Tómas H. Heiðar, dómari við Alþjóðlega hafréttardóminn og sendiherra, var skipaður sem sendiherra við utanríkisráðuneytið tæpum þremur mánuðum eftir að hann var kjörinn sem dómari við alþjóðlega dómstólinn í Hamborg árið 2014. Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, skipaði hann í starfið.
Þetta kemur fram í svörum frá utanríkisráðuneytinu við spurningum Stundarinnar. Stundin greindi frá málinu í gær.
Gunnar Bragi skipaði Tómas sem sendiherra þann 1. september 2014 eftir að hann hafði verið kjörinn dómari við hafréttardóminn þann 11. júní sama ár og þann 1. október 2014 tók hann við dómarastarfinu í Hamborg. Kjör Tómasar er til 9 ára.
Engar opinberar heimildir eru um að Tómas hafi verið skipaður í embætti sendiherra á þessum tíma aðrar en upptalning á störfum Tómasar á vefsíðu Alþjóðlega hafréttardómsins. Þar stendur ekki fyrir hvaða land Tómas er sendiherra.
Utanríkisráðherra, eða utanríkisráðuneytið, hefur ekki birt neinar upplýsingar um að Tómas sé sendiherra fyrir utan svar ráðherra á Alþingi árið 2017 um hverjir eru sendiherrar. Í því svari var raunar ranglega sagt að Tómas hefði verið skipaður í starfið árið 2016. Þetta misræmi er óútskýrt.
Tilkynnt um aðra sendiherra
Rúmum mánuði áður en Gunnar Bragi skipaði Tómas sem sendiherra skipaði hann aðra tvo sendiherra, þá Geir H. Haarde og Árna Þór Sigurðsson. Ráðuneytið birti frétt um þetta samdægurs á heimasíðu sinni. „Utanríkisráðherra hefur í dag skipað þá Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra, og Árna Þór Sigurðsson, alþingismann og fyrrverandi formann utanríkismálanefndar, sendiherra í utanríkisþjónustunni frá og með 1. janúar 2015,“ segir í fréttinni.
Sömu sögu má segja um fjóra nýja sendiherra sem Gunnar Bragi skipaði í ársbyrjun 2016.
Slíkar fréttir eru oft og yfirleitt birtar þegar nýir sendiherrar eru skipaðir. Þetta var hins vegar ekki gert þegar Tómas var skipaður.
Heimildir Stundarinnar herma að margir í starfsliði utanríkisráðuneytisins hafi ekki vitað af sendiherratign Tómasar og það tók ráðuneytið fimm daga að senda Stundinni upplýsingar um ráðninguna.
Þó utanríkisráðuneytið hafi ekki tilkynnt sérstaklega um það þegar Gunnar Bragi skipaði Tómas sem sendiherra þá tjáði Gunnar Bragi sig um það þegar hann var kjörinn dómari við hafréttardóminn þann 11. júní 2014, tæpum þremum mánuðum áður en hann var skipaður sendiherra: „Kosningabaráttur finnast lika innan diplomataheimsins en þar vinna allir saman í Team Iceland. Til hamingju Tómas.,“ sagði utanríkisráðherra þá á Faecbook.
Ein af spurningunum sem út af stendur í málinu er af hverju utanríkisráðherra Íslands skipar einhvern sem sendiherra einum mánuði áður en hann fer í 9 ára leyfi frá störfum til að starfa sem dómari við alþjóðlegan dómstól.
Stundin hefur ekki náð í Gunnar Braga Sveinsson.
Tómas: Ekkert óeðlilegt
Tómas segir í tölvupósti til Stundarinnar að hann sé í leyfi sem sendiherra og því sé rangt að segja að hann gegni starfi starfi sendiherra samhliða dómarastarfi sínu. „Ég árétta að ég er í leyfi sem sendiherra í utanríkisþjónustunni. Gegni því starfi að sjálfsögðu ekki á meðan ég gegni embætti dómara. Þigg engin laun eða réttindi frá ráðuneytinu.“
„Ég árétta að ég er í leyfi sem sendiherra í utanríkisþjónustunni“
Tómas segir jafnframt að það sé algengt að starfsmenn utanríkisráðuneytisins gegni öðrum störfum hjá alþjóðstofnunum á skipunartíma sínum sem sendiherrar en að þeir fari þá í leyfi á meðan líkt og hann hafi gert. „Mjög algengt er að starfsmenn utanríkisþjónustunnar starfi tímabundið hjá alþjóðastofnunum og fari í leyfi á meðan. Guðmundur Eiríksson, sem gegndi á sínum tíma embætti dómara við Alþjóðlega hafréttardóminn, fór t.d. í leyfi sem sendiherra í utanríkisþjónustunni á meðan.“
Guðmundur Eiríksson var dómari við Alþjóðlega hafréttardóminn á árunum 1996 til 2002 en munurinn á stöðu hans og Tómasar er sá að hann var löngu orðinn sendiherra áður en hann varð dómari við réttinn. Tómas var hins vegar skipaður sendiherra eftir að hann var kjörinn dómari.
Þegar fréttin var birt hafði Tómas ekki svarað spurningum Stundarinnar um af hverju hann hafi verið skipaður sendiherra eftir að hann var kjörinn dómari eða af hverju hann taki það ekki fram á heimasíðu dómstólsins í Hamborg að hann er sendiherra fyrir Íslands hönd.
Stundin hefur sent frekari spurningar um málið til utanríkisráðuneytisins og bíður miðillinn svara.
Athugasemdir