Strætó minnkar akstur á höfuðborgarsvæðinu vegna COVID-19 frá og með þriðjudeginum 31. mars. Frá og með deginum í dag verður öllum næturakstri úr miðbænum hætt.
„Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna kórónuveirunnar og fækkun viðskiptavina mun Strætó draga úr þjónustu og minnka akstur tímabundið,“ segir í tilkynningu frá Strætó. „Á virkum dögum munu strætisvagnar höfuðborgarsvæðisins aka samkvæmt laugardagsáætlun. Aukaferðum verður bætt við á morgnana til að akstur hefjist á svipuðum tíma og á venjulegum virkum degi. Akstur á laugardögum og sunnudögum verður að öðru leyti óbreyttur.“
Einu undantekningarnar eru að leið 31 mun aka á hálftíma fresti fyrir og eftir hádegi á virkum dögum, pöntunarþjónustuleiðirnar 27 og 29 aka samkvæmt hefðbundinni áætlun og leiðir 16, 22, 33 og 34 hætta öllum akstri.
„Frá og með aðfaranótt laugardags 28. mars verður öllum næturakstri úr miðbænum hætt,“ segir í tilkynningunni. „Biðstöðvatöflum á stoppistöðvunum verður ekki breytt. Farþegar skulu frekar skoða áætlaða tíma inn á heimasíðu Strætó eða í Strætó appinu.“
Athugasemdir