Endurreisnartíminn var mikill örlagartími í sögu páfastóls og hér segir frá tíu páfum sem sátu á hásæti Péturs postula. Flestir voru þeir gallagripir miklir.

PÍUS 2.
1458-1464
Hann hét réttu nafni Enea Piccolomini og var landeigendaaðli en þurfti að vinna á ökrunum eins og hver annar á æskuárum. Hann gekk í þjónustu kirkjunnar og náði smátt og smátt frama sem endaði með því að hann var kjörinn páfi.
Píus lét reka á reiðanum í vaxandi innanlandsófriði á Ítalíu, en er annars þekktur fyrir þrennt.
Hann skrifaði sjálfsævisögu sína í 13 bindum sem er stórmerk heimild um ævi hans og ástand kirkju og samfélags á Ítalíu á 15. öld.
Þá reyndi hann að hefja krossferð gegn Ottómanaveldi Tyrkja á Balkanskaga en krossferðin fjaraði út. Hún hafði þær einu afleiðingar að Skanderbeg höfðingi Albana hóf uppreisn gegn Tyrkjum sem lengi stóð en endaði með fullum sigri Tyrkja. Píus dó úr hitasótt þegar hann fór til Ancona til að reyna að hvetja leifar krossfarahersins áfram.
Og í þriðja lagi þá er Píus eini páfinn sem skrifaði klámsögu, Sögu tveggja elskenda, að vísu áður en hann varð páfi. Klámið myndi reyndar ekki þykja mjög djarft á vorum dögum. Og blautleg kvæði ýmisleg komu líka úr hans penna.

PÁLL 2.
1464-1571
Hann var af verslunarfólki í Feneyjum en gekk í þjónustu kirkjunnar og var kallaður „vor frú samlíðunar“ þegar hann heyrði ekki til. Ekki mun það hafa verið vegna kynhneigðar, sem fáum sögum fer af.
(Ein saga hermir raunar að dauðinn hafi kallað meðan ungur piltur var að athafna sig á rassi hans, en sú sögn er ekki talin verulega marktæk.)
Heldur stafaði viðurnefnið af því hans heilagleiki naut þess að klæða sig upp í afar skrautlegar hempur, sem þóttu líkjast íburðarmestu kvenkjólum.
Páll barðist gegn frjálslyndi og húmanisma en stóð þó um leið fyrir aukinni prentun bóka af ýmsu tagi. Páll skipaði vildarvini sína í kardínálastöður og rakaði að sér svo miklum persónulegum auðæfum að þegar hann dó fundust í fórum hans 54 stórar skeljar úr skírasilfri, sem voru 300.000 dúkata virði, en það var geypifé. Sömuleiðis skartgripir og gull upp á aðra 300.000 dúkata, og undursamlegur demantur sem var 7.000 dúkata virði, og svo 800 aðrir gimsteinar.
Auðsöfnun Páls er vitnisburður um að á páfastól var nú litið í æ meira mæli sem tækifæri fyrir ágjarna höfðingja til að auðgast.

SIXTUS 4.
1471-1484
Hann hét réttu nafni Francisco della Rovere og var af miðstéttarfólki, má segja, en komst til áhrifa innan kirkjunnar.
Hann er frægastur fyrir að hafa hafið byggingu Sixtínsku kapellunnar í Róm þar sem Michelangelo málaði seinna sínar frægu myndir á loftið (sjá Klemens 7.).
Sixtus tók mikinn þátt í pólitík þeirra tíma, bæði á Ítalíu (þar sem erjur fóru mjög vaxandi og útlenskir herir voru gjarnan á ferð) og í baráttu gegn múslimum í Norður-Afríku. Hann staðfesti fyrri álit páfastóls um að kristnum væri heimilt að taka múslima sem þræla.
Sixtus varð frægur fyrir að raða ættingjum sínum í öll feit embætti kirkjunnar, og þrálátar sögur hermdu að snotrum ungpiltum stæðu til boða hallir og háar stöður væru þeir eftirlátir við páfa í rúminu.

INNOSENTÍUS 8.
1484-1492
Hann var af valdaætt í Genúa en braust til valda í kirkjunni og náði loks í hásæti Péturs. Hann er frægastur fyrir að stutt mjög við bakið á þýska rannsóknardómaranum Kramer gaf út frægt rit, Malleus malificarum, eða Nornahamarinn.
Það er eins konar kennslubók í nornafræðum og var notað til að hefja grimmilegar ofsóknum gegn meintu galdrafólki, ekki síst konum.
Innosentíus skipaði líka Tomas de Torquemada æðsta rannsóknara á Spáni, þar sem hann fór síðan hamförum gegn meintum villutrúarmönnum. Innosentíus þáði að gjöf 100 múslimska þræla frá kónginum í Aragon og dreifði þeim milli kardínála sinna í stað þess að gefa þeim frelsi.
Þegar hann lá banaleguna reyndi læknir hans að bjarga lífi páfa með því að gefa honum blóð úr þremur unglingspiltum. Þetta er talið fyrsta þekkta dæmið um blóðgjöf í lækningasögu.
Auk páfa létu piltarnir þrír allir lífið.

ALEXANDER 6.
1492-1503
Hann hét réttu nafni Rodrigo Borgia (upphaflega Borja) og var af spænskri aðalsætt en komst til metorða innan kirkjunnar í Róm. Þar notaði hann áhrif sín til að skara eld að eigin köku og fjölskyldu sinnar, svo Donald Trump er ekki einu sinni hálfdrættingur í þeim samanburði.
Alexander hélt fjöldamargar ástkonur og átti meðal annars börnin Caesare og Lucreziu, víðfræg úr hneykslissögum endurreisnartímans.
Eftir að Rodrigo varð sjálfur páfi varð páfastóll sem einkafyrirtæki Borgia-fjölskyldunnar.
Hirðlífið varð frægt fyrir munað, óhóf og lausung og páfinn fór ekkert í felur með fjörugt ástalíf sitt.
„Sannkallað illmenni,“ er algengasti dómurinn um Alexander.

PÍUS 3.
1503
Við lát Alexanders páfa deildu Borgia og Della Rovere ættirnar hart um hver skyldi hreppa páfastólinn. Úr varð að systursonur Píusar 2. var valinn sem málamiðlun.
Hinn nýi páfi tók við 22. september og byrjaði strax að undirbúa umbætur á kirkjunni, ekki síst í fjármálum. Einnig ætlaði hann að draga úr veraldlegum umsvifum kirkjunnar og hætta að þátt í stjórnmálaerjum og jafnvel styrjöldum.
„Ég ætla ekki að vera stríðspáfi,“ sagði hann, „ég ætla að vera friðarins páfi.“
Ekki vannst honum tími til að gera neitt, hvorki til stríðs né friðar, því 18. október dó hann, að sögn vegna blóðeitrunar eftir að skera þurfti í fót hans vegna bólgu.
Sögusagnir kviknuðu þó auðvitað um að valdamenn einhverjir hefðu látið myrða hann. Píus 3. ríkti í 26 daga og eru varla dæmi um páfa sem skemur hafa setið.

JÚLÍUS 2.
1503-1513
Hann hét Giuliano della Rovere og var frændi Sixtusar.
Ætt hans hafði deilt mjög við Borgia-fólkið en nú tók hann til hendinni og treysti völd ættar sinnar. Annars fór mestur tími hans í ítalskar stjórnmálaerjur.
Segja má að allsherjarstyrjöld hafi geisað á Ítalíu og hart var sótt að páfadómi, en Júlíusi tókst að bjarga málum, svo páfastóll sem veraldleg valdastofnun var ekki úr sögunni.
Júlíus naut mjög ásta á páfastóli, sennilega með fólki af báðum kynjum, en var ekki eins hömlulaus á því sviði og sumir aðrir páfar.
Hann hóf byggingu þeirrar Péturskirkju í Róm sem nú stendur, en sú bygging átti eftir að verða söguleg og taka langan tíma. Hann hóf sölu aflátsbréfa til að fjármagna kirkjubygginguna en með því að kaupa þau gat fólk keypt sig frá vist í hreinsunareldinum vegna synda sinna.

LEÓ 10.
1513-1521
Leó hét upprunalega Giovanni de Medici og var sonur hins forríka og gjörspillta ráðamanns Flórens-borgar, Lorenzo de Medici. Leó var kátur og lífsglaður og naut hins ljúfa lífs út í æsar.
Mikið fjör var ævinlega við hirð hans og hann studdi fjölda listamanna með peningum kirkjunnar.
Á sama tíma jókst aflátssalan enn og varð alveg taumlaus, flestu sómakæru fólki til hneykslunar en fáir stóðust þó freistinguna að kaupa sér frelsi frá hundruðum eða þúsundum ára í hreinsunareldinum.
Leó lét til hagræðingar útbúa nákvæma lista þar sem fram kom hvað hver synd kostaði.
Afleiðingin varð klofningur í kirkjunni eftir að þýski munkurinn Marteinn Lúther negldi sínar 95 mótmælagreinar á kirkjudyr í Wittenberg.
Lúther hafði verið í Róm og fylgst hinu káta hirðlífi Leós og kvartaði ekki síst undan því hve opinskátt hann og prélátar hans gömnuðu sér með kornungum piltum í kirkjuveislum.

ADRÍAN 6.
1522-1523
Hann hét í raun og veru Adrían og Florensz að eftirnafni, en var þó ekki frá Flórens heldur var hollenskur. Mjög óvenjulegt var að páfar héldu sínu rétta nafni er þeir fengu rauða páfahattinn til afnota.
Hann var síðasti páfinn af öðru þjóðerni en ítölsku þar til 1978 þegar hinn pólski Jóhannes Páll 2. tók við.
Adrían missti af gullvægu tækifæri til að sættast við hina vaxandi mótmælahreyfingu Lúthers og fleiri í Þýskalandi þegar hann heimtaði að Lúther legði af alla andstöðu við hina heilögu kirkju í Róm.
Þó viðurkenndi Adrían fúslega að mótmælin væru sök Rómarkirkju sjálfrar og byrjaði að feta sig í átt til umbóta. En Adrían varð of skammlífur til að á það reyndi.

KLEMENS 7.
1523-1534
Hann hefur verið kallaður „ólánsamasti páfi sögunnar“ enda gekk allt á afturfótunum hjá honum.
Hann hét réttu nafni Giulio de Medici. Hann og Leó 10. voru bræðrasynir og flökkuðu saman um Evrópu á æskuárin eftir að Medici-fjölskyldan var um tíma gerð útlæg frá Flórens.
Klemens mun hafa þótt dyggðugur maður og vel gefinn en á páfastóli réði hann hvorki við vaxandi mótmælahreyfingu í norðri né rósturnar á Ítalíu.
Einn af lágpunktum páfastóls var 1527 þegar málaliðaher Karls 5. keisara Germanska veldisins („Hins heilaga rómverska ríkis“) tók upp hjá sér að ráðast á Róm og fara þar um rænandi og ruplandi. Málaliðarnir handtóku páfa og höfðu hann í haldi í hálft áður áður en hann slapp, dulbúinn með förumaður.
Klemens náði aftur til Rómar og sættist við Karl en borgarbúar fyrirgáfu honum aldrei fyrir að hafa kallað yfir sig ræningjaherinn.
Klemens réði Michelangelo til að mála loftið í sixtínsku kapellunni fyrrnefndu en er að öðru leyti kannski frægastur fyrir að hafa bannað Hinrik 8. Englandskóngi að skilja við konu sína Katrínu af Aragón, sem varð til þess að Hinrik rauf samband við Rómarkirkju.

Athugasemdir