Eigendur Bláa lónsins geta sparað sér nærri 600 milljónir króna í beinar launagreiðslur til 400 starfsmanna sinna á þriggja mánaða tímabili með nýju hlutabótaleiðinni í stað þess að segja fólkinu upp og greiða því laun út uppsagnarfrestinn. Sparnaðurinn nemur 197 milljónum króna á mánuði. Þetta er mat sem byggir á reiknuðum meðallaunum starfsmanna Bláa lónsins árið 2018, en þau námu þá 657.168 krónum.
Bláa lónið greindi frá því í síðustu viku í tilkynningu til starfsmanna að 164 starfsmönnum fyrirtækisins hefði verið sagt upp og að 400 starfsmenn myndu fara á hlutabætur í gegnum íslenska ríkið. Ástæðan er tekjufall Bláa lónsins og lokun þess vegna Covid-faraldursins. Í hlutabótaleiðinni felst að atvinnurekandi greiðir einungis hluta launa starfsmannsins, í minnsta lagi 25 prósent, á meðan ríkið greiðir allt að 75 prósent upp að vissu marki.
Starfsmenn með ríflega 657 þúsund krónur á mánuði verða fyrir 150 þúsund króna launaskerðingu við þetta, samanborið við að halda störfum sínum eða að fá greidd laun á uppsagnarfresti í þrjá mánuði. En á móti kemur að þeir halda störfum sínum meðan vinnuveitandi þeirra nýtir sér úrræðið.
„Við erum að reyna að verja þessi 600 störf“
Vinnuveitandinn sleppur þá líka við að greiða starfsmönnum sínum full laun á uppsagnarfresti sem og að halda mannauði inni í fyrirtækinu sem starfsmönnum á erfiðum óvissutímum.
Launagreiðslan lækkar um rúma hálfa milljón
Tekið skal fram að þetta er mat og kann að vera að meðal launakostnaður þessara 400 starfsmanna sé lægri en meðallaunakostnaður allra hjá fyrirtækinu á árinu 2018. Þá er einnig óljóst hversu lengi Bláa lónið mun þurfa að nýta sér hlutabótaleiðina og byggir það á því hversu langvinnar aðstæðurnar verða.
Grímur Sæmundsen, forstjóri og stærsti hluthafi Bláa lónsins, hefur ekki svarað spurningum Stundarinnar um kostnaðarsparnað fyrirtækisins við að fara hlutabótaleiðina.
Þetta mat byggir hins vegar á þeim opinberu tölum sem fyrir liggja um starfsemi Bláa lónsins í síðasta birta ársreikningi félagsins. Einnig er gengið út frá því að uppsagnarfrestur þessara starfsmanna sé þrír mánuðir eins og reglan er hjá fastráðnum starfsmönnum fyrirtækja að öllu jöfnu.
Með hlutabótaleiðinni, og að því gefnu að starfshlutfall viðkomandi fari niður í 25 prósent, þarf Bláa lónið einungis að greiða hverjum starfsmanni 164.292 krónur að meðaltali á mánuði. Ríkið greiðir svo 342.303 krónur til hvers starfsmanns í gegnum Vinnumálastofnun, samkvæmt reiknivél um hlutabæturnar sem finna má á heimasíðu Bandalags háskólamanna. Launagreiðslur Bláa lónsins til hvers starfsmanns lækka því um rúmlega 500 þúsund krónur að meðaltali.
Á þriggja mánaða tímabili þýðir þetta að Bláa lónið þarf að greiða þessum 400 starfsmönnum samtals rúmlega 197 milljónir króna í bein laun stað þess að greiða þeim nærri 789 milljónir króna í laun á uppsagnarfresti ef þeim hefði verið sagt upp eða ef þeir hefðu haldið störfum sínum óbreyttum. Munurinn á milli þessara upphæða er 591 milljón króna.
Umdeild ríkisaðstoð
Þessi aðgerð Bláa lónsins að vera eitt fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að ætla að notfæra sér hlutabótaleiðina sem lögfest var til að aðstoða fyrirtæki, og starfsmenn þeirra, sem verða fyrir barðinu á efnahagslegum afleiðingum Covid-faraldursins hefur vakið mikla athygli.
Áhrifin af Covid-faraldrinum á rekstur Bláa lónsins eru sannarlega snörp og mikil þar sem um 98 prósenta gesta lónsins eru erlendir ferðamenn. Vegna faraldursins er nær engin flugumferð til og frá Íslandi og engir ferðamenn á landinu. Fyrirtækið er því sannarlega í erfiðri stöðu, það missir tekjugrundvöll tímabundið nánast á einnu nóttu og neyðist til loka hjá sér.
Hins vegar hefur Bláa lónið verið arðbært fyrirtæki á liðnum árum enda er lónið einn vinsælasti og þekktasti ferðamannastaður Íslands. Á grundvelli hagnaðar fyrirtækisins, sem numið hefur ríflega 24 milljörðum króna fyrir fjármagnsliði frá árinu 2011, hefur fyrirtækið getað greitt hluthöfum sínum rúmlega 12 milljarða króna arð. Fyrirtækið á miklar eignir og var eiginfjárstaða þess jákvæð um ríflega 12 milljarða króna í árslok 2018.
Ein af spurningunum sem vaknað hefur vegna þessarar ákvörðunar Bláa lónsins er hvort félagið hafi ekki getað nýtt sitt eigið fjármagn lengur til að standa við skuldbindingar gagnvart starfsfólki. Eins af hverju eigendur félagsins setji ekki meira fé í fyrirtækið sjálfir nú þegar á móti blæs. Í staðinn hleypur ríkið undir bagga með þessu stöndugu fyrirtæki strax í upphafi Covid-krísunnar.
Grímur: Snýst um starfsmennina
Í viðtali við Morgunútvarp RÚV á mánudaginn sagði Grímur Sæmundsen, aðspurður um af hverju fyrirtækið nýtti ekki sitt eigið fé í þessari stöðu í stað þess að leita til ríkisins eftir aðstoð, að ákvörðun Bláa lónsins snérist um að verja 600 störf hjá fyrirtækinu: „Já það er svo sem alveg eðlilegt að menn spyrji að þessu. […] En kjarninn er sá að við erum að reyna að verja þessi 600 störf. Og ef við hefðum ekki nýtt þetta úrrræði, sem ég tel að hafi verið mjög gott útspil hjá ríkisstjórninni, að reyna að tryggja ráðningarsamband milli fyrirtækja og starfsmanna sem lengst, og minnka þörf á uppsögnum, þá hefðu í okkar tilfelli uppsagnirnar verið meiri, og höggið þeim megin bara meira. Þannig að við teljum okkur vera að vinna með stjórnvöldum í að reyna að verja þessi störf. Og það er okkar verkefni.“
Grímur undirstrikaði því að fleiri starfsmönnum hefði verið sagt upp án hlutabótaleiðarinnar. Hann minntist hins vegar ekkert á að það getur einnig verið hagkvæmt fyrir eigendur Bláa lónsins að nýta sér hlutabótaleiðina í stað þess að segja fleiri starfsmönnum upp.
Á meðan á óvissunni út af Covid-faraldrinum stendur - óljóst er hvort hún verður til staðar lengur en þrjá mánuði á þessari stundu - þá geta þeir sparað sér launagreiðslur til 400 starfsmanna og þar af leiðandi ekki gengið eins mikið á eignir Bláa lónsins. Lögin um hlutabótaleiðina gilda til 1. júní. Óljóst er á þessari stundu hvort Bláa lónið mun geta opnað aftur þá eða ekki og er mögulegt að gildistími laganna verði þá framlengdur og að starfsmennirnir 400 haldi áfram að fá greidd laun frá ríkinu að mestu.
Í viðtali við Stundina sagði Grímur jafnframt að til greina kæmi hjá hluthöfum að setja meira fé inn í félagið.
Hafa ekki svarað spurningunum
Stundin hefur sent Grími Sæmundsen, stærsta hluthafa Bláa lónsins og forstjóra þess, tölvupóst með spurningum um áætlaðan sparnað Bláa lónsins af því að setja starfsmennina 400 á hlutabætur í stað þess að segja þeim upp. Spurningarnar voru sendar og var beiðni um að þeim yrði svarað ítrekuð tvisvar.
Grímur hafði ekki svarað spurningunum þegar fréttin var birt.
Athugasemdir