„Þau eru eins og innilokaðir geimfarar á gjörgæslu.“ Þetta skrifar Tómas Guðbjartsson hjartalæknir á Facebook-síðu sinni þar sem hann lýsir ástandinu sem var um helgina á þeim hluta gjörgæsludeildar Landspítala þar sem COVID-19 sjúklingar njóta meðhöndlunar.
„Í kvöld náði ég þessu skemmtilega skoti á milli stríða - í gegnum öryggisrúðu á gjörgæsludeildinni við Hringbraut. Hjúkrunarfræðingarnir á Covid-stofunni okkar minna helst á geimfara á leið til tunglsins. Vírnetið í öryggisrúðunni tengir mig hins vegar við rimla í fangelsi - enda taka hjúkrunarfræðingarnir okkar 3-4 klst. tarnir þarna inni, tvisvar á vakt, án þess að nærast eða komast á klósett,“ skrifar Tómas.
„Það er einfaldlega gert til að minnka smithættu og þurfa ekki að skipta um hlífðarföt að óþörfu. Það vantar samt ekki gleðina. Mér finnst ég ná að fanga stemmninguna í öllu annríkinu en það var vinur minn RAX sem á heiðurinn að myndvinnslunni, þ.e. gera „rimlana“ skýrari,“ skrifar Tómas og á þar við Ragnar Axelsson ljósmyndara.
Athugasemdir