Í febrúar lét ég gamlan draum rætast og ferðaðist um Víetnam og Kambódíu í góðum hópi fólks. Mig hefur langað á þessar slóðir í meira en 20 ár og hugsaði alltaf með mér að ég yrði að fara áður en ég kveð þetta jarðlíf.
Ferðin uppfyllti allar mínar vonir og væntingar, hún var ánægjuleg og fróðleg í alla staði. Fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka er elskulegt. Fólkið þarna er einstaklega elskulegt, þarna er svo fallegt og maturinn yndislega góður. Við sigldum meðal annars um Halong Bay-flóa og það var eins og að hverfa inn í myndaalbúm.
Ég kom heim í lok febrúar og hef verið í bæði skipulagðri og sjálfskipaðri sóttkví síðan. Undanfarnar vikur hef ég tekið einn dag í einu og mingla ekki mikið við umheiminn. Ég held ég hafi aldrei verið eins mikið ein með sjálfri mér og ég kann því satt að segja ekkert illa, þó það komi óþreyja í mann annað slagið.
Á hverjum degi fer ég samt í mína daglegu heilsubótargöngu. Það er nauðsynlegt, því það getur verið hættulegt að vera svona lengi heima hjá sér, daga þar uppi í tilgangsleysi. Það er ekki skemmtilegt til lengdar. Það heimsækir mig heldur enginn, ég er meðhöndluð sem gamalmenni og enginn vill smita mig.
Ég er þá ekki að fara neitt sjálf heldur, því ég vil ekki láta aðra sitja uppi með það að hafa hugsanlega smitað mig. Það er sterk tilfinning innra með manni sem segir manni að þvælast ekki neitt, að passa sig og hlýða.
Athugasemdir