Ég man hvernig það var að vera stelpa, í þessu tímabili á milli þess að vera óviti og þar til kynþroskaskeiðið hófst. Ég byrjaði að skilja heiminn betur, fullorðið fólk fór að tala öðruvísi við mig, allt var áhugavert og spennandi. Nýjar uppgötvanir á hverjum degi. Heimurinn var uppfullur af möguleikum og framtíðin var mín.
Bjartsýni, frelsi, tilhlökkun og kraftur hefðu átt að fá að blómstra og einkenna þetta tímabil, en svo var ekki. Þetta voru árin þar sem samfélagið kenndi mér að þekkja minn stað. Að stelpur væru óæðri, að kvenlíkaminn væri varningur, að það borgaði sig að efast um eigið ágæti og skilning á sjálfri mér því aðrir (já, aðrir) vissu betur.
Ég man að orðið ÞEIR bergmálaði allt í kring. ÞEIR voru mennirnir sem stjórnuðu öllu, vissu allt og gátu allt. Stelpa var skammaryrði, niðurlægjandi og hlægilegt. Það sem ég upplifði sem eitt af mínum stærstu og ófrávíkjanlegustu einkennum gerði mig vanmáttuga. Stelpur gátu minna, vissu minna, áttu að gjöra svo vel að taka minna pláss og vera dömulegar.
„Ég fraus og lærði að vera minni, þögulli og dömulegri“
Ég var 10 ára þegar fullorðinn maður káfaði á mér og ég upplifði að vera meðhöndluð sem kynferðislegt viðfang í fyrsta sinn. Ég skildi ekki hvað var að gerast en ég vissi að þetta var hræðilegt og hættulegt, ég fraus og lærði að vera minni, þögulli og dömulegri.
Í þessari viku, þegar ég sá manninn með eina hæstu rödd samfélagsins nota hugmyndina um 10 ára stelpu sem hið versta níð gagnvart fullorðinni konu fauk í mig. Því meira sem ég hugsa um það, því reiðari verð ég. Tíu ára stelpur eru fólk. Það eru nokkur þúsund 10 ára stelpur á Íslandi sem standa á þessum þröskuldi. Þær skilja vel hvað er að gerast í kringum sig, þær geta haft skoðanir á því og eru að móta hugmyndir sínar um eigið hlutverk í heiminum. Leyfum engum að taka sjálfstraustið af þessum hópi öllum á einu bretti eða segja þeim að það sem þær eru sé skammarlegt.
Það hefur viðgengist allt of lengi að gera lítið úr stelpum. Það að gera eitthvað „eins og smástelpa“ eða vera eins og stelpa á gelgjunni er hrikalegur dómur. Steríótýpísk áhugamál stelpna og „stelpuleg hegðun“ er talin heimskuleg og óæðri, en fokk það. Ég þekki fullt af stelpum og ungum konum sem eru frábært fólk með stórkostlega hæfileika.
Mörg okkar hafa verið 10 ára stelpur. Mig langar að koma þeim til varnar og hvet fólk til að deila sögum og minningum undir merkinu #10árastelpa til að minna fólk á hverjar þær eru og hverjar við vorum.


Athugasemdir