Allar deildir Landspítala eru nú viðbúnar því að taka á móti COVID-19 smituðum sjúklingum sem þurfa að leita á spítalann af ýmsum orsökum. Núna liggja 20 manns í sóttkví á ýmsum deildum spítalans. 72 börn eru undir eftirliti frá Barnaspítala Hringsins vegna veirunnar.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir að þessu fylgi ekki að legurúmum hafi verið fækkað á spítalanum, á allflestum deildum hans séu einkastofur sem nota megi í þessum tilgangi.
„Ef á spítalann kemur einstaklingur með staðfest COVID-19 smit og ástæða komunnar er önnur en smitið, þá tekur sú deild sem á við í því tilviki að sjálfsögðu á móti honum og hann fær þá læknishjálp sem hann þarf og hann viðheldur þá þar sinni einangrun,“ segir Anna Sigrún.
Hún segir að ekki sé verið að útskrifa fólk fyrr af spítalanum en venja er vegna faraldursins. „Okkur hefur tekist mjög vel að sinna okkar verkefnum þrátt fyrir þetta aukaálag og ég á ekki von á öðru en að svo verði áfram, segir Anna Sigrún. „Við höfum ekki sent neinn heim sem ekki er útskrifarhæfur og fólk er hér að sjálfsögðu í meðferð eins og alltaf af ýmsum ástæðum.“
Á vefsíðu Landspítala kemur fram að nú liggja 30 sjúklingar með staðfest COVID-19 þar. Af þeim eru tíu á gjörgæsludeild og sjö þeirra eru í öndunarvél. Sex liggja inni á spítalanum vegna gruns um COVID-19 smit og hefur fjöldi slíkra sjúklinga tvöfaldast síðan í gær þegar þeir voru þrír.
Deildir undirbúnar til að verða COVID-deildir
Deild A7, sem er smitsjúkdómadeild, er nú eingöngu ætluð COVID-19 smituðum og allt stefnir í að deild A-6, lungnadeild, muni einnig þjóna því hlutverki, að sögn Önnu Sigrúnar. Deildir B-5, E-6 og 12-B hafi einnig verið undirbúnar fyrir þessa notkun.
Á vefsíðu Landspítala kemur fram að alls hafi 53 frá upphafi verið lagðir inn á spítalann vegna COVID-19 smits. 936 eru undir eftirliti frá COVID-göngudeild og 72 börn eru í eftirliti Barnaspítala Hringsins vegna COVID-19. Þeim hefur fjölgað um sex síðan í gær.
Athugasemdir