Breytingartillaga Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingar, um að hækka hámark atvinnuleysisbóta í 516 þúsund krónur frá júní út árið, hlaut ekki brautargengi á Alþingi á fimmtudag. Sömuleiðis var felld tillaga hennar um að gefa námsmönnum rétt á atvinnuleysisbótum sumarmánuðina þrjá.
Tillögurnar voru til breytingar á nýjum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19 faraldursins. Annarri umræðu um málið lauk á fimmtudag á Alþingi.
Fyrst var kosið um þá tillögu að hækka hámark atvinnuleysisbóta. Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, gerði grein fyrir atkvæði sínu við tillöguna, einn stjórnarþingmanna. „Það er klárlega góður hugur á bak við þessar tillögur,“ sagði hann. „Ég tel hins vegar ekki að það sé tímabært að bregðast við með þessum hætti akkúrat núna. Hins vegar er ljóst að verði atvinnuleysið til lengri tíma er þetta eitthvað sem við munum þurfa að skoða á síðari stigum. En ég segi því nei.“
„Við erum þegar búin að bæta í hvað varðar sumarstörf námsmanna“
Næst var kosið um breytingartillöguna þess efnis að heimila greiðslur atvinnuleysisbóta til námsmanna í sumar. „Við greiðum hér atkvæði um mál sem má segja að sé nokkurs konar grundvallarbreyting á hugsunarhættinum í atvinnuleysistryggingakerfinu,“ sagði Ólafur Þór, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu. „Við erum þegar búin að bæta í hvað varðar sumarstörf námsmanna. Það hefur þegar verið brugðist við með svokölluðum sumarlánum fyrir þá námsmenn sem ekki fá vinnu og verða við nám í sumar. Og við treystum á sveitarfélögin, eins og þau gerðu í hruninu, að bregðast við með myndarlegum hætti og skapa störf fyrir námsmenn þannig að ekki þurfi að koma til þess að þau hafi ekki framfærslu í sumar.“
Þá var einnig felld tillaga Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, þess efnis að lengja í stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki umfram það sem til stendur að gera næstu tvö ár. Sagði Ólafur Þór aftur að ekki væri tímabært að gera slíkar breytingar.
Athugasemdir