Þröstur Leó Gunnarsson, Helga Helgadóttir, börn þeirra og fjölskyldur verja hverju sumri á Bíldudal þar sem þau eiga fallegt hús með palli niðri við fjöruborðið með óviðjafnanlegu útsýni. Þau deildu með Stundinni uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu sem eru ómissandi fyrir alla ferðalanga.

Þormóðslundur
Þormóðslundur er helgaður minningu um þá sem fórust með M.S. Þormóði í febrúarmánuði árið 1943 og einnig er hann helgaður öllum þeim sem áttu um sárt að binda eftir slysið. Öll áhöfnin, sjö manns, fórst í slysinu ásamt tuttugu og fjórum farþegum og flestir voru frá Bíldudal. Það er hægt að finna margar fallegar gönguleiðir inni á appi.


Hvesta í Arnarfirði
Hvesta er hvíta fjaran í Arnarfirði. Þar giftum við okkur árið 2004 og fallegri altaristöflu væri ekki hægt að hugsa sér. Það var hljómsveit á sandinum og dásamlegt veður. Síðan finnst Móu, hundinum okkar, afskaplega gott að hlaupa um þarna.
Selárdalur
Þangað reynum við að fara að minnsta kosti einu sinni á ári. Samúel, listamaðurinn með barnshjartað, hreyfir alltaf við okkur. Hann málaði altaristöflu og bauð þeim í Selárdalskirkju en þau vildu ekki þiggja hana. Hann smíðaði því kirkju utan um altaristöflu sína. Maður finnur fyrir sögunni þarna og vert er að geta galdrabrenna sem voru þar á 17. öld.
Athugasemdir