Fyrirtæki fá stuðning frá ríkinu til að greiða atvinnuleysisbætur og gildistími hlutabótanna verður framlengdur út júní í núverandi mynd og síðan í breyttri mynd út ágúst. Þetta er meðal þeirra leiða sem ríkisstjórnin kynnti á blaðamannafundi nú í hádeginu til að mæta vanda þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna kórónaveirufaraldursins. Þá fá fyrirtæki fá stuðning frá ríkinu til að greiða atvinnuleysisbætur.
Aðgerðirnar voru ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Þetta er þriðji aðgerðapakkinn sem kynntur er. Sá síðasti, sem kynntur var í síðustu viku, var talsvert gagnrýndur, einkum af aðilum í ferðaþjónustu sem töldu ekki nóg að gert.
„Það er algerlega ljóst að þetta úrræði hefur nýst gríðarlega vel,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um hlutabótaúrræðið er hún kynnti aðgerðirnar, en 35.000 launþegar hafa nýtt sér úrræðið. „Þetta er mikilvægasta aðgerðin sem við hefðum getað ráðist í, “ sagði Katrín enn fremur.
„Þetta er mikilvægasta aðgerðin sem við hefðum getað ráðist í“
Hún sagði að af þessum 35.000 væru 14.000 í ferðatengdum starfsgreinum. Núverandi fyrirkomulag á hlutabótaleiðinni, sem átti að gilda út maí, verður framlengt um mánuð eða út júní. Þá verður fyrirkomulagi þess breytt þannig að úrræðið nær yfir fólk sem er í 50% starfi hið minnsta, í stað 25% nú, og þannig verði það út ágúst. „Við munum líka setja nánari skilyrði fyrir úrræðinu,“ sagði Katrín.
Aðstoð við fjárhagslega endurskipulagningu
Aðgerð númer tvö sem kynnt var á fundinum var að fyrirtækjum verður gert auðveldara fyrir að endurskipuleggja sig fjárhagslega. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta meðal annars að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.
Aðstoð við að greiða uppsagnarfrest
Þriðja aðgerðin felur í sér stuðning til fyrirtækja til að greiða starfsfólki þriggja mánaða uppsagnarfrest og orlof. Stuðningurinn verður að hámarki 633.000 krónur á mánuði og verður takmarkaður við fyrirtæki sem hafa misst 75% tekna sinna eða meira. Tilgangur þessa er að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%.
Forsætisráðherra sagði að áætlað væri að um fjórðungur fyrirtækja hefði orðið fyrir slíku tekjutapi. Þá muni starfsmenn eiga forgang til starfs þegar starfsemi hefst að nýju og halda tilteknum áunnum réttindum. Sett verði nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis, fyrir aðild að þessu úrræði og um endurkröfurétt. Leiðin er í boði frá 1. maí til 30. september.
Athugasemdir