Ólík viðbrögð almannavaldsins við veirufaraldrinum sem geisar um heiminn vekja ýmsar áleitnar spurningar.
Hvers vegna hafa Svíar tekið svo miklu færri sýni en Danir, Finnar, Íslendingar og Norðmenn og leyft veirunni að kosta svo miklu fleiri mannslíf í Svíþjóð en annars staðar um Norðurlönd? Og hvers vegna hefur Suður-Kórea náð svo miklu betri árangri í baráttunni gegn veirunni en Bandaríkin þótt fyrsta smitið greindist sama dag í báðum löndum? – 20. janúar.
Stríðsskaði eða friðarskaði?
Byrjum í Svíþjóð. Sænsk-ungverski læknirinn Georg Klein var einhverju sinni spurður að því hvort hann hefði orðið fyrir stríðsskaða. Tilefni fyrirspurnarinnar var að Klein hafði ungum manni tekizt með mestu naumindum í stríðinu að komast undan drápsvél nasista í Ungverjalandi, heimalandi hans, og flýja síðan eftir stríð til Svíþjóðar þar sem hann varð einn dáðasti læknir síns nýja heimalands. Sérgrein hans var krabbamein auk þess sem hann var mikilvirkur rithöfundur. Ég kynntist honum lítillega. Klein kannaðist ekki við að hafa orðið fyrir stríðsskaða, en hann lét það hvarfla að sér að sumir Svíar kynnu að hafa orðið fyrir friðarskaða. Hann átti við að Svíar hafa búið við samfelldan frið í meira en 200 ár og bera þá ef til vill fyrir vikið veikara skyn en grannar þeirra á viðsjár og vonzku heimsins. Þessi saga um Klein rifjast upp nú þegar fyrir liggur að Svíar hafa annan hátt á viðnámi sínu gegn kórónuveirunni en Danir, Finnar, Íslendingar og Norðmenn, fjórar þjóðir sem allar voru hernumdar í síðari heimsstyrjöldinni. Íslendingar sluppu sýnu bezt úr þeim hildarleik – „blessað stríðið“ var viðkvæði – meðan Danir og Norðmenn þurftu að lúta hernámi og harðýðgi af hálfu nasista og Finnar þurftu að heyja stríð við Rússa með miklu mannfalli.
Mörgum Svíum sýnist að munurinn á mjúkhentu viðnámi sænskra yfirvalda gegn veirunni og harðhentu viðnámi yfirvalda annars staðar um Norðurlönd stafi að einhverju leyti af því að viðbúnaði Svía var áfátt. Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, hefur viðurkennt þetta opinberlega. Hann segir Svía hafa brugðizt við endalokum kalda stríðsins um 1990 með því að slaka á ýmsum vörnum. Í lok kalda stríðsins áttu Svíar 35 hersjúkrahús með samtals 7.000 sjúkrarúmum, en nú eru aðeins tvö slík sjúkrahús eftir í landinu því hin voru gefin Eystrasaltsþjóðunum og Afríkuþjóðum. Nú sárvantar sjúkrarými í Svíþjóð. Og ekki bara það: Svíar lokuðu birgðageymslum eftir kalda stríðið og brenndu sóttvarnargrímur í milljónatali. Finnar, skaðbrenndir af erfiðu nábýli við Rússland, héldu ólíkt Svíum áfram að bæta í sínar birgðageymslur. Þannig stendur á því að Svía sárvantar nú grímur meðan Finnar eiga nóg og deila sínum grímum með Svíum og öðrum. Dauðsföll af völdum veirunnar eru nú orðin nífalt fleiri sem hlutfall af fólksfjölda í Svíþjóð en í Finnlandi, tæplega fjórfalt fleiri en á Íslandi og í Noregi og tvöfalt fleiri en í Danmörku. Fyrsta smitið greindist í Finnlandi 29. janúar og Svíþjóð 31. janúar borið saman við 26., 27. og 28. febrúar í Noregi, Danmörku og á Íslandi.
Aðrir segja: Svíar vita hvað þeir syngja. Yfirvöldin þar taka ríkara tillit til þeirra sem vilja standa vörð um ferðafrelsi fólks og hjól atvinnulífsins og efla hjarðónæmi jafnvel þótt vitað sé að vægari samskiptahömlur kunni að hægja minna á útbreiðslu veirunnar og leiða þannig til fleiri dauðsfalla í bráð, einkum meðal eldri borgara, en strangari hömlur myndu gera. Á þá spurningin um peningana eða lífið rétt á sér þegar öllu er á botninn hvolft? Kannski, kannski ekki. Spurningunni er ekki með góðu móti hægt að svara fyrr en faraldrinum er lokið og hægt verður að bera saman ferla smits og dauðsfalla milli landa.
Með pálmann í höndunum
Förum nú til Asíu. Þegar fyrsta smitið greindist í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu 20. janúar brugðust yfirvöldin í Suður-Kóreu við af einurð með því að hefja strax víðtæka skimun og smitrakningu og setja smitaða í sóttkví. Þessi snöggu viðbrögð hafa skilað þeim árangri að dauðsföll af völdum veirunnar í Suður-Kóreu eru sem hlutfall af fólksfjölda aðeins lítið brot af dauðsföllum í Bandaríkjunum; munurinn er 25-faldur og fer vaxandi. Líkleg skýring á þessum mikla mun er ólík viðbrögð almannavaldsins. Yfirvöld í Suður-Kóreu höfðu snör handtök meðan Bandaríkjastjórn og Trump forseti gerðu lítið úr smitinu vikum saman. Þarna skilur bókstaflega milli feigs og ófeigs.
Á Taívan greindist fyrsta smitið 21. janúar. Yfirvöldin þar brugðust við undir eins og með svipuðum ráðum og beitt var í Suður-Kóreu. Taívanar voru reynslunni ríkari eftir SARS-faraldurinn 2003 þar sem röskur fjórðungur sýktra lét lífið, 181 af 668, og voru eftir því við öllu búnir. SARS-faraldurinn var þó bara barnaleikur borið saman við COVID-19-faraldurinn nú mælt í fjölda greindra smita og dauðsfalla. Árangur Taívana hefur ekki látið á sér standa. Dauðsföll af völdum veirunnar á Taívan hafa verið sárafá sem er eftirtektarvert þegar hafður er í huga stríður straumur ferðamanna milli Taívans og meginlands Kína. Árangur Taívana er einnig sérlega lofsverður í ljósi þess að Kínverjar hafa beitt neitunarvaldi til að meina Taívan aðild að Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (AHS). Gögn um árangur Taívans í viðureigninni við kórónuveiruna er því hvergi að finna í gagnasafni AHS. Landið með pálmann í höndunum fær ekki að vera með. Heilbrigðistryggingar á Taívan ná til allra landsmanna og hefur svo verið frá 1995. Taívanar hafa sent tíu milljón grímur að gjöf til Evrópulanda og Bandaríkjanna.
Mörg önnur Asíulönd hafa náð hliðstæðum árangri. Skv. gögnum frá Johns Hopkins háskólanum í Baltimore í Bandaríkjunum eru dauðsföll af völdum veirunnar sárafá einnig í Hong Kong, Japan, Kína og Singapúr og eru Hong Kong og Singapúr þó óvenjulega þéttbýl borgríki, sannkallað kjörlendi fyrir farsóttir. Kína er kafli út af fyrir sig þar eð fyrstu viðbrögð stjórnvalda þar voru að þagga veiruna niður og fangelsa þá sem sögðu frá henni, en skömmu síðar sáu þau ljósið og gripu þá til harkalegra aðgerða til að kveða veiruna niður. Það tókst. Greind smit og dauðsföll í Bandaríkjunum eru nú orðin níu sinnum fleiri en í Kína. Munurinn á eftir að aukast til muna fari svo sem horfir og eru Kínverjar þó rösklega fjórum sinnum fleiri en Bandaríkjamenn. Þessi munur á fjölda smita og dauðsfalla af völdum veirunnar kann að hafa stórpólitískar afleiðingar þegar frá líður því svo mjög hlýtur álit Bandaríkjanna að laskast við þetta í augum umheimsins. Um Indland er minna vitað sem stendur annað en að ríkisstjórnin þar greip til harðra aðgerða með því að loka landinu 24. marz. Skráð smit og dauðsföll þar eru fá enn sem komið er, einn áttundi af skráðum dauðsföllum í Kína. Það er þó trúlega vanmat. Um Afríku er að svo stöddu enn minna vitað. Fólkið þar líkt og víðast hvar um Indland þekkir ekki annað en þröngbýli. Varnir gegn farsóttum eru eftir því veikburða.
Trump þrætti vikum saman fyrir farsóttina og gerði lítið úr henni
Vandi Bandaríkjanna
Bandaríkin eru ekki síður en Kína kafli út af fyrir sig. Trump forseti þrætti vikum saman fyrir farsóttina og gerði lítið úr henni – og ekki bara hann, heldur einnig Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem lenti sjálfur í bráðri lífshættu af völdum veirunnar en slapp með skrekkinn. Ekki bara þessir tveir tóku seint við sér heldur einnig yfirvöld sums staðar annars staðar í Evrópu, t.d. á Ítalíu og Spáni, með þeim afleiðingum að dauðsföll þar eru það sem af er enn fleiri miðað við höfðatölu en í Bandaríkjunum, en það á væntanlega eftir að breytast Evrópulöndunum í vil. Þá er ónefndur forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, sem er allur á bandi Trumps forseta og heldur áfram að þræta fyrir faraldurinn. Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, fyllir sama flokk. Hann mælir með vodka gegn veirunni. Trump forseti hefur ákveðið að skera niður fjárveitingar til AHS í miðjum faraldri með stuðningi flokksbræðra sinna á Bandaríkjaþingi.
Fyrir tilstilli AHS höfðu öll lönd nema Taívan samtímis aðgang að sömu upplýsingum um faraldurinn. Asíulöndin brugðust skjótar við þar eð þau höfðu haldið vöku sinni. Bandaríkin og sum Evrópulönd sváfu á vaktinni. Þar er sannarlega ekki við AHS að sakast heldur stjórnvöld á hverjum stað. Þau sváfu yfir sig. En Bandaríkin ein reyna að skella skuldinni á AHS eins og brennuvargur í slökkviliði.
Bandaríkin eru nú taugamiðja heimsfaraldursins, landið þar sem smitin og dauðsföllin eru flest og þeim fjölgar mest. Skýringin á þessari niðurlægingu blasir við og rúmast í tveim orðum eða þrem: Donald Trump og repúblikanar. Við bætist að faraldurinn afhjúpar dauðadjúpar sprungur í bandarísku samfélagi, sprungur sem margir vita um og hafa fjallað um án þess að ná eyrum almennings nema til hálfs. En það kann að breytast þegar sprungurnar kosta fólk lífið í tugþúsundatali eins og nú er að gerast. Veiran er miklu mannskæðari meðal blökkumanna en hvítra. Hvers vegna? Blökkumenn búa við mun lakari kjör og heilsu en hvítir og eru því síður í stakk búnir að mæta veirunni. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Hvaða fólki þurfti að bjarga af húsþökum í New Orleans þegar flóðgarðarnir þar brustu 2005? Það var einkum blökkufólk. Veiran fer ekki í manngreinarálit. Það ætti að vekja til umhugsunar suma þeirra sem hafa hingað til látið eins og þeim kæmi misskipting tekna, auðs og heilbrigðis í Bandaríkjunum ekki við.
Faraldurinn afhjúpar dauðadjúpar sprungur í bandarísku samfélagi
Vítisvél misskiptingar
Anne Case og Angus Deaton, hagfræðiprófessorar í Princeton-háskóla, lýsa bandarískri heilbrigðisþjónustu sem vítisvél misskiptingar. Bandaríkjamenn verja tvisvar sinnum hærra hlutfalli landsframleiðslu sinnar til heilbrigðismála en margar Evrópuþjóðir og lifa samt fjórum árum skemur að jafnaði. Lyfjafyrirtækin sem bera ábyrgð á hundruðum þúsunda dauðsfalla í örvæntingu á hverju ári halda úti fimm erindrekum í Washington fyrir hvern kjörinn fulltrúa á Bandaríkjaþingi. Svimandi reikningar fyrir læknishjálp eru algengasta orsök einstaklingsgjaldþrota í Bandaríkjunum.
Og nú birtist einn bresturinn enn: Heilbrigðistryggingar tuga milljóna bandarískra launþega eru í höndum vinnuveitenda. Nú þegar rösklega 20 milljónir Bandaríkjamanna hafa skyndilega misst vinnuna af völdum veirunnar bíða flestir þeirra tvöfalt tjón því þeir missa þá einnig heilbrigðistrygginguna, og var þó fjöldi ótryggðra Bandaríkjamanna ærinn fyrir. Svo alvarlegt er ástandið sem blasir nú við að erfitt er að hugsa sér annað en að það leiði til gagngerrar uppstokkunar heilbrigðis- og tryggingakerfisins í landinu.
Sem leiðir hugann að einu atriði enn. Ein ástæðan til þess að kaupmáttur venjulegra launa í Bandaríkjunum hefur staðið í stað í 40 ár meðan auðmenn hafa ýmist mjakað sér eða flogið upp eftir tekjustiganum er einmitt sú að sívaxandi kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og trygginga hefur íþyngt vinnuveitendum svo að þeir hafa þurft að láta launaþáttinn víkja. Í þessu ljósi þarf að skoða þá staðreynd sem Seðlabanki Bandaríkjanna hefur lýst í nýlegum skýrslum sínum: að fjórar af hverjum tíu bandarískum fjölskyldum lifa svo frá hendinni til munnsins að þær ráða ekki við óvænt útgjöld umfram 400 dollara, en það er t.d. verðið sem greiða þarf fyrir ný dekk undir bíl. Allt þetta hangir saman.
Bandaríkjamenn verða að taka sér tak. Annars getur farið svo að álitlegur hluti heimsbyggðarinnar snúi baki við þeim og kjósi að líta heldur til Kína sem forusturíkis í heimsmálum þrátt fyrir einræði, offors og mannréttindabrot. Bandarískt lýðræði á nú einnig undir högg að sækja eins og ég og margir aðrir hafa lýst með auknum þunga undangengin misseri, nú síðast Paul Krugman, prófessor og dálkahöfundur í New York Times.
Nú er um tvennt að tefla: að duga eða drepast.
Athugasemdir