Ég er alltaf berfættur á hjólinu. Ég finn ekkert fyrir kulda, ég var sjóhundur til tuttugu ára og víla ekkert fyrir mér. Svo fæ ég ókeypis fótabað þegar rignir. Ég er á hjólinu allt árið um kring. Sumir hafa spurt hvort ég hafi ekki neinar áhyggjur af því að meiða mig ef eitthvað kemur fyrir, að skrapa sundur fæturna, en ég svara þeim að það komi ekkert fyrir mig. Ég keyri bara eins og maður, er á löglegum hraða, ekkert að prjóna eða hekla eða djöflast. Ég nota hjólið til að komast leiðar minnar og mér til skemmtunar, það er ægilega þægilegt, þarf aldrei að hafa áhyggjur af bílastæðum. Það er hægt að koma þessu fyrir hvar sem er, upp á rönd ef maður vill.
Ég er búinn að hjóla meira og minna síðan 1974 þegar ég eignaðist mitt fyrsta hjól, Suzuki 380. Þá var ég austur á Hornafirði, ég var á bát þarna fyrir austan og fór á milli þaðan og hingað suður. Núna er ég á þessu hjóli, Hondu 750 spirit, helvíti skemmtilegu hjóli. Ég er nú hættur að fara svona langar leiðir, fer núna kannski lengst til Ólafsvíkur. Ég er uppalinn í Ólafsvík, Ólsaraandskoti.
Athugasemdir