Fimm af ellefu stoppistöðvum Strætó á Seltjarnarnesi eru við einbreiðar götur með ekkert útskot fyrir strætisvagna. Forseti bæjarstjórnar Seltjarnarnes mótmælir því að Reykjavíkurborg setji slíka stöð við tvíbreiða götu í miðborginni og segir það hindra gott flæði umferðar til sveitarfélagsins.
Unnið er nú við að setja nýja stoppistöð Strætó við Geirsgötu skammt frá Kolaportinu, en ekkert útskot verður við götuna fyrir strætisvagna til að beygja inn í og hleypa þannig bílum fram fyrir sig. Gatan er hins vegar tvíbreið. Haft var eftir Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, í Morgunblaðinu að framkvæmdirnar væru „eins konar hryðjuverk gegn fjölskyldubílnum“. Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi, sagði ummælin ósmekkleg. Á þessari götu hefði orðið banaslys vegna hraðaksturs og tilvalið væri að hægja á umferð.
Nokkrum metrum vestar á sömu akstursleið til og frá Seltjarnarnesi, við Mýrargötu, er hins vegar önnur stoppistöð. Sú er án útskots og Mýrargata er einbreið. Engin leið er því fyrir einkabíla að komast fram hjá vögnunum þegar þeir stoppa fyrir farþegum.
Þá eru 11 stoppistöðvar Strætó á Seltjarnarnesi sjálfu, við göturnar Nesveg, Suðurströnd, Lindarbraut og Norðurströnd. Fimm þessara stöðva eru án útskots og göturnar einbreiðar.
Málið var rætt á hjá skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar, að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins um málið. Nefndin telur að framkvæmdirnar séu ekki í samræmi við samkomulag sveitarfélaganna um skipulag svæðisins frá 2013 þar sem þær þrengi að umferð að Seltjarnarnesi. Nefndin telur það ámælisvert að ekki hafi verið haft samráð við Seltjarnarnesbæ og skipulagsfulltrúi hefur komið athugasemdum á framfæri við Reykjavíkurborg.
„Ég held að þessi framkvæmd sé bara gríðarlega illa undirbúin, enda stenst hún ekki einu sinni samkomulag okkar við borgina,“ sagði Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness við Morgunblaðið í gær. „Það má ekki gleyma að um Geirsgötu er mikil og þung umferð, bæði í Vesturbæinn og á Nesið en einnig á þjónustusvæðið á Granda, svo ekki sé minnst á olíuflutninga. Það verður að tryggja góðar og öruggar samgöngur á milli sveitarfélaga og ég efast um að Strætó telji þetta vera heppilegustu lausnina, einkum í ljósi umferðaröryggis.“
„En í stað þess að hafa alla sátta þá tókst mönnum einhvern veginn að klúðra því“
Magnús Örn segir ákvörðun Reykjavíkurborgar um stoppistöðina róttæka. „Það er alltaf verið að tala um að þörf sé á því að gera öllum jafn hátt undir höfði í umferðinni. Hér er beinlínis verið að fara þvert á það. Það hefði verið svo einfalt að útfæra þetta öðruvísi enda mikið pláss á þessu svæði. En í stað þess að hafa alla sátta þá tókst mönnum einhvern veginn að klúðra því. Manni fallast hreinlega hendur, svona útfærsla er ekkert annað en víðáttuvitleysa og við munum krefjast breytinga.“
Athugasemdir