Hjónin Eygló Björk Ólafsdóttir og Eymundur Magnússon reka Móður Jörð í Vallanesi í Fljótsdalshéraði og leggja stund á lífræna ræktun og matvælaframleiðslu; lögð er áhersla á korn- og grænmetisræktun og framleiðslu á tilbúnum hollustu- og sælkeravörum. Þá er rekinn veitingastaður og verslun, þar sem framleiðsla fyrirtækisins er seld, í húsi sem var byggt úr ösp á staðnum auk þess sem boðið er upp á gistingu.
Eymundur er búfræðingur að mennt. Hann hlaut árið 2004 Landbúnaðarverðlaunin fyrir notkun á skjólbeltum og skógrækt í landbúnaði. Þá hlaut hann árið 2011 heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar. Svo var hann árið 2012 tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandanna, meðal annars fyrir að leggja áherslu á mannlegan fjölbreytileika með því að taka á móti alþjóðlegum hópi ungmenna sem lærir að sýna umhverfi sínu virðingu og vera trúr jörðinni.
Athugasemdir