Hagkerfið er hringrás viðskipta. Þetta er einskonar stólaleikur. Í venjulegu árferði er tveimur stólum bætt við og einn tekinn burt til að allir séu á tánum. Þannig er hægt að tryggja að takmarkaðar auðlindir nýtist á hagkvæman hátt og fólk sé ekki að vinna við tóma vitleysu heldur virðisskapandi lausnir.
Það sem vírusinn hefur gert á örfáum vikum er að kippa um það bil helmingi stóla undan þátttakendum í íslensku hagkerfi. Mikið af rekstri er í frjálsu falli.
Aðgerðirnar sem mestu skipta sem ráðist hefur verið af hálfu hins opinbera eru annarsvegar vítamínkokteill fyrir bankakerfið og rýmkun til skamms tíma á atvinnuleysisbótakerfinu. Þó að fleiri aðgerðir hafi verið tilkynntar má draga saman stöðuna þannig að bankar hafa fengið hvatningu til að lána og til skamms tíma geta rekstraraðilar dregið verulega úr launakostnaði, um 75%.
Fyrir rekstur sem samkomubannið hefur bein áhrif á — flest lítil og meðalstór fyrirtæki, öll fyrirtæki í ferðamannageira og fleiri til — nægir þetta ekki. Við þurfum fleiri stórar aðgerðir til að tryggja viðnámsþrótt og að hagkerfið geti raunverulega spyrnt við fótunum eftir veiruna.
Í þessum stólaleik — með tilliti til áhrifa veirunnar — þarf einfaldlega að stöðva leikinn. Þetta getum við gert með því að gefa öllum íslenskum fyrirtækjum og heimilum sem skulda í krónum frí frá greiðslum á meðan vírusinn gengur yfir. Gjalddögum verði þá bætt aftast á öll lán og höfuðstóll uppreiknaður samkvæmt lántökuskilyrðum. Sama ætti að gilda um leigugreiðslur af húsnæði, fasteignagjöld og tryggingar.
Staðreyndin er einföld. Heilu og hálfu geirarnir hafa verið beðnir um að leggja niður starfsemi sína og aðrir þurrkast upp við lokun landamæra. Eftir sitja samningsbundin ákvæði um greiðslur, þ.á.m. uppsagnarfrestir. Slík ákvæði eru frá hinu opinbera sem gerði líklega aldrei ráð fyrir að biðja um fyrirvaralausa lokun á starfsemi.
Tveir gallar á brúarlánum
Bankakerfið hefur lánað 248 milljarða til ferðamannageira eða um 8-10% af lánabókum. Bankarnir eru nú með mörg spil á hendi sem ríkisstjórnin hefur rétt þeim. Að öllum líkindum munu þeir vinna fyrst og fremst með fjársterkum aðilum í ferðamannageira en láta aðra róa. Þá skal þess getið að bankarnir hafa haft frumkvæði af því að frysta lán sinna viðskiptavina nú þegar.
Það eru tveir gallar á brúarlánum þar sem ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir um 35 milljarða ríkisábyrgð á nýjum útlánum til reksturs í hættu vegna veirunnar.
Fyrri gallinn er að bankarnir munu nota brúarlán fyrst og fremst fyrir fjársterkustu aðilana. Viðkvæmir aðilar, sem eru ekki endilega þeir skuldsettustu, verða látnir róa. Lexían frá 2008 er sú að bankar lána ekki nema þeir séu bjartsýnir. Vítamínsprautur eins og vaxtalækkun, tryggingar, eiginfjárkvaðir og lausafjárstaða breytir því ekki.
Hinn gallinn er að aukin skuldsetning dregur úr viðspyrnu þegar birtir til í hagkerfinu.
Það er ekki þar með sagt að ríkistrygging á lánum sé slæm hugmynd útaf fyrir sig. En hún nægir ekki ein og sér. Greiðslufrí er stórt úrræði sem tekur á báðum þessum göllum og virkar vel meðfram brúarlánum.
Sérstök úrræði fyrir framlínufyrirtæki
Önnur aðgerð sem verður að skoða er að koma sérstaklega til móts við starfsstaði sem hafa verið beðnir um að loka alveg fyrir viðskipti til að koma í veg fyrir smit og aðra þar sem eftirspurn er nálægt núlli útaf landamæralokunum. Þarna er aragrúi af smærri rekstraraðilum sem margir hverjir eru með mikinn launakostnað. Þessir aðilar ættu að geta fært starfsfólk sitt niður í 0% starfshlutfall, ekki bara 25%, á meðan veiran gengur yfir. Sama ætti að gilda um verktaka sem eru í sömu stöðu, t.d. í viðburðargeiranum.
Athugasemdir