„Óðir úlfar að vetri; á sumrin engin uppskera í hús.“
Þannig lýsti véfréttin í Delfí ástandi máli í Grikklandi og nágrenni á árunum 43 og 42 fyrir Krist.
Og víðar var ástandið erfitt. Haustið 43 var rómverski herforinginn Markús Antoníus á leið með her sinn yfir Norður-Ítalíu á leið yfir fjöllin til Frakklands. Her fór um hinn frjósama Pó-dal og þar hefði átt að vera nóg að bíta og brenna. En engin uppskera var komin í hús þar frekar en í Grikklands, það var hungursneyð, hermennirnir „átu villt ber og rætur og meira trjábörk, er okkur sagt,“ skrifaði sagnaritarinn Plútark, „og alls konar kvikindi sem engum hafði áður dottið í hug að éta, þau lögðu hermennirnir sér nú til munns.“
Árviss flóð Nílar brugðust
Meira að segja austur í Egiftalandi þar sem hið gjöfula Nílarfljót breiddi úr sér, meira að segja þar var hungursneyð. Hin árvissu flóð í Níl, sem vökvuðu jarðveginn svo þar var auðugust jörð í heimi, þau létu á sér standa tvö ár í röð með hræðilegum afleiðingum. Fólk féll úr sulti á árbökkunum og engin skip lögðu úr höfn hlaðin korni til fjarlægra landa við Miðjarðarhafið, sem treystu allajafna á egifska kornið.
Það var kalt, hitastig lækkaði um þrjár gráður á Celsíus í tvö ár - þótt sú mælieining væri þá ekki komin til sögunnar. Sums staðar var ausandi köld rigning mánuðum saman, annars staðar þurrkur eins og í Egiftalandi.
Eftir tvö ár fór að draga úr harðindunum en þeim var þó ekki að fullu lokið fyrr en áratug síðar. Þá var allt komið í eðlilegt horf.

Þetta hörmulega árferði hefur lengi verið þekkt úr gömlum heimildum en undanfarið hafa vísindamenn skrásett það vandlega með því að rannsaka hina æ svo gagnlegu borkjarna í Grænlandsjökli, grafa í jörð við Miðjarðarhafi og víðar og telja árhringi í trjáleifum frá þessum tíma. Það er nú ljóst að kólnun varð um allt norðurhvelf jarðar á sama tíma - líka á Íslandi, þótt hér væri enginn lifandi maður til að taka eftir því.
Sökudólgurinn fundinn
Einhver ástæða hlaut að vera fyrir svo miklum og svo langvarandi ósköpum sem náðu yfir svo stórt svæði. Böndin hafa lengi borist að eldgosi en vísindamenn hafa fram að þessu ekki treyst sér til að segja til um hver sökudólgurinn væri.
Hvaða fjall hafi gosið og spúð út í andrúmsloftið svo gríðarlegu gagni af gosefnum að kólnaði mjög verulega um hálfan hnöttinn og loftslag raskaðist svo víða og svo mikið að meira að segja flóðin í Níl létu ekki sjá sig.
En nú er sökudólgurinn fundinn.
Okmok í Alaska. Lengi hefur verið vitað að þar varð mikið gos einhvern tíma á 250 ára tímabili kringum Krists burð en nú hefur tekist að tímasetja gosið mjög návæmlega.
Það gaus árið 43 og gosið stóð í tvö ár.
Óðir úlfar að vetri, á sumrin engin uppskera í hús.
Tíu kílómetra askja
Þetta var ekkert smágos. Fjallið sem fyrir var sprakk. Askja myndaðist, tíu kílómetrar í þvermál. Gosið var tíu sinnum meira en gosið í Vesúvíusi sem drekkti borgunum Pompeii og Herculaneum í gosefnum öld síðar.
Gosið var sambærilegt við Krakatóa-gosið 1883 og Tambora 1815.
Orkan sem leystist úr læðingi var ígildi 13.000 kjarnorkusprengja af þeirri stærð sem eyddu borginni Hírósjima árið 1945.

Allt er þetta mjög fróðlegt en niðurstöður vísindamannanna hafa vakið meiri athygli en ella vegna þess að helsti talsmaður rannsóknarinnar, Joseph R. McConnell, hefur ekki hikað við að tengja gosið í Okmok og hrun rómverska lýðveldisins.

Það hafði reyndar lengi verið á fallanda fæti árið 43. Dreissugir herforingjar höfðu áratugum saman barist um völdin í Rómaveldi og harla lítið var orðið eftir af lýðveldinu rómaða. Markús Antoníus var einn nokkurra valdamanna, sem vildu seilast til æðstu valda, eftir að Julius Caesar einræðisherra hafði verið myrtur árið áður.
Stofnanir lýðveldisins réðu ekki við harðindin
McConnell leiðir líkur að því að harðindin, sem gosið í Okmok olli, hafi verið síðasti naglinn í líkkistu lýðveldisins. Hungursneyðir og óárán hafi valdið því að leifarnar af stofnunum lýðveldsins stóðust ekki atlögur herforingjanna metorðasjúku.
Enda leið ekki á löngu þar til einn þeirra, Oktavíanus frændi Caesars, næði æðsti völdum og gerðist fyrsti keisari Rómaveldis undir nafninu Ágústus.
Þessar hugmyndir McConnells hafa vakið mikla athygli og með þeim hefur hann náð að vekja miklu meiri athygli á rannsókn sinni en ella hefði orðið.
Samt eru þessar hugmyndir bara bull.
Rómverska lýðveldið var fyrir bí löngu áður en gaus í Okmok. Í fyrsta lagi hafði það lengi verið höfðingjaræði, síðan auðræði, þá herforingjaræði, loks einræði Caesars.

Og þó sólin hefði hellt hlýjum geislum sínum yfir norðurhvelið dag hvern á árunum 43-41 og enginn úlfur ærst að vetri, þá hefði ekki allt í einu kviknað nýr þróttur í lýðveldinu. Það er bara útilokað, eins og þá var löngu komið málum.
Þegar harðindin skullu á voru margir áratugir síðan eitthvað í líkingu við lýðræði hafði verið virkt í þessu mikla stórveldi, og engar horfur voru á að neitt slíkt kæmist aftur á.
Morðingjar Caesars lýstu vissulega áhuga á að endurreisa lýðveldið, en þeir hefðu farið halloka þótt veðrið hefði leikið við þá.
Eyjafjallajökull
Hugmyndir McConnells um að gosið hafi eytt rómverska lýðveldinu dæmast því frekar billegt auglýsingaglamur, en þessar niðurstöður eru samt merkilegar og fróðlegar og varpa nýju ljósi á Rómarsögu, jájá, ekki laust við það.
Það er því verulegur fengur að þeim.
Sérlega merkilegt mun vera hvernig rannsóknin sýnir fram á truflun á rennsli Nílar.
Karen Holmberg, fornleifafræðingur, sem tók ekki þátt í rannsókninni segir niðurstöðurnar afar fróðlegar. Þær sýna að lítt þekkt eldfjöll eins og Okmok geti valdið ógnarlegum skaða með óvæntum stórum gosum.
„Okmok er ekki beinlínis víðfræg ógn,“ segir hún. „En það var Eyjafjallajökull ekki heldur.“
Athugasemdir