Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um að Reykjavíkurborg og ríkið leggi til samtals 300 milljónir króna til að tengja flutningaskip landrafmagni á næsta ári og minnka þannig notkun á olíu um 660 þúsund tonn. Þannig dregst útblástur koltvíoxíðs, sem er gróðurhúsalofttegund, um 20 prósent. Að auki má gera ráð fyrir bættum loftgæðum í borginni, á þeim svæðum sem liggja nærri Sundahöfn. Þetta mun gerast frá og með næsta ári, ef allt gengur samkvæmt áætlun.
„Um er að ræða fyrsta áfanga í því verkefni að tryggja raftengingar fyrir stærri skip í höfnum á Íslandi,“ segir í fréttatilkynningu sem send var í dag frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Að viljayfirlýsingunni standa Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Veitur, Samskip og Eimskip.
Haft er eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra í tilkynningunni að um sé að ræða eitt af fleiri stórum skrefum í því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
„Við erum að stíga stór skref í loftslagsmálum núna með aðkomu ríkisins að rafvæðingu tíu hafna á Íslandi í ár. Verkefnið við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík er frábært samstarfsverkefni og mun ekki bara draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka bæta loftgæði í borginni. Þetta er gleðidagur.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í sömu yfirlýsingu að skapa þurfi Íslandi samkeppnisforskot í græna hagkerfinu.
„Þetta er mjög stór dagur í loftslagsmálum, ekki bara í Reykjavík heldur fyrir landið allt. Rafvæðing hafna er hluti af bæði loftslagsáætlun stjórnvalda og borgarinnar um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þannig að þessi yfirlýsing sem við undirrituðum í dag er vegvísir að enn grænni borg. Nú fer af stað vinna við að gera þetta að veruleika og við vonumst til að geta tengt fyrstu flutningaskipin næsta sumar sem mun draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hjá skipafélögunum en ekki síður bæta loftgæðin í kringum hafnirnar. Það hefur verið mín skoðun að við ættum öll að vera að nota þennan tíma til að skipuleggja grænt plan í efnahagsmálum til þess að draga úr útblæstri en ekki síður til að skapa landinu nauðsynlegt samkeppnisforskot í græna hagkerfinu.“
Í fyrsta áfanga verkefnisins munu Faxaflóahafnir, Veitur og ríkið leggja til hundrað milljónir króna hvert.
Athugasemdir