Hótel á Suðurlandi er sagt hafa reynt að láta starfsmann hjá sér undirrita uppsagnarbréf aftur í tímann í kjölfari COVID-faraldursins gegn loforði um starfsmaðurinn myndi fá vinnu þegar efnahagsástandið myndi batna. Þetta herma heimildir Stundarinnar. Ábending um málið barst til ASÍ. Stundin hefur tvær sjálfstæðar heimildir fyrir því um hvaða hótel er ræða. Eigandi hótelsins sem jafnframt er hótelsstjóri neitar því í samtali við Stundina að hafa gert starfsmanni slíkt tilboð og segir starfsmann hugsanlega hafa viljað hefna sín.
Með því að láta starfsmann undirrita ranglega dagsett uppsagnarbréf aftur í tímann getur atvinnurekandi sparað að greiða viðkomandi starfsmanni laun á uppsagnarfresti eða þá tafið fyrir því að fyrirtæki viðkomandi verði sett í þrot ef það á ekki fyrir skuldbindingum sínum gagnvart starfsfólki. Í slíkum tilfellum geta stéttarfélög viðkomandi starfsmanna hlaupið undir bagga með starfsfólki tímabundið og svo í kjölfarið ábyrgðarsjóður launa.
„Það er þessi óhugnanlega stemning í fyrirtækjunum núna“
Verkalýðsfélög, Vinnumálastofnun og aðrir aðilar sem fylgjast og standa vörð um réttindi launþega fá nú fjöldan allan af ábendingum um tilraunir atvinnurekenda til að brjóta á réttindum starfsfólks síns og misnota sér tímabundin úrræði eins og hlutabótaleiðina svokölluðu. Mörg fyrirtæki, ekki síst í ferða- og veitingaþjónustu eins og hótel, eru í afar þröngri stöðu eftir að fjöldi ferðamanna skrúfaðist niður í ekki neitt nánast á einni nóttu. Um allt land standa galtóm hótel sem fá engar, eða litlar, tekjur.
Athugasemdir