Ég byrjaði nú bara í hestamennskunni fyrir tíu árum eða svo. Strákurinn minn byrjaði í reiðskóla og svo langaði hann að eignast hest og ég dróst bara inn í þetta með honum. Við fundum góðan barnahest og leigðum hesthúspláss. Nú er strákurinn minn hættur í þessu, eða hann er nú bara kominn í nám erlendis, svo ég er núna í hestamennskunni með stelpunum mínum. Lengst af var ég með hesthús í Víðidalnum en er nýlega fluttur í Mosfellsbæinn og á hesthús þar núna.
Ég er bara búinn að eiga Prins í nokkra daga, ég var að kaupa hann sem barnahest handa stelpunni minni. Það er erfitt að finna hesta sem henta fyrir börn þannig að ég var heppinn að finna hann. Svo er hann líka svo skemmtilegur á litinn, hann er jarpvindóttur sem er sjaldgæfur litur. Ég veit ekki hvort það fylgir hestinum sérstaklega eða hvað en þegar ég keypti hestinn, óséðan, þá benti sá sem seldi mér hann á að það hefði verið mynd af honum á forsíðu Bændablaðsins í byrjun júní. Svo kom ljósmyndarinn frá ykkur og smellti mynd af honum þannig að það virðist vera að sviðsljósið leiti Prins uppi.
Athugasemdir