bæði á landsvísu og heimsvísu er hátt og hefur umtalsverða sérstöðu“
Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni. Þá eru framkvæmdirnar fyrirhugaðar innan Kötlu jarðvangs sem hefur hlotið viðurkenningu UNESCO. Óhætt sé að fullyrða að Skaftáreldahraun sé meðal merkustu jarðminja innan hans. „Í ljósi sérstöðu Skaftáreldahrauns verður að gera kröfu um að sýnt sé fram á það með afdráttarlausari hætti í skipulagsgerð vegna framkvæmdaáformanna og áður en kemur til leyfisveitinga.“
Núpahraun, sem verður fyrir talsverðu raski vegna ýmissa framkvæmdaþátta, nýtur einnig sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. „Skipulagsstofnun telur að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir verði verulega neikvæð og telur að í ljósi þess sem rakið er hér að framan þurfi að skoða vel hvort það rask á Skaftáreldahrauni sem virkjuninni fylgi sé ásættanlegt þegar kemur að frekari skipulagsgerð vegna framkvæmdaáformanna og áður en kemur að því að veita leyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd.“
Átti áður að vera stærri en smávirkjun
Þá telur Skipulagsstofnun að sjónræn áhrif framkvæmdanna muni hafa bein áhrif á upplifun af svæðinu og eru fyrirhugaðar framkvæmdir að mati Skipulagsstofnunar líklegar til að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu þar sem upplifun ferðamanna kemur til með að breytast á svæðinu. „Óbyggðir landsins eru mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustu, bæði sem áfangastaður ferðamanna og sem ímynd Íslands. Með hliðsjón af þessu telur Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé líkleg til að hafa talsverð neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist.“
„[...] verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun“
Skipulagsstofnun telur virkjunaráformin sýna fram á veikleika rammaáætlunar. Áformin eiga sér nokkra sögu og stóð upphaflega til að reisa 15 MW virkjun, en núna hefur þeim verið breytt þannig að virkjunin sé aðeins rúm 9 MW. „Allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, sæta heildstæðri greiningu og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun,“ segir í mati stofnunarinnar. „Í rammaáætlun fer fram mikilvæg greining og samanburður á fýsileika ólíkra virkjunarkosta á víðum grundvelli. Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun. Umfang fyrirhugaðar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um er að ræða framkvæmd sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.“
Athugasemdir